Rannsóknir
Tæknileg blaðamennska
Brant Houston
ComputerAssisted Reporting
A Practical Guide
3rd Edition 2004
“Tölvuþekking er lykill að starfi í blaðamennsku. Sá, sem getur safnað upplýsingum og unnið úr þeim hraðar en áður, mun ná betra samhengi og þróa betri skilning á umræðuefninu, ná betri viðtölum og geta skrifað af meira öryggi en hinir.” Einkunnarorð kaflans.
Tölur hafa aðra áru en texti. Menn bera meiri virðingu fyrir tölum en texta. Þeir, sem nota tölur, njóta meira trausts en hinir, enda er meira samkomulag en áður um, hvaða tölur séu réttar. En þá verða menn líka að fara rétt með tölur.
Flest vísindi nútímans byggjast á tölum. Daglega koma slíkar tölur fram í fréttum. Prósentuskipting og indexar eru hluti daglega lífsins. Þetta er sett fram í tölum og töflum. Það er varla til sú síða í dagblaði, sem ekki er með einhverjum tölum.
Embættismenn vænta, að þú biðjir um þúsundir síðna og bíðir marga mánuði eftir því, að þeir striki út leynileg atriði. Þeir hyggjast senda þér reikning upp á tugi þúsunda. Í USA kom í ljós, að það kostar hundrað dollara að laga bankann.
Að morgni dags tekur þú tölvudiskinn á skrifstofu þeirra og um kvöldið ertu með tilbúna frétt um, að fátækt fólk er látið borga hærra lausnargjald úr löggæzlu en ríkt fólk og verður því að sitja inni meðan mál þess er kannað. Hér færðu Excelskjal í tölvupósti.
Viltu vita um öryggi á næsta alþjóðaflugvelli? Þú tekur niður gagnabankann af heimasíðu Flugmálastjórnar (í Ameríku) eða biður Samtök tölvublaðamanna, IRE, að senda þér allan gagnabanka stofnunarinnar, sem þau eiga jafnan í nýjustu útgáfu.
Um kvöldið ertu búinn að finna út fjölda öryggisbrota á þessum flugvelli síðustu árin og í hverju þau voru fólgin. Þú ert búinn að tala við starfsmenn vallarins, flugfélaga og Flugmálastjórnar og lesa skýrslu stjórnvalda, sem er á vefnum. Slíkt er ekki hægt hér.
Svona vinna er orðin hversdagsleg í Bandaríkjunum. Blaðamenn nota þessar leiðir og aðrar til að segja fréttir, sem koma til greina til Pulitzerverðlauna. Enginn blaðamaður getur verið án þess að kunna að nota tölvur til að grafa upp mál.
Þótt við séum á eftir tímanum hér, þá er til endalaust magn af frjálsum töflum hér á landi, þannig að endalaus tækifæri eru hér á landi fyrir rannsóknablaðamennsku.
Þótt Ísland sé lokað land, en ekki opið eins og Bandaríkin og Kanada og hugsanlega Svíþjóð líka, þá er mikið magn fáanlegt hér á landi af tölvugögnum, sem blaðamenn hafa ekki enn borið sig eftir. Sárafáar beiðnir koma til Úrskurðarnefndar upplýsingalaga.
Sú staðreynd, að blaðamenn kæra lítið til Úrskurðarnefndar, segir nefndarmönnum ekki, að blaðamenn telji slíkt vera vonlaust. Það segir nefndarmönnum, að kæruefni séu fá og ástandið sé í lagi.
Hins vegar komumst við aldrei framhjá því, að úrskurðarnefndin og Persónuvernd telja fjármál vera einkamál. Löggjafinn þarf að koma til skjalanna til þess að aðgengi íslenskra blaðamanna verði svipað og bandrískra.
Hagstofan, bankarnir og samtök á Íslandi gefa flestar tölur sínar út í pdfformi, sem er afleitt. Reynið að koma slíkum töflum inn í Excel til framreiknings. Þú verður að hringja í stofnanirnar og fá þær til að senda þér stafrænt form taflanna, svo þú getir notað þær.
Notaðu tækifærið, þegar þú hringir, til að benda viðkomandi aðilum á, að rétt framsetning talna á vefnum er í formi, sem gefur kost á flutningi í töflureikni, ekki í pdfformi, sem er birtingarform, en ekki reikningsform. Kannski fást einhverjir til að laga þetta.
Eina mikilvæga stofnunin á Íslandi, sem gefur tölur sínar út í formi, sem hæfir töflureikni, er Seðlabankinn. Þær eru birtar þar á vefnum í Excelformi. Neytendaamtökin veita félagsmönnum líka aðgang að Excelformi á töflum.
Hæfni blaðamanns felst núna í að geta hlaðið niður gagnabönkum, geta rannsakað gögnin, geta hugsað á gagnrýninn hátt, leitað að öðrum upplýsingum á vefnum, svo að hann geti skrifað fréttir með dýpt og samhengi, sem skipta máli í nútímanum.
Bandaríski blaðamaðurinn, sem byrjar að skrifa frétt með 150.000 dómsmál í tölvu sinni er ekkert sambærilegur við blaðamenn fortíðarinnar, sem komust aðeins í nokkur dómsmál í hverri viku. Galdur gagnabankanna er mikill.
Munurinn á framkvæmd bandarísku sólskinslaganna og íslensku upplýsingalaganna er einkum tvenns konar. Í fyrsta lagi afhenda bandarísk stjórnvöld fjölmiðlum beinan og ókeypis aðgang að gagnabönkum, ýmist á CDdiskum eða með beinlínutengingu.
Hér geta menn hins vegar aðeins spurt fáa gagnabanka ákveðinna spurninga, en ekki annnarra. Til dæmis er hægt að leita eftir götunúmeri í fasteignaskrá og eftir bílnúmeri í ökutækjaskrá, en í hvorugu tilvikinu eftir eigandanum, kennitölu hans.
Hér á landi er aðgangur að gögnum mikið hugsaður út frá sérstökum stéttum á borð við fasteignasala og bílasala, en ekki blaðamönnum. Oft er blaðamaður í samstarfi við aðila, sem eiga léttari aðgang að gagnabönkum.
Kostur við bandaríska kerfið er, að blaðamenn geta þá borið einn banka saman við annan og fundið tengsl, sem hvorugur bankinn sýndi einn og sér. Það er einmitt þetta, sem íslensk stjórnvöld eru hrædd við, þau vilja ekki, að þetta sé hægt. Það heitir Persónuvernd.
Bandaríkjamenn eru ekki eins viðkvæmir fyrir mannanöfnum. Þau eru alls staðar í skrám, svo sem í málflutnings og dómaskrám. Hér taka dómstólar út nöfn manna, áður en þeir setja slík gögn á netið. Meira að segja Úrskurðarnefnd upplýsingalaga.
Almennt má segja, að eignarhald og peningamál séu ekki talin einkamál vestra og raunar ekkert, sem gerist utan heimilis. Hér er hins vegar tilhneiging til að telja eignarhald og fé og dóma til einkamála og ýmislegt ferli fólks utan heimilis líka.
Í öðru lagi verða menn hér yfirleitt að borga fyrir aðgang að skrám. Vestra er það hins vegar talin vera skylda stofnana, sem kostaðar eru af almannafé, að láta almenningi í té endurgjaldslausan aðgang að skrám, sem þar verða og eru til. Skattskrá er hér opin.
Í þriðja lagi ríkir í Bandaríkjunum efahyggja í garð embættismanna, en hér er þeim frekar treyst. Það er prinsípmál vestra, að opinn sé aðgangur að gögnum opinberra starfsmanna, en hér sætta menn sig heldur við, að þau séu sérmál þeirra og megi vera það.
Í fjórða lagi er fremur litið upp til hnýsni vestra, en hér litið niður á hana. Þar sem blaðamennska er fyrst og fremst fag um forvitni, hafa blaðamenn hagsmuni af því að reyna að þreyta varðmenn leyndarhyggju og fá opinber gögn opinberuð öllum, sem sjá vilja.
Tilvísun til vinnubragða vestra og kennslubækur þaðan hafa gildi hér á landi, því að við þurfum að vita, hvað starfsbræður okkar geta gert. Við þurfum að vita, hvernig við eigum að knýja á kerfið með óskum um úrbætur. Íslensk kerfi leka eins mikið og erlend kerfi.
Gamla reglan: “Sannreyndu, sannreyndu, sannreyndu,” er mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Heilsusamleg efahyggja er mikilvægari en áður og viðtöl við margs konar heimildir, krosstékkaðar, eru mikilvægari en áður.
Margir blaðamenn hafa aflað sér þjálfunar í undirstöðuatriðum tölvuvinnslu og hafa hækkað þröskuldinn, sem nýir blaðamenn þurfa að komast yfir. Það hefur flýtt fyrir þróuninni, að vélbúnaður og hugbúnaður er ódýrari og einfaldari en áður.
Tölvuþekking er lykill að starfi í blaðamennsku. Sá, sem getur safnað upplýsingum og unnið úr þeim hraðar en áður, mun ná betra samhengi og þróa betri skilning á umræðuefninu, ná betri viðtölum og geta skrifað af meira öryggi en hinir.
Án skilnings á kostum og göllum tölvunnar er torsótt fyrir blaðamann að skilja, hvernig heimurinn virkar, og að segja frá því. Sá, sem treystir á aðra við að vinna úr gagnabönkum, missir tök á viðfangsefninu í hendur þeirra, sem það kunna.
Blaðamenn, sem sjálfir nota gagnabanka, losna við spuna og fordóma embættismanna og annarra, sem snyrta gagnabanka fyrir fjölmiðla. Blaðamaður, sem vinnur vinnuna sína sjálfur, losnar við blekkingar og kemst nær sannleika málsins.
Fimm meginaðferðir:
1) Upplýsingar á netinu og veraldarvefnum.
2) Töflureiknar.
3) Gagnagrunnar.
4) Tölfræðiforrit.
5) Kortaforrit.
Upplýsingar á netinu og veraldarvefnum eru einkum:
1) Tölvupóstur.
2) Umræðuhópar.
3) Gagnabankar.
Töflureiknar á borð við Microsoft Excel eru góðir í reikningi. Þeir leggja saman dálka og línur, bera töflur saman, raða töflum og setja niðurstöðurnar fram í gröfum. Þú getur gert ótalmargt fleira, en þetta eru hornsteinarnir.
Gagnagrunnar á borð við FileMaker og Microsoft Access eru góðir við leit, við að taka saman heildir og finna afstöðu milli hluta. Gagnagrunnar ráða við margfalt fleiri skráningar en töflureiknar, sem sumir fara ekki upp fyrir 64.000 skráningar.
Tölfræði kemur síðar, þegar menn hafa náð tökum á tölvuvinnslu í töflureikni og vilja finna meðaltöl, hágildi og miðgildi, ýmis staðalfrávik og aðrar reikningsaðferðir, sem tíðkast í félagsvísindum og t.d. læknisfræði.
Kortaforrit, einkum ArcView eru notuð til að sameina kort og gröf.
Félagsnetsforrit eru notuð til að sýna á grafískan hátt bein og óbein tengsli milli manna, rekja víxlsetu í stjórnum fyrirtækja, mikið notuð í viðskiptafræði.
Besta leiðin til að læra tölvuvinnslu er að æfa sig. Þú verður að prófa að nota ýmiss konar leitaraðferðir í gagnagrunnum, sjá útkomurnar og finna, hvaða leið gefur skýrasta mynd af því, sem þú ert að fjalla um og gefur greiðust svör.
Blaðamenn þurfa að kunna að leita að gögnum í tölvu og að skoða þau í tölvu, af því að stjórnvöld og fyrirtæki nota tölvur til að vista gögn og dreifa þeim. Þetta er kunnátta, sem auðveldar nýjum blaðamanni að fá starf í greininni.
Blaðamenn þurfa að vera fljótir að átta sig á, hvert sé lágmark sögunnar. Það er sú minnsta frétt, sem þeir muni ná, ef leitin gengur illa. Hugtak lágmarksfréttar hjálpar þeim að skipuleggja og selja fréttina. Birting lágmarksfréttar kemur líka að gagni.
Helstu tæki blaðamannsins eru töflureiknir, gagnagrunnur og netgögn. Þegar hann hefur lært á þau, er hann fljótur að safna gögnum og kanna þau. Besta leiðin til að læra á þau er með reynslu, endurtekningum og sköpunargáfu.
Brant Houston
Sjá nánar:
ComputerAssisted Reporting
A Practical Guide
3rd Edition 2004
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé