Sjálfboðavinna bönnuð.

Greinar

Ríkisútvarpið hefur borgað fyrir leyfi til að senda beint til viðskiptavina sinna hvern einasta leik heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu. Þetta leyfi hafa landsmenn greitt í formi afnotagjalda til ríkisútvarpsins.

Fyrir löngu var vitað, að sendingarkostnað um gervihnött má greiða með auglýsingum. Samt sáu Albaníumenn ríkisútvarpsins ekki einu sinni ástæðu til að svara bréfi frá Pósti og síma um pöntun á tíma gervihnattarins.

Svo fer sjónvarpið í frí í miðju kafi og segir viðskiptavinum sínum, að þeir fái að sjá leikina í ágúst og september, mörgum vikum eftir að heimsmeistarakeppninni lýkur. Þá verður óneitanlega farið að slá mjög í efnið.

Bein útsending er auðvitað það, sem áhugamenn um þessa keppni vilja helzt. Enda eru leikirnir sendir beint, hvarvetna þar sem tæknin er til. Albaníumenn hafa þó ekki viljað þetta, enda vita ráðamenn þar vel, hvað sé fólki fyrir beztu.

Hitt landið, þar sem ráðamenn sjónvarps vita, hvað er viðskiptavinum sínum fyrir beztu, er Ísland. Þess vegna eru þeir réttnefndir Albaníumenn ríkisútvarpsins, handhafar hins opinbera valds til að hafa vit fyrir almenningi.

Áhugamenn úti í bæ hafa hlaupið í skarðið og útvegað leikina til sýningar í kapalsýningakerfi Videoson, daginn eftir að þeir voru háðir. Enginn tók eyri fyrir þetta og Videoson sendi án endurgjalds til viðbótar venjulegri dagskrá.

Þetta er auðvitað ekki hið sama og að sjá leikina í beinni útsendingu, eins og þessir og aðrir viðskiptavinir ríkisútvarpsins voru í rauninni búnir að borga fyrir. En þetta gerist þó, meðan spennan stendur enn í keppninni.

Þeir, sem hafa lagt hönd á plóginn, voru í sjálfboðavinnu að vinna verkin Albaníumanna ríkisútvarpsins. Þeir voru við erfiðar aðstæður að gera það, sem sinnulausir starfsmenn hins opinbera áttu að vera búnir að gera.

Það er auðvitað mun skárra að sjá leiki heimsmeistarakeppninnar degi síðar og áður en úrslit keppninnar eru kunn, heldur en að sjá þá mörgum vikum eftir niðurstöðuna. Þetta var ókeypis þjónusta fyrir hluta viðskiptavina ríkisútvarpsins.

Í stað þess að þakka fyrir framtakið, sem felst í að útlagður kostnaður nýtist betur en ella, rjúka hinir annars mjög svo syfjulegu Albaníumenn ríkisútvarpsins upp til handa og fóta og fá sett lögbann á sjálfboðavinnuna.

Þetta eru dæmigerð viðbrögð embættismanna, sem kunna ekki að skammast sín, þótt margoft hafi verið komið að þeim sofandi á verðinum og þótt þeir hafi á undanförnum vikum reynzt margsaga í tilraunum til að vísa frá sér sökinni.

Albaníumenn ríkisútvarpsins geta nú lagzt aftur á græna eyrað, sælir í þeirri trú, að komið hafi verið í veg fyrir, að viðskiptavinir þeirra fái að njóta 450.000 króna útlagðs kostnaðar, fyrr en heimsmeistarakeppnin er gleymd og grafin.

Slíkt hugarfar og slík framkoma væri óhugsandi, ef hér ríkti ekki einokun. Ef frelsi ríkti á þessu sviði, kæmust Albaníumenn ríkisútvarpsins ekki upp með að kasta hálfri milljón króna og læsa vöruna vikum saman niðri í skúffum.

Axarsköft Albaníumanna ríkisútvarpsins væru þó einhvers virði, ef þau hafa opnað augu viðskiptavina þeirra, það er landsmanna allra, fyrir því, að núverandi einokunarkerfi hefur gengið sér til húðar og þarf að líða undir lok.

Jónas Kristjánsson

DV