Raunhæf stjórnmál óskast.

Greinar

Meðan þingmenn hlaupa með kjósendavíxla til bankastjóra og kría út einn kílómetra af slitlagi í kjördæmið, eru ráðherrar að ákveða, hvort reisa eigi steinullarver á Sauðárkróki eða í Þorlákshöfn og hvort gefa eigi skuttogara til Þórshafnar.

Hins vegar sinna þeir síður raunverulegum stjórnmálum, eins og hvert skuli vera hlutfall einkaneyzlu og samneyzlu í þjóðfélaginu, hver skuli vera hlutur hins opinbera af þjóðartekjum og hvað óhætt sé að fjárfesta mikið af þjóðartekjum.

Til dæmis hafa fjárlagafrumvörp ríkisstjórna frá ómunatíð verið byggð upp sem samanlögð óskhyggja ótal stjórnmálamanna og embættismanna. Þar af leiðandi verða niðurstöðutölurnar jafnan of háar og kalla oft á skattahækkanir.

Þegar búið er að skera fjárlögin niður í upphæð, sem stjórnmálamenn þykjast geta komizt upp með, er afgangurinn af óskhyggjunni settur í lánsfjáráætlun. Þeim hluta baggans er velt yfir á herðar afkomenda okkar.

Nær væri að byrja á að ákveða, hver skuli vera hlutur ríkisins af þjóðartekjum. Út frá því má finna niðurstöðutölur fjárlaga eftir verðlagi á hverjum tíma. Þeirri upphæð má svo skipta niður á ráðuneyti og síðan í einstök verkefni.

Með slíkum vinnubrögðum sjá embættismenn og stjórnmálamenn, hvaða fjármunir eru raunverulega til ráðstöfunar, burtséð frá óskhyggjunni. Þeir neyðast til að læra að haga sér innan ramma, alveg eins og önnur heimili landsins verða að gera.

Hin raunverulegu stjórnmál mundu þá felast í, að vinstri flokkar vildu fá hækkaðan hlut ríkisins af þjóðartekjum, en hægri flokkar vildu hins vegar fá hann lækkaðan. Kjósendur hefðu þá um eitthvað áþreifanlegt að velja.

Ef stjórnmálaflokkur lýsti því yfir, að hann vildi hafa einkaneyzluna 65% af þjóðartekjum, samneyzluna 10% og fjárfestinguna 25%, væri hann að bjóða upp á áþreifanleg stjórnmál, áherzlu flokksins á misjafnt mikilvægi þessara þátta.

Ef þessi ímyndaði flokkur héldi því einnig fram, að af fjárfestingunni ættu 50% að vera hjá atvinnuvegunum, 35% hjá ríkinu og 15% í íbúðum, þá væri hann einnig að bjóða upp á raunveruleg stjórnmál, áþreifanleg undirstöðuatriði.

Með töluverðri nákvæmni má spá fyrirfram um þjóðartekjur næsta árs. Ef um sveiflur er að ræða, má til dæmis ákveða að reyna að halda óbreyttu hlutfalli einkaneyzlu og samneyzlu, en láta sveiflurnar koma niður á fjárfestingunni.

Með vaxtastefnu og íbúðalánastefnu má hafa áhrif á fjárfestingu í atvinnuvegum og íbúðum. Enn hægari eru heimatökin hjá ríkinu sjálfu, sem gæti, ef það vildi, raðað framkvæmdum sínum í fjárlög og lánsfjáráætlun í samræmi við rammann.

Að gefnum rammanum mundu stjórnmálamenn til dæmis vita, hvað þeir geti leyft sér að framkvæma mikið af óskhyggjunni, án þess að auka skuldir og skuldabyrði þjóðarinnar. Í núverandi stjórnleysi óskhyggjunnar hefur enginn tök á neinu.

Þegar niðurstöðutölur og rammar, þau atriði, sem hafa raunverulegt stjórnmálagildi, eru tilbúin fyrirfram, væri um leið fengin knýjandi hvatning til að meta, hvað sé í rauninni nauðsynlegt og hvað megi bíða eða gleymast.

Þá væri auðveldara að meta, hvort þjóðin hafi efni á að verja rúmlega 4% fjárfestingarinnar til offramleiðslu á kjöti og mjólk og tæplega 7% til óþarfra fiskiskipa og hvort ekki sé nær að draga eitthvað úr erlendum lántökum.

Jónas Kristjánsson

DV