Hinn tvíþætti galdur.

Greinar

Eins og aðrir þurfum við að hafa sem mest af atvinnuvegum, sem leggja sem mest til þjóðarbúsins, og sem minnst af atvinnuvegum, sem soga sem mest úr þjóðarbúinu. Til skamms tíma var þetta krafa um sem mestan sjávarútveg og sem minnstan landbúnað.

Hið eiginlega hlutverk atvinnuveganna er að standa undir öllu öðru, allt frá einkaneyzlu þjóðarinnar yfir í opinber skrímsli heilbrigðis-, skóla- og félagsmála Atvinnuvegur á framfæri hins opinbera er þverstæða í sjálfu sér.

Með því að fjölga fiskiskipum um of höfum við búið til ástand, sem hindrar sjávarútveginn í að standa undir þjóðfélaginu. Hrikaleg fjárfesting liggur bundin við bryggju, þar af togararnir í marga mánuði á hverju ári.

Svo er nú komið, að við erum farin að tala um styrki til sjávarútvegs og vonum, að það sé aðeins til bráðabirgða. Þegar hornsteinninn riðar þannig til falls, eru komin síðustu forvöð að fækka skipum og losna við suma útgerð.

Þar á ofan verðum við að fást til að horfast í augu við, að hámarksafli sjávarútvegsins er takmarkaður, jafnvel þótt okkur lánist á öllum sviðum að koma á jafnvægi í stærð hrygningarstofna og stærð flotans, sem sækir í þá.

Hingað til hafa vonir manna um fleiri hornsteina þjóðfélagsins helzt beinzt að orkufrekum iðnaði. En sú þróun er og verður hægari en bjartsýnir menn töldu, þegar samningar voru hafnir um álverið mikla í Straumsvík.

Við eigum að hagnýta okkur möguleika á þessu sviði, án þess að einblína á þá. Við sjáum í kísilgúr, áli og járnblendi, að verðsveiflur geta verið langar og þungbærar. Mögur ár og offramboð eru gamalkunnir draugar.

Allra sízt megum við gamna okkur við hugmyndir um að verða ríkir á að framleiða sykur, steinull, stál og salt. Þetta eru yfirleitt gamalkunnar greinar, þar sem oftar ríkir offramboð en umframeftirspurn. Framtíðin er ekki þar.

Einu sinni var fataiðnaður einn helzti hornsteinn velsældar Vesturlanda. Nú er hann að verða að vandræðabarni, ófær um að keppa við ódýra framleiðslu ríkja Suðaustur-Asíu. Aðeins sérhæfðir þættir standast þessar sviptingar.

Einu sinni voru skipasmíðar mikill hornsteinn, til dæmis í Svíþjóð. En heimurinn stendur ekki kyrr. Nú er öll skipasmíði þar í landi komin á framfæri hins opinbera, einnig í þessu tilviki vegna samkeppninnar frá Suðaustur-Asíu.

Finnar björguðu sínum skipasmíðum hins vegar með því að sérhæfa þær í olíupöllum og ísbrjótum. Á afmörkuðum sviðum hafa þeir tekið forustu og haldið henni. Ef til vill getum við gert slíkt í afmörkuðum tegundum fiskiskipa.

Í lífsbaráttu þjóðanna er tvenns konar galdur. Annar felst í að komast sem hraðast úr gömlum atvinnugreinum yfir í nýjar. Hinn felst í að finna afmarkaðar sérgreinar, sem Japanir, Hong Kongarar og Suður-Kóreumenn sinna ekki.

Hjá okkur er sérhæfður rafeindaiðnaður einna nærtækasta dæmið um þennan tvíþætta galdur. Sú atvinnugrein er á fleygiferð og alls staðar eru tækifæri á sérhæfðum sviðum. Við höfum menntun og mannskap og erum að feta fyrstu sporin.

Ef hið opinbera er á annað borð að skipta sér af atvinnulífinu, á það ekki að gera slíkt til að vernda hið úrelta, heldur hlúa að framtíðargreinum á borð við rafeindaiðnað og reyna að hraða því, að þær geti tekið þjóðarbúið á herðarnar.

Jónas Kristjánsson

DV