Verzlunartap og -gróði.

Greinar

Gjaldeyrisútsölu ríkisstjórnarinnar er lokið í bili. Hún stóð frá miðju síðasta ári og olli gífurlegum innflutningi um efni fram. Menn tóku út sparifé og keyptu innfluttar vörur. Aðrir reyndu að slá lán til að geta notfært sér útsöluna.

Afleiðingarnar voru margar. Bankarnir lentu í vanskilum í Seðlabankanum og hættu að geta lánað með venjulegum hætti. Skuldir þjóðarinnar jukust í 40% af eins árs þjóðarframleiðslu og greiðslubyrði þeirra í 20% af eins árs útflutningi.

Verstar voru afleiðingarnar í sjávarútvegi og öðrum útflutningsgreinum, sjálfu haldreipi þjóðarinnar. Með útsölunni var verið að breyta haldreipinu í hálmstrá, búa til geigvænlegan halla í greinum, sem standa undir lífskjörum.

Á hinn bóginn fylltist ríkissjóður af tolltekjum, sem leystu margan vanda á þeim græðgisbæ. Þess vegna leyfði ríkisstjórnin útsölunni að standa í heilt ár, auk þess sem hún var undirstaða að umfangsmikilli vísitölufölsun.

Verzlunin var annar aðili, sem óvart hafði hag af gjaldeyrisútsölunni. Veltan jókst bæði í heildsölu og smásölu, án þess að fyrirhöfn og kostnaður við verzlun ykist að sama skapi. Í mörgum tilvikum gat sami mannafli annazt meiri veltu.

Þetta leiddi til svonefnds “verzlunargróða”, sem töluvert hefur verið til umræðu að undanförnu. Margir hafa kvartað um, að verzlunin hafi á þessu útsöluári bætt stöðu sína, meðan aukizt hafi taprekstur í sjávarútvegi og víðar.

Hinir öfundsjúku ættu þó ekki að gleyma, að það, sem gefið var á sjálfvirkan hátt, verður auðveldlega aftur tekið á sjálfvirkan hátt. Svavar Gestason viðskiptaráðherra þarf ekki að leggja hart að sér við að spilla fyrir verzlun.

Timburmennirnir eru nefnilega að koma. Síðari hluta þessa árs og allt næsta ár verður ekki hægt að hafa útsölu á gjaldeyri. Rétta þarf af viðskiptin við útlönd og stöðva frekari skuldasöfnun og aukningu greiðslubyrðar.

Dæmið snýst við, en áfram gildir, að brauð eins verður dauði annars. Með minni innflutningi mun verzlunin dragast saman. Hún mun, eins og reynslan sýnir í flestum greinum, eiga erfitt með að breyta mannafla í samræmi við nýjar aðstæður.

Öfundarmönnum og Svavari Gestssyni verður því sjálfkrafa að óskinni. Sá verzlunargróði, sem myndazt hefur á einu ári, mun étast upp á næsta hálfa öðru árinu og vel það. Sérstakar aðgerðir í því skyni eru gersamlega óþarfar.

Þetta er ágætt dæmi um, að ýmsa stjórnmálamenn og aðra skortir skilning á náttúruöflum eða markaðsöflum atvinnulífsins. Þeir vilja alltaf láta krukka í strauma, sem betur fengju að renna með sjálfvirkum hætti.

Bezta dæmið um eymd miðstýringar, millifærslu og krukks er landbúnaðurinn. Til hans eru sogaðar hrikalegar fjárhæðir, sem annars mundu koma þjóðinni að gagni á þeim sviðum, sem arðbærastar væru í atvinnulífinu hverju sinni.

Vel meint krukk hins opinbera hefur ætíð hliðarverkanir, sem landsfeður virðast yfirleitt eiga sérstaklega erfitt með að sjá fyrir. Þeir einblíndu til dæmis á tolltekjugróða og hagstæða vísitölufölsun af völdum gjaldeyrisútsölu.

En vísitölufölsunin og tolltekjubraskið leiddu jafnframt til taps í sjávarútvegi, hruns í bankaþjónustu, flóðs í þjóðarskuldasúpunni, – og óvart um leið til skammvinns verzlunargróða.

Svo læra þessir menn aldrei neitt að ráði.

Jónas Kristjánsson.

DV