Akkerið trausta.

Greinar

Kristján Eldjárn var traustur persónugervingur hins menningarsögulega akkeris, sem nauðsynlegt er hverri þjóð, er velkist fyrir hömrum torráðinnar framtíðar. Góður byr getur snögglega breytzt í mótvind, en fortíðin er ein og hin sama.

Enginn maður var Kristjáni fjölfróðari á þeim sviðum, sem kölluð eru íslenzk fræði eða íslenzk menningarsaga. Hann var í reynd fornleifafræðingur, sagnfræðingur, þjóðháttafræðingur, bókmenntafræðingur og málfræðingur.

Fræðirit hans fjalla sum um rústir og grafir, önnur um híbýli og hagleiksgripi, einnig um þjóðlíf og atvinnuhætti, enn um örnefni og gildi frásagna og loks um bókmenntir í bundnu máli og lausu. Í öllu þessu var hann á heimaslóðum.

Kristján hafði manna bezt tök á íslenzku máli í ræðu og riti. Í framsetningu vísindalegs efnis hafði hann lag á að gæða mál sitt slíku lífi, að leikmenn gátu hæglega notið þess. Menn lásu rit hans sér til ánægju.

Áður en hann tók við embætti forseta, var hann með almenningi þekktastur fyrir frábæra sjónvarpsþætti um fornleifar. Þar kom ekki aðeins fram vísindamaður og málsnillingur, heldur einnig hjartahlý og alþýðleg persóna.

Kristján Eldjárn stóð traustum fótum í bændamenningu landsins. Hann fór ekki í manngreinarálit og kom vingjarnlega fram við alla. Í góðum hópi var hann sögumaður snjall og gamansamur, hrókur alls fagnaðar.

Gróðurmold Svarfaðardals var honum jafnan hjarta næst. Oftar en einu sinni gat hann þess, að helzt hefði hann viljað vera bóndi. Sem forseti horfði hann meira inn til dala en út til nesja, þótt hann vildi gæta jafnvægis í því sem öðru.

Um leið var Kristján hinn mikli heimsmaður, veraldarvanur í þess orðs beztu merkingu. Málakunnáttu hans var við brugðið. Meðfædd kurteisi og kunnátta í umgengni reyndist honum gott vegarnesti í æðsta embætti þjóðarinnar.

Hann átti því láni að fagna að vera kvæntur Halldóru lngólfsdóttur, rólegri, skarpri og traustri konu, sem létti honum langan vinnudag. Þar sameinuðust sveitin og sjávarsíðan í farsælu hjónabandi og bústjórn á Bessastöðum.

Þjóðin kaus Kristján Eldjárn sem þjóðhöfðingja sinn af því að mannkostir hans og lífssaga gerðu hann að persónugervingi íslenzkrar menningarsögu. Af því ábyrgðarstarfi óx hann eins og af hverju öðru, sem hann tók sér fyrir hendur.

Í tólf ár sat Kristján að Bessastöðum, með ári hverju vinsælli af þjóðinni. Þar naut sín þétt handtak hans, óvenjuleg samræðulist, hispurslaus framganga við erlenda höfðingja og látlaus umgengni við samlanda.

Kristján hafði manna bezt lag á að kynnast fólki. Á þjóðminjaferðum og í forsetastóli eignaðist hann smám saman mun stærri vinahóp en vitað er um aðra Íslendinga. Aldrei sást hann reiðast og alltaf fylgdi honum lífsgleði.

Upphefð steig honum ekki til höfuðs. Til þess var hann of heilsteyptur og öfgalaus, of rótgróinn og víðsýnn, of lærður og listrænn. Þegar hann fór úr embætti var hann hinn sami og hann var, þegar hann tók við því.

DV samhryggist ættingjum og vinum Kristjáns Eldjárns og óskar þjóðinni þess, að áfram muni hún eignast traust akkeri, sem tengja nútíð og framtíð, svo að saga okkur verði heilsteypt á siglingu út á ókunn höf.

Jónas Kristjánsson

DV