Þegar peningar valda tjóni.

Greinar

Þjóðhagsstofnun hefur spáð, að samdráttur fjárfestingar á þessu ári verði minni í landbúnaði og fiskveiðum en í öðrum greinum atvinnulífsins. Við festum fjármuni einkum í greinum, þar sem þegar er búið að fjárfesta of mikið.

Tæpur milljarður króna fer í ár í súginn í fjárfestingu í landbúnaði og fiskveiðum. Annars vegar er atvinnuvegur, sem situr uppi með óseljanlega vöru, og hins vegar atvinnuvegur, sem býr við takmarkaða fiskstofna.

Í hvorugu tilvikinu kemur fjárfest króna að gagni. Þvert á móti spillir hún fyrir. Í landbúnaði stuðlar hún að óþarfri framleiðslu, sem síðan þarf að styrkja með niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum á kostnað almennings.

Á móti hverri krónu, sem bóndi fjárfestir í búskap sínum, verða skattgreiðendur að leggja til nokkrar krónur, ekki bara á einu ári, heldur ár eftir ár. Þannig fara raunar í súginn mun meiri peningar en fjárfestingin ein.

Í fiskveiðum stuðlar fjárfesting að minni afla á hvert skip. Hún gerir rekstur útgerðarinnar í heild óhagkvæmari en ella. Hún dregur úr möguleikum sjávarútvegsins á að standa undir þeim lífskjörum, sem Íslendingar hafa tamið sér.

Það gildir því hið sama í fiskveiðum og landbúnaði, að til spillis fer ekki aðeins fjárfesta krónan, heldur margar krónur að auki. Svipað má óbeint segja um ýmsa fjárfestingu hins opinbera, að hún dregur dilk á eftir sér.

Í hvert sinn, sem opinbert hús er reist, er það fyllt af opinberum rekstri, sem ekki var fyrir. Framkvæmdirnar kalla á rekstur, er skattgreiðendur verða að borga ár eftir ár og verður fljótlega margfalt dýrari en sjálf fjárfestingin.

Í þessu tilviki er ekki beinlínis hægt að tala um óþarfa fjárfestingu, því að það er matsatriði, hversu mikil opinber þjónusta eigi að vera. En það gildir þó, að fjárfestingin sjálf er bara byrjunin á útgjöldunum.

Þegar harðnar í ári og almenningur verður að sæta lakari lífskjörum, er eðlilegt, að efazt sé um, að nauðsynlegt sé að fjárfesta fjórðung þjóðarteknanna. Fimmtungur væri nær lagi, þegar ástandið er eins og það er nána.

Ef fjárfesting þjóðarinnar væri minnkuð úr fjórðungi í fimmtung þjóðartekna, mundi hallinn á þjóðarbúinu hverfa og skuldasöfnun í útlöndum stöðvast. Og það er einmitt eitt allra brýnasta verkefni okkar um þessar mundir.

Auðvitað er hægara sagt en gert að minnka fjárfestinguna. Heppilegast væri að minnka einkum þann hluta hennar, sem felst í innkaupum frá útlöndum, svo að samdrátturinn komi síður fram í minni vinnu við framkvæmdir innanlands.

Ríkisstjórn og alþingi hafa bein tök á fjárfestingu hins opinbera með fjárlögum og lánsfjáráætlun, auk allra hinna laganna, sem hafa óbeint fjárlagagildi, af því að þau hafa í för með sér útgjöld til fjárfestingar.

Ríkisstjórn og alþingi hafa óbein tök á fjárfestingu í offjárfestum greinum á borð við landbúnað og fiskveiðar. Byggt hefur verið sjálfvirkt sjóðakerfi með ódýrum lánum, sem þrýsta fjármagni til þessara greina.

Tímabært er orðið, að ráðamenn þjóðarinnar átti sig á, að ýmis fjárfesting, sem beint eða óbeint er á þeirra vegum, felur ekki aðeins í sér sóun peninga, heldur veldur beinlínis skaða þar á ofan. Á slíkri hugljómun er hægt að spara stórfé.

Jónas Kristjánsson.

DV