Davíðskan.

Greinar

Með borgarstjórann í broddi fylkingar var nýr meirihluti í Reykjavík ekki nema fjórar vikur að brjóta niður mikilvægustu þætti stefnubreytingarinnar, sem tekið hafði fráfarandi meirihluta fjögur ár að byggja upp.

Verk síðustu fjögurra ára munu fljótt gleymast með lkarus-strætisvögnum og Rauðavatns-íbúðabyggð. Senn verður fjögurra ára valdaskeið vinstri manna í Reykjavík svo gersamlega þurrkað út, að eftir stendur gat í borgarsögunni.

Ekki fer framhjá neinum, sem fylgist með, að ný vinnubrögð hafa tekið við hjá borgaryfirvöldum. Nýr stíll leiftursóknar hefur tekið við af hægfara skotgrafahernaði nefnda og starfshópa, – bæði til góðs og ills fyrir borgarbúa.

Í fjögur ár var borginni stjórnað í stíl Alþýðubandalagsins, sem einnig mætti kalla Hjörleifskan stíl, af því að hann sést í ýktri mynd hjá núverandi orkuráðherra. Í hlutlausum orðum sagt er þetta eins konar ráðuneytisstíll.

Stíllinn einkennist af fjölda nefnda og starfshópa, sem framleiða mikið pappírsflóð. Ákvarðanir eru teknar mjög hægt og í fljótu bragði séð á grundvelli vandaðra upplýsinga, hverrar sérfræðiskoðunarinnar ofan á annarri.

Þessi hæga meðferð kom þó ekki í veg fyrir, að keyptir voru ófullnægjandi strætisvagnar og að tekin var röng ákvörðun um þróun byggðar austur til heiða í stað norðurs með ströndum, sem áður hafði verið á dagskrá.

Hinn nýi Davíðski stíll er hins vegar eins konar fyrirtækjastíll. Skorin er niður aðild og umfjöllun nefnda og starfshópa, pappírsframleiðsla er takmörkuð og ákvarðanir teknar nánast á hlaupum milli hæða eða bara í síma.

Stefnubreytingin frá Rauðavatni til Korpúlfsstaða var tekin án samráðs við Borgarskipulagið, þar sem búast mátti við fyrirstöðu embættismanna frá vinstra valdaskeiðinu. Davíð tilkynnti bara nýjan kúrs. Búið mál.

Davíðskan hefur það fram yfir Hjörleifskuna, fyrirtækjastíllinn fram yfir ráðuneytisstílinn, að áratuga reynsla hér og erlendis sýnir, að fyrirtæki í samkeppni er ekki hægt að reka á annan hátt, ef þau eiga að vera arð- bær.

Í efnahagslífinu verður oft að taka skjótar ákvarðanir til að fljóta ofan á í lífsins ólgusjó. Opinberar stofnanir eru hins vegar yfirleitt ekki reknar á neinum arðsemiskröfum. Þar gefa menn sér langan tíma, stundum endalausan.

Kennslubækur í stjórnun segja, að ákvarðanir sé ekki hægt að taka með pappír og nefndum. Einhver einn, sem til þess er ráðinn eða kjörinn, verði að taka af skarið og bera ábyrgð, þótt hann geti þegið ráð nefnda og starfshópa.

Í stórum dráttum er hinn hraði og harði fyrirtækjastíll betri en hinn hægi og daufi ráðuneytisstíll, jafnvel í opinberum rekstri. Að vísu getur hann gengið út í öfgar, – hjá Reykjavíkurborg eins og annars staðar.

Þegar ákveðið er að gera deiliskipulag að nýju íbúðahverfi, er rétt að gefa sér tíma til að efna til víðtækrar verðlaunasamkeppni til að geta valið úr nokkrum fjölda hugmynda, en vera ekki alveg háður tveggja mánaða vinnu tveggja arkitekta.

Misheppnað hverfi verður seint strokað út með loftpressum. Davíð borgarstjóri hefur tekið mikla og óþarfa áhættu, því að sérfræðileg umfjöllun og ekki sízt samkeppni hugmynda hljóta að leika lykilhlutverk í hraða stílnum, ef hann á að takast.

Jónas Kristjánsson

DV