Auðleystur útgerðarvandi.

Greinar

Nefnd var það kallað fyrr á árum, þegar blanda þurfti saman misviturra manna ráðum. Síðan Hjörleifur kom til skjalanna hefur það heitið starfshópur. En Steingrími dugir ekki minna en stormsveit. Má segja, að þar hæfi skel kjafti.

Steingrímur og sérfræðingar hans eru að reyna að telja okkur trú um, að þeir séu að fást við mjög torleyst mál, þar sem sé afkoma sjávarútvegsins. Í raun eru þeir ekki að leysa neitt, heldur að hlaða ofskipulagi ofan á ofskipulag.

Ekkert er auðveldara en að leysa vandamál sjávarútvegsins. Gallinn er bara sá, að pólitísk bannhelgi hvílir á skynsamlegum lausnum, auk þess sem Steingrímur þarf að breiða yfir almennt getuleysi sitt sem sjávarútvegsráðherra.

Það er einföld lygi, þegar stormsveitin segir, að gengislækkun leysi engan vanda. Gjaldeyrir er einmitt á útsölu um þessar mundir, svo að fela megi hluta verðbólgunnar. Þetta kemur fyrst og fremst niður á útgerð og fiskiðnaði.

Til þess að sjá þetta þarf að kunna samlagningu og frádrátt. Venjulegt fiskiskip greiðir aflahlut til sjómanna auk afborgana, vaxta, veiðarfæra og olíu. Margt af þessu er innlendur kostnaður, aðeins í óbeinum tengslum við gengi krónunnar.

Það eru bara hinir steingrímsku skuttogarar síðustu missera, sem hafa svo fáránlegan rekstrargrundvöll, að ekkert getur bjargað þeim, ekki einu sinni rétt gengisskráning. Enda eru þeir eingöngu gerðir út á Byggðasjóð og Fiskveiðasjóð.

Það er líka lygi, að ekki megi hagnast á útgerð á kolmunna. Það dugir bara ekki að veiða hann með hangandi hendi, heldur verður að læra af Færeyingum og gera það í fullri alvöru. Það má sem sagt ekki veiða kolmunnann í bræðslu.

Samræmdar rannsóknir Norðmanna, Færeyinga og Íslendinga hafa sýnt, að arðbært er að veiða kolmunna í frost, skreið og marning. Færeyingar hafa í framkvæmd staðfest þetta og Eldborgin er að sýna fram á hið sama hér heima.

Kolmunnaveiðar henta stærstu þorsk- og loðnuveiðiskipunum, einmitt þeim, sem erfiðast er að reka um þessar mundir. Það er kjörið og arðbært verkefni fyrir um 30 skip að ná sama aflaverðmæti í kolmunna og áður fékkst af loðnu.

Ef ríkið hefur aflögu 300 milljónir króna, á ekki að sóa þeim í uppbættur til útgerðar, heldur verja þeim til að styrkja breytingar á þessum skipum, svo að þau henti betur til kolmunnaveiða. Frystivélar um borð ættu að henta vel.

Loks er það lygi, að yfirvofandi gjaldþrot nokkurra grínista í útgerð sé eitthvert vandamál sjávarútvegsins. Það er einmitt bráðnauðsynlegt, að grínistarnir fari á höfuðið, svo að rýmra verði um hina, sem kunna að gera út.

Ef Steingrímur og stormsveit hans ætla að gera sjávarútveginn að próventukarli á borð við landbúnaðinn, getum við öll pakkað saman og farið. Ef sjávarútvegurinn á ekki að fá að halda uppi þjóðfélaginu, getur ekkert komið í staðinn.

Vandumál sjávarútvegsins er fyrst og fremst óhæfur sjávarútvegsráðherra. Steingrímur afsakar linkuna gegn offjölgun fiskiskipa með því að gera það að flokksmáli, að um offjölgun sé í rauninni alls ekki að ræða.

Við þetta bætist, að ríkisstjórnin má ekki til þess hugsa, að í ljós komi, hver verðbólgan er í raun og veru. Þess vegna þarf hún að falsa gengi krónunnar og sóa þeim gjaldeyri, sem safnazt hafði.

Og svo klóra stormsveitarmenn sér í höfðinu yfir afleiðingunum.

Jónas Kristjánsson.

DV