Slíðrið sverðin.

Greinar

Ágætt var, að Steingrímur Hermannsson fór utan í miðjum viðræðum um útgerðarvandann. Enn betra hefði verið að hafa Steingrím lengur í burtu. Og allra bezt hefði verið að senda með honum Kristján Ragnarsson.

Alltaf er leiðinlegt, þegar greindir menn taka upp á digurmælum í sandkassastíl. Og slíkt á sízt heima í viðkvæmri og torleystri deilu. Þeir Steingrímur og Kristján máttu gjarna hvíla sig og kæla þar með viðræðurnar.

En Steingrímur var ekki búinn að vera heima nema í nokkra daga, þegar aftur byrjaði hanaslagur hans og Kristjáns. Er ekki kominn tími til að fá málið í hendur einhverjum tveimur, sem ekki er svona uppsigað hvorum við annan?

Fyrir helgina stóðu málin þannig, að með ýmsum sjónhverfingum til skamms tíma var búið að koma meðaltapi útgerðarinnar úr 16% í 8%. Þær aðgerðir duga ekki til langs tíma, en gefa svigrúm til hugleiðinga um varanlegri pennastrik.

Að baki þessara 8% er ákaflega misjafn raunveruleiki. Sum skip eru rekin hallalaust, en önnur á margföldu þessu tapi. Sem heild er bátaflotinn mun betur settur en 8%-in segja og togaraflotinn aftur á móti verr settur.

Um 20-30 togarar eru í svo vonlausum rekstri, að engin leið er að koma þeim nálægt réttu striki og hvað þá yfir það. Yfirleitt eru þetta nýjustu skipin, keypt af fullkomnu skeytingarleysi um helztu lögmál í rekstri.

Þessum skipum þarf að leggja sem fyrst, svo að þau séu ekki að flækjast fyrir hinum, sem ekki eru vonlaus. Með tilheyrandi fækkun skrapdaga á að vera hægt að bæta verulega stöðu þess hluta togaraflotans, sem þjóðin þarf á að halda.

Ekkert annað en þetta eitt getur komið íslenzkum sjávarútvegi í eðlilegan rekstur við núverandi aðstæður. Og þetta eitt er líka nægilegt til að ná eðlilegum rekstri á skömmum tíma. Allt annað er kák og sumt vitleysa.

Að vísu má segja, að útgerðin stæði betur, ef þjóðin hætti að lifa um efni fram. En heilbrigð skynsemi segir, að launþegar muni ekki í bili sætta sig við frekari skerðingu lífskjara en þá, sem þegar hefur náðst um víðtækur friður.

Ekki er heldur hægt að ætlast til, að sættir næðust um skerðingu á hlut sjómanna, þótt alltaf geti menn gamnað sér við hugmyndir um að ná svo sem nokkrum prósentum fiskverðs framhjá hlutaskiptum. Slíkt leysir lítið af vandanum.

Fiskvinnslan mundi að vísu þola svo sem 2% hækkun fiskverðs, sem veita mætti framhjá hlutaskiptum, eins og áður hefur verið gert. Sú hækkun væri þá túlkuð sem hluti björgunaraðgerða í þágu útgerðarinnar.

Lægra og réttara gengi krónunnar mundi bæta stöðu þeirrar útgerðar, sem ekki er í botnlausum erlendum skuldum vegna glæpsamlegrar offjárfestingar undir verndarvæng hins opinbera. Og gengissig mundi efla iðnað, sem líka skiptir okkur máli.

En raunsætt er að álykta, að ekki megi skerða lífskjör þjóðarinnar hraðar en gert hefur verið að undanförnu og gert verður á næstunni. Um þá skerðingu hefur náðst samkomulag. Og friðinn mega menn helzt ekki rjúfa.

Að öllu samanlögðu eiga Steingrímur og Kristján að slíðra sverðin, reyna að troða örlítilli fiskverðshækkun framhjá hlutaskiptum, en leggja mesta áherzlu á að hindra togaraútgerð grínista, svo að hinir megi lifa.

Jónas Kristjánsson.

DV