Rambað á yztu nöf.

Greinar

Þegar Eggert Haukdal var eftir dúk og disk búinn að sjá, að ríkisstjórnin er léleg og svifasein, lýsti sú uppgötvun sér í andstöðu hans við bráðabirgðalögin, sem eru þó sennilega hið skásta, sem ríkisstjórnin hefur gert.

Þetta má hann auðvitað. Alveg eins og Alþýðuflokkurinn má vera á móti aðgerðum, sem þingflokksformaður hans hefði sagt stolin úr vopnabúri sínu. Og alveg eins og Sjálfstæðisflokkurinn má heimta hærra kaup á herðar atvinnuveganna.

Það er hefðbundinn réttur stjórnarandstöðu að fá að vera ábyrgðarlaus. Þess vegna skrifaði Geir Hallgrímsson langa grein í gær, þar sem ekki kemur fram ein einasta tillaga um, hvað hefði nú átt að gera í stað ráðstafana stjórnarinnar.

Hins vegar er réttilega til umræðu, hvort ríkisstjórnin hafi með bráðabirgðalögunum gengið út á yztu nöf siðgæðis eða fram af henni. Ekki dugir henni að segja nauðsyn brjóta lög, því að í lýðræði verður ætíð að fylgja leikreglum.

Svo virðist sem ríkisstjórnin og þá fyrst og fremst forsætisráðherra hafi látið undir höfuð leggjast að tryggja bráðabirgðalögunum atkvæði annað hvort Eggerts Haukdal eða Alberts Guðmundssonar til að koma þeim gegnum neðri deild alþingis.

Síðan komið hefur í ljós, að Eggert er á móti lögunum og Albert hallast frekar gegn þeim, verður auðvitað þyngri á metunum krafa stjórnarandstöðunnar um, að alþingi komi nú þegar saman til að staðfesta eða fella bráðabirgðalögin.

Flest mikilvægustu atriði bráðabirgðalaganna eru þó afturkræf, ef lögin verða felld. Launaprósentur hafa til dæmis oft verið greiddar aftur í tímann. Það veldur óþægindum og er ekki til fyrirmyndar, en er unnt.

Ef bráðabirgðalögin yrðu til dæmis felld í neðri deild um áramótin, er hægur vandi að greiða opinberum starfsmönnum vísitöluuppbót fjóra mánuði aftur í tímann og öðrum launamönnum landsins uppbót fyrir desember.

Sama er að segja um hina auknu tollheimtu í bráðabirgðalögunum. Gegn framvísun reikninga verður hægt að endurgreiða álögur marga mánuði aftur í tímann. Slík vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar, en hafa þó tíðkazt hér á landi.

Fræðilega séð væri líka unnt að dreifa gengishagnaði með skilyrði um endurkröfu, ef bráðabirgðalögin yrðu felld. En það er ekki auðvelt að sjá, hvernig stjórnvöldum tækist að ná til baka 80 milljón króna framlagi til togara.

Heppilegast væri fyrir ríkisstjórnina að fresta dreifingu gengishagnaðar. Í staðinn gæti hún t.d. falið Kristjáni Ragnarssyni að útvega skriflega yfirlýsingu úr stjórnarandstöðunni um stuðning við þær greinar bráðabirgðalaganna.

Þar með kæmi stjórnin líka stjórnarandstöðunni í bobba. Geir Hallgrímsson og Kjartan Jóhannsson yrðu auðvitað kindarlegir, þegar þeir færu að neita Kristjáni um stuðning við greiðslu 80 milljón króna gengishagnaðar til togaraútgerðar.

Hitt óafturkræfa atriðið í bráðabirgðalögunum er skerðing verzlunarálagningar. Þar á ríkisstjórnin sama kostinn, að fresta framkvæmdinni til annaðhvort staðfestingar alþingis eða til yfirlýsingar um stuðning frá einhverjum úr stjórnarandstöðunni.

Önnur umdeilanleg atriði eru ekki í bráðabirgðalögunum, heldur í aðgerðum utan þeirra. Ef frestað er framkvæmd þessara tveggja óafturkræfu atriða, hefur stjórnin léttilega mætt ásökunum um, að ósiðlegt sé, að alþingi komi ekki saman fyrr en 10. október.

Jónas Kristjánsson

DV