Orð eru til alls.

Greinar

Stjórnmálamönnum og stjórnmálaskrifurum tekst sjaldnast að finna lykilorðið, sem opnar Sesams-klettinn, orðavalið, sem fólk skilur og samþykkir. Menn hafa skoðun, sem þeir vilja koma á framfæri, en finna ekki rétta búninginn.

Í kosningabaráttu fyrir nokkrum árum ætlaði Sjálfstæðisflokkurinn að vera sniðugur með orðinu “leiftursókn”. Degi síðar slátraði Alþýðubandalagið slagorðinu með því að breyta því í “leiftursókn gegn lífskjörum”.

Lengi mæltu greindir menn með nýju fyrirkomulagi fiskveiða og kölluðu “auðlindaskatt”. Fyrir bragðið fengu þeir alla sjómenn og útgerðarmenn á móti sér, af því að allir óttast hugmynd, sem lýst er með orðinu “skattur”.

Enda eru þessir menn og aðrir farnir að tala um “sölu veiðileyfa” og jafnvel “sölu kvóta” til að færa hugsunina nær raunveruleika, sem sjómenn og útgerðarmenn þekkja af rækjuveiðum, síldveiðum og ýmsum öðrum veiðum.

Höfundur þessa leiðara hefur um langan aldur tekið miklar rokur í landbúnaði á um það bil tveggja ára fresti. Þar hefur núverandi kerfi hins hefðbundna landbúnaðar verið rifið í tætlur og annað byggt upp í þess stað.

Í þessu skyni hafa hvað eftir annað verið settar fram fastmótaðar tillögur upp á krónu um hvernig breyta mætti í áföngum stuðningi hins opinbera við útþenslu mjólkur- og kjötframleiðslu í stuðning við samdrátt í þessum greinum.

Árangurinn af þessu langvinna þjarki lýsir sér vel í nýlegum ummælum Sighvats Björgvinssonar hér í blaðinu. Hann “minnist engrar slíkrar tillögu” frá hinum úthaldsgóða tillögumanni og virðist meina það í einlægni.

En þannig fer oftast, einnig fyrir þeim, sem vilja telja sig fagmenn í að koma hugsunum á framfæri. Við æpum upp í vindinn og bíðum svo eftir svari. En það lætur á sér standa.

Raunar voru leiðarahöfundur og Sighvatur einu sinni samherjar með Vilmundi Gylfasyni í að mæla með svokölluðum “raunvöxtum”. Við hömuðumst á þessu nauðsynjamáli vikum og mánuðum saman, en höfðum ekki erindi sem erfiði.

Andstæðingar raunvaxta héldu hugmyndinni í skefjum með því að segja þá vera hið sama og “hávexti”. Það var ekki fyrr en stjórnmálamönnum úr Framsóknarflokknum datt í hug að nota “verðtryggingu fjárskuldbindinga” að vindur kom í seglin.

Enn er til fólk, sem telur að “raunvextir” séu of háir vextir, en samþykkir, að sanngjarnt sé, að þeir sem lána peninga, fái þá aftur í sömu verðmætum. Þetta sýnir gleggst, hvað orðin skipta miklu máli.

Líklega var Tómas Árnason einna þyngstur á metunum, þegar Framsóknarflokkurinn tók opinberlega trú á “verðtryggingu fjárskuldbindinga”. Og Steingrímur Hermannsson heldur enn, að hann hafi verið gabbaður. Eða “plataður”.

Engin furða er, að baráttumönnum “raunvaxta” á borð við Sighvat og Vilmund gremjist, að framsóknarmönnum, ótraustum í trúnni, sé þakkað orðalagið “verðtrygging fjárskuldbindinga”. En svona eru örlögin, þegar um orð er að ræða.

Hinir ágætu kjallarahöfundar DV, Sighvatur og Vilmundur, verða bara að vanda sig betur næst, þegar þeir leita að lykilorði í góðum málstað. Og höfundur þessa leiðara er enn að leita að lykilorðinu í landbúnaði.

Orð eru til alls, ekki bara fyrst.

Jónas Kristjánsson.

DV