Við höfum leyfi til að læra.

Greinar

Þeir yrðu dýrir, ráðherrarnir okkar, ef gerðir þeirra ættu að binda hendur þjóðarinnar og afkomenda hennar allt til enda veraldarinnar. Ráðherrar eru mistækir eins og annað fólk. Og þjóðin vill fá að nýta lærdóminn af reynslu sögunnar.

Við súpum enn seyðið af viðamiklu og sjálfvirku landbúnaðarkerfi, sem Ingólfur Jónsson setti í fastar skorður á viðreisnar-áratugnum. Einhvern tíma tekst okkur að losna við þá byrði, hvað sem Ingólfur sagði á sínum tíma.

Enn er byrjað að vitna í einokunarloforð, sem Hannibal Valdimarsson gaf Flugleiðum, þegar hann lét sameina Flugfélagið og Loftleiðir árið 1973. En loforð Hannibals getur ekki bundið hendur Steingríms Hermannssonar eða þjóðarinnar árið 1982.

Einokunarstefna Hannibals náði ekki þeim árangri, sem til var ætlazt. Flugleiðum efldist ekki ásmegin. Þær voru ekki nógu fljótar að átta sig á breyttum aðstæðum í flugmálum Vesturlanda og enduðu á framfæri íslenzkra skattgreiðenda.

Óhætt er að slá því föstu, að samkeppni sé betri en einokun. Við einkaréttaraðstöðu breytast fyrirtæki í opinberar stofnanir, æðarnar harðna og hjartað stirðnar. Við sjáum þetta á öllum sviðum, heima og erlendis, einnig í fluginu.

Steingrímur Hermannsson sté aðeins stutt skref í samkeppnisátt, þegar hann leyfði Íscargo að fljúga til Amsterdam, borgar, sem Flugleiðir höfðu í skjóli einokunar ekki nennt að sinna. Þetta var örsmár liður í öllu flugdæminu.

En Flugleiðir brugðust við eins og einokunarstofnanir gera jafnan. Þær fóru líka að fljúga til Amsterdam, keyrðu verðið niður og biðu í trausti stærðar sinnar eftir því, að litli uppáþrengjandinn yrði gjaldþrota á ævintýrinu.

Þessa forsögu verður að hafa í huga nú, þegar leyfið til Amsterdam hefur verið tekið af Flugleiðum. Þetta er borg, sem Flugleiðir sinntu ekki, fyrr en keppinautur hafði beðið um leyfi til að fljúga þangað – og fengið það.

Inn í þetta mál flæktist síðan óviðurkvæmileg sala á flugleyfi Íscargo til Arnarflægs. Síðara félagið var vel að Amsterdam-fluginu komið, en átti ekki að þurfa að kaupa út framsóknarmenn, sem höfðu farið flatt á spekúlasjónum.

Arnarflug er fyrirtæki, sem hefur staðið sig vel í leiguflugi og innanlandsflugi. Það er miklu heppilegri tilraun en Íscargo til heilbrigðrar samkeppni við Flugleiðarisann. Það er líka arðbært og þiggur ekki ríkisstyrk.

Með skiptingu meginlands Evrópu milli Flugleiða og Arnarflugs hefur Steingrímur Hermannsson komið upp óbeinni samkeppni í stað annars vegar beinnar og hins vegar engrar. Þetta er varfærin aðferð, sem dregur úr grimmd samkeppninnar.

Óbein samkeppni verður milli flugs til Amsterdam og Luxemborgar. Ennfremur milli flugs til Düsseldorf og Frankfurt. Þetta ætti að nægja til að tryggja neytendum eðlileg fargjöld til meginlandsins, þótt útsölufargjöldum ljúki.

Ef vel gengur, mætti vel hugsa sér að færa út óbeina samkeppni, veita til dæmis öðrum en Flugleiðum leyfi til að fljúga til Glasgow í Bretlandi, Osló á Norðurlöndum og Chicago í Vesturheimi. Einnig mætti endurskoða innanlandsflugið.

Hvað sem Hannibal Valdimarssyni líður, má öllum vera ljóst, að einokun í flugi stríðir gegn hagsmunum íslenskra neytenda og skattgreiðenda. Steingrímur Hermannsson þarf að standa af sér gerningaveðrið og halda áfram á sömu braut.

Jónas Kristjánsson

DV