Vesturströndin vann.

Greinar

Í ríkisstjórn Reagans Bandaríkjaforseta var Haig utanríkisráðherra eins konar fulltrúi austurstrandarinnar, hinnar hefðbundnu utanríkisstefnu Eisenhowers og Nixons, stefnunnar sem horfði austur yfir hafið til Evrópu.

Austurstrandarmenn réðu þátttöku Bandaríkjanna í tveimur Evrópustyrjöldum. Þeir tóku með Marshallaðstoð þátt í að endurreisa Evrópu ettir síðara stríðið. Þeir stofnuðu Atlantshafsbandalagið með þeim ríkjum, sem þeir töldu standa næst sér.

Bæði fyrr og síðar hefur gengið á ýmsu í samstarfi Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu. En beggja vegna hafsins hafa menn þó til skamms tíma munað eftir sameiginlegum menningararfi og hugmyndaarfi og ekki látið ágreiningsefnin ná of langt.

Vesturstrandarmenn, sem hafa verið við völd í Bandaríkjunum í hálft annað ár, hafa annan sjóndeildarhring. Sumir þeirra líta yfir Kyrrahafið og láta sig meiru skipta bandalög á þeim slóðum en á hinu fjarlæga Atlantshafi.

Aðrir láta sig eingöngu varða meginland Bandaríkjanna og tala jafnvel eins og New York sé í Evrópu. Upp úr þessum jarðvegi heimalninga eru sprottin sjónarmiðin, sem Haig barðist við af fullri hörku, unz hann féll af stalli.

Í Bandaríkjunum hefur breiðzt út sú skoðun, að Vestur-Evrópa sé lélegur bandamaður, sem komi hernaðarútgjöldum sínum yfir á Bandaríkin og sé á bólakafi í kaupsýslu við Sovétríkin. Bandaríkin eigi að láta Vestur-Evrópu eiga sig.

Mörg eru dæmin, sem styðja kenninguna. Vestur-Evrópa sér Kremlverjum fyrir tækni og fé til að leggja langmestu gasleiðslu í heimi. Um leið gleyma Bandaríkjamenn, að þeir sjálfir sjá þessum sömu Kremlverjum fyrir kornmat.

Einnig er sífellt rifjað upp, að útgjöld Vestur-Evrópu til varnarmála eru lægri á hvern íbúa en í Bandaríkjunum. Það gleymist svo, að sum mikilvægustu ríki Vestur-Evrópu eru í alvöru að reyna að minnka bilið.

Gagnkvæmt nöldur af þessu tagi vill magnast, ef menn gæta sín ekki. Bandaríkjamenn segja, að Evrópumenn geti háð sín stríð án bandarískra drengja. Og Evrópumenn segja, að Bandaríkjamenn geti háð sín stríð annars staðar en í Evrópu.

Fyrir hálfu öðru ári komust til valda í Bandaríkjunum menn, sem freistast til að láta Evrópu fara í taugarnar á sér. Þetta eru vesturstrandarmennirnir í kringum Reagan forseta, sem skortir þekkingu og áhuga á utanríkismálum.

Þetta hefur ekki sézt vel á yfirborðinu, af því að í reynd hefur Haig utanríkisráðherra meira eða minna stjórnað utanríkisstefnu Bandaríkjanna og kúgað vesturstrandarmenn með harðri hendi í opinskárri valdabaráttu.

En enginn má við margnum. Hvað eftir annað varð Haig að beita bragði afsagnarhótunar. Slíkar hótanir reynast gjarna digna við notkun. Og þar kom, að Haig var tekinn á orðinu. Hann var látinn standa við áttundu hótunina.

Schulz sá, sem við tekur, kemur ekki úr hinum herbúðunum. Þess vegna er ekki beinlínis ástæða til að óttast kúvendingu í samstarfi Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu. En hann skortir hörku Haigs í slaginn við vesturstrandarmennina.

Vonandi verður valdaskeið vesturstrandarmanna ekki langvinnt. Vonandi átta Bandaríkjamenn sig á, að samstarfið við Vestur-Evrópu er mikils virði, þótt brösótt hafi verið á köflum. Sameinuð standa Vesturlönd og sundruð falla þau.

Jónas Kristjánsson.

DV