Þeir ná saman.

Greinar

Ríkisstjórnin er komin lengra en í mitt fljótið og sér samkomulag um efnahagsmál blasa við á bakkanum. Hún fer tæpast að snúa við úr þessu, þótt hart hafi verið og sé enn deilt um, hvar á bakkanum skuli komast á þurrt.

Með væntanlegu samkomulagi verður ríkisstjórnin búin að tryggja sér líf fram yfir áramót. Þá er kjörtímabilið senn á enda og ævi stjórnarinnar orðin töluvert lengri en flestir spáðu í upphafi. Það er raunar ekki lítið afrek.

Hvorki Framsóknarflokkurinn né Alþýðubandalagið hafa áhuga á kosningum að sinni. Báða flokkana skortir enn tíma til að búa sér vígstöðu til kosningabaráttu, ekki sízt Alþýðubandalagið, sem situr enn í kengnum frá kosningunum í vor.

Að vísu hefur flokksvél Alþýðubandalagsins sent út herhvöt kosningaundirbúnings til flokksdeildanna. En sú hvöt minnir sumpart á neyðaróp og er að öðru leyti innihaldslítil aðvörun til samstarfsmanna í ríkisstjórn.

Þingmenn Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins hafa að undanförnu þjálfað sig vel í þeirri list heimsveldanna að keppast um, hvor geti stigið lengra út á yztu nöf. Það er talin hyggileg slægvizka í slíkum kreðsum.

Efnislega er skynsamleg megintillaga Alþýðubandalagsins um heimild handa ríkisstjórninni til að draga um allt að helmingi úr hækkun búvöruverðs, fiskverðs og verðbóta á laun á verðbólguþrepinu, sem verður 1. desember eða 1. janúar.

Framsóknarmenn hafa tekið orðalagið óþarflega óstinnt upp og segjast vilja fasta ákvörðun í stað óljósrar heimildar. Stjórnmálamenn ættu að hafa séð það svartara í ágreiningi um orðalag, svo að á þessu hlýtur að finnast einhver lausn.

Sjálfsagt er ráðamönnum Framsóknarflokksins undir niðri verr við skerðingu búvöruverðs, þótt þeir flaggi því ekki. En raunsæjum mönnum hlýtur að vera ljóst, að ekki er hægt að skerða laun endalaust, án þess að fleira fylgi.

Þá fagna framsóknarmenn vafalaust ekki skynsamlegum tillögum Alþýðubandalagsins um innflutningsbann fiskiskipa og takmörkun fiskiskipastólsins, né um afnám Framkvæmdastofnunar ríkisins, að Byggðasjóði undanskildum.

Allra sízt hefur glatt augu framsóknarmanna ágæt tillaga Alþýðubandalagsins um, að dregið verði úr rétti til útflutningsbóta landbúnaðarafurða. En því miður er þetta fremur gert til að stríða en til að ná þjóðhagslegum árangri.

Annað í tillögum Alþýðubandalagsins er minna virði og sumt jafnvel spaugilegt. Mönnum getur til dæmis verið illa við húsasmíði Seðlabankans, þótt þeir séu ekki að bera þann harm á torg ráðstafana í efnahagsmálum.

Á líðandi stund skiptir mestu máli að ákveða nýtt gengi krónunnar, sem sé töluvert nær raunveruleikanum, og nýja vexti, sem séu töluvert nær raunveruleikanum. Að vísu verður skref stjórnarinnar of skammt, en betra en ekki neitt.

Stöðvun útsölu á gjaldeyri og lánsfé skiptir meira máli en baráttan við verðbólguna. Ef þar á ofan næst samkomulag um verulegt áramótauppgjör á kröfum helztu hagsmunaaðila þjóðfélagsins, hefur verðbólgan líka beðið nokkurn hnekki.

Samkomulag um þetta mun auka veg ríkisstjórnarinnar, sem þarf á slíku að halda eftir óhóflegt aðgerðaleysi síðustu mánaða. Ríkisstjórnin hefur ekki efni á öðru en að ná samkomulagi. Og hún var þegar um helgina komin meira en hálfa leið.

Jónas Kristjánsson.

DV