Verra en verðbólga.

Greinar

Barátta stjórnmálamanna við verðbólguna er að verða mikilfenglegasta böl þjóðarinnar. Þeir eru orðnir svo uppteknir við að reyna að hindra ris kvikasilfursins í hitamælinum, að þeir forðast allar raunhæfar aðferðir til lækninga.

Ekki má skrá gengi krónunnar rétt, né hafa vexti rétta á fjárskuldbindingum forréttindagreina, af því að þá rís kvikasilfrið í hitamæli verðbólgunnar. Ekkert má gera af viti, af því að það framreiknast í prósentum á verðbólgumæli.

Að vísu er verra að hafa 55% verðbólgu en 30% og verra að hafa 80% verðbólgu en 55%. En vandamálin eru fleiri en verðbólgan ein. Aðgerðir gegn henni eiga ekki að dreypa eitri á rætur góðrar framtíðarheilsu efnahagslífsins.

Núverandi útsala ríkisstjórnarinnar á ódýrum gjaldeyri er ein alvarlegasta framleiðsla hennar á eitri. Þessi útsala krossfestir útflutningsatvinnuvegina, heldur uppi óhófseyðslu og stefnir að óbærilegri skuldabyrði þjóðfélagsins.

Ef skyndilega ætti að skrá gengið rétt, mundi verðbólgan taka stökk. Prósenturnar mundu flæða um þjóðfélagið og að lokum búa til þörf fyrir nýja gengislækkun. Vegna þessara verðbólguáhrifa halda ráðamenn okkar að sér höndum.

Slæmt er, að gengislækkun skuli þurfa að leiða til annarrar gengislækkunar. En samt verður ekki af neinu viti komizt hjá því að skrá gengi krónunnar rétt á hverjum tíma. Slaginn við verðbólguna verður að heyja á öðrum vígstöðvum.

Önnur alvarleg eiturframleiðsla stjórnvalda er tregða þeirra við að gera verðtryggingu fjárskuldbindinga að fastri reglu. Enn eru flestar forréttindagreinar reknar á ódýrum útsölulánum, sem skekkja strauma fjármagns um æðarnar.

Margir stjórnmálamenn eru þar á ofan svo forstokkaðir, að þeir muldra sí og æ um, að vextir hafi risið úr hófi fram og séu að sliga atvinnulífið. Þeir eru að reyna að grafa undan þeim verðtryggingarvotti, sem kominn er.

Þessir arftakar Lúðvíks Jósepssonar ættu að líta til Bandaríkjanna, þar sem forvextir eru hvorki meira né minna en 8% umfram verðbólgu. Verða stjórnvöld þar vestra þó seint sökuð um andstöðu við hagsmuni atvinnulífsins.

Ef skyndilega ætti að skikka forréttindagreinar til að endurgreiða lán í jafngildum verðmætum og þær fengu upphaflega að láni, mundi verðbólgan taka stökk, auk þess sem rekið yrði upp ramakvein um fyrirsjáanlegt gjaldþrot.

Í rauninni er orðið bráðnauðsynlegt að fara að leyfa sumum fyrirtækjum að verða gjaldþrota, svo að betra rými verði fyrir hin, sem eru í frambærilegum rekstri. Hvaða vit er til dæmis í að láta grínista stunda togaraútgerð?

Ef lán væru á raunvirði, mundu peningar síður streyma til óarðbærra hluta og meira fé verða aflögu til verkefna, sem geta staðið undir lánum og skilað arði. Þetta mundi líka draga úr sjúklegri þörf fyrir skuldasöfnun í útlöndum.

Ef allar fjárskuldbindingar og ekki bara sumar fengju að fljóta á raunverulegu markaðsvirði, og ef gengi íslenzku krónunnar fengi líka að fljóta á raunverulegu markaðsvirði, mundi minna máli skipta hvaða hitastig er sýnt á verðbólgumælinum.

Stjórnmálamenn okkar eru ófáanlegir til að sjá, að verðbólgan er ekki sjúkdómurinn sjálfur, heldur aðeins hiti, sem honum fylgir. Forsenda raunverulegra læknisaðgerða er að skrúfa fyrir eitur á borð við útsöluverð á lánsfé og gjaldeyri.

Jónas Kristjánsson

DV