Betra seint en aldrei.

Greinar

Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar eru til bóta, þótt þær gangi ekki eins langt og æskilegt hefði verið. Í samsteypustjórnum ólíkra flokka er yfirleitt erfitt að ná samkomulagi um meira en minnstu hugsanlegu aðgerðir.

Kjarni aðgerðanna er skerðing lífskjara þjóðarinnar. Þessi skerðing var orðin mjög brýn. Í rúmt ár að minnsta kosti höfum við lifað um efni fram, svo sem greinilega kom í ljós í óhóflegum innflutningi og skuldasöfnun.

Skerðing verðbóta um tæp þrjú prósentustig um næstu mánaðamót og um allt að tíu stigum 1. desember er verulegt skref í þá átt að laga lífskjör þjóðarinnar að samdrætti þjóðartekna, sem sumpart er þegar orðinn og sumpart fyrirsjáanlegur.

Einhverjir munu hafa hátt um þetta kauprán. En tiltölulega mild viðbrögð stjórnarandstöðunnar og launþegaforustunnar eru dæmi um, að menn vita almennt, að þjóðin hefur að undanförnu lifað langt um efni fram, hættulega langt um efni fram.

Þrettán prósent gengislækkun krónunnar er skref, en of lítið skref í átt til raunhæfrar verðlagningar á erlendum gjaldeyri. Hann verður áfram á útsöluverði. Tuttugu prósent hefði verið nær raunveruleikanum, en þrettán er betra en ekkert.

Samanlagt ættu kaupskerðingin og gengislækkunin að draga verulega úr kaupum okkar á erlendri vöru til samræmis við útflutningstekjur, svo að minnki eða stöðvist hin ógnvekjandi skuldasöfnun í útlöndum síðustu mánuðina.

Að svo miklu leyti sem skuldasöfnun heldur áfram, þótt á hægari ferð sé, hafa efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki tekizt nógu vel. Um þetta er ekki auðvelt að spá. Tíminn verður að leiða í ljós, hvort við náum tökum á skuldasúpunni.

Dapurlegt er, að ríkisstjórnin skuli ekki hafa náð samkomulagi um eitthvað af 5% vaxtahækkuninni, sem Seðlabankinn lagði til. Það verður því áfram útsala á peningum á verulegum hluta lánamarkaðarins, þrátt fyrir svokallaða verðtryggingarstefnu.

Meðan vextir haldast neikvæðir, verður alltaf umframhungur eftir fjármagni, með tilheyrandi fjármagnsskömmtun og fjárfestingu um efni fram. Þetta hamlar líka gegn því, að við náum jafnvægi í viðskiptum okkar við útlönd.

Þessi bilunareinkenni á verðtryggingarstefnunni sýna skort á pólitísku hugrekki í ríkisstjórninni, sérstaklega hjá ráðherrum Framsóknarflokksins. Hugrekki borgar sig, þegar til lengdar lætur, en getur virzt of dýrt í bili.

Í staðinn hyggst ríkisstjórnin draga úr fjárfestingu með takmörkun á lánum til kaupa á erlendri vöru, vélum og tækjum og til skipasmíða innanlands og með hreinu tveggja ára banni á innflutningi fiskiskipa.

Innflutningsbannið er í rauninni hrossalækning, en nauðsynlegt, þegar svona seint er í rassinn gripið. Nú loksins er hægt að horfa fram til minnkaðs fiskiskipastóls og betri tíðar í sjávarútvegi, hornsteini lífskjara okkar.

Með 175 milljón króna láglaunabótum og 85 milljón króna framlagi til Byggingasjóðs á að milda áhrif aðgerðanna. Ríkisstjórnin þorir ekki að standa við fulla hörku og ætlar að senda skattgreiðendum reikninginn fyrir hugleysið.

Í stórum dráttum eru aðgerðirnar til mikilla bóta. Eftir að hafa sigið í fenið í rúmt ár finnum við nú fast land undir fótum. Aðgerðirnar koma einu ári of seint og verða því mun óþægilegri en þurft hefði að vera. En betra er seint en aldrei.

Jónas Kristjánsson.

DV