Búskaparraunir til bölvunar.

Greinar

Mitterand forseti og ríkisstjórn Frakklands eru að leika sér að eldinum í tilraunum til að tefja fyrir og helzt hindra aðild Spánar að Efnahagsbandalagi Evrópu. Sú aðild er nefnilega nauðsynleg til að tryggja lýðræði í sessi á Spáni.

Frönsk stjórnvöld eru að gæta hagsmuna eigin landbúnaðar, sem nýtur mikils stuðnings Efnahagsbandalagsins. Meirihluti peninga bandalagsins fer í að kaupa offramleiðslu landbúnaðarafurða, sem er mest í Frakklandi af löndum þess.

Fulltrúar Bretlands hafa með vaxandi þunga barizt gegn þessum fjáraustri. Hingað til hefur árangur þeirra verið fremur lítill. Hins vegar má búast við, að þeim takist að hindra, að innganga landbúnaðarríkja magni peningabrennsluna.

Frakkar sjá því fram á, að minna renni til franskra bænda, þegar spænskir og portúgalskir bændur þrýsta sér að kjötkötlum Efnahagsbandalagsins. Sérstakar áhyggjur hafa þeir af Spáni, af því að það er mun fjölmennara en Portúgal.

Af þessum ástæðum er hugsanlegt, að þröngsýn offramleiðslustefna í landbúnaði, sem við þekkjum mæta vel hér norður við heimskautabaug, geti hindrað fulla þátttöku Spánar í samstarfi vestrænna lýðræðisríkja.

Skammt er síðan Franco einræðisherra lézt og Jóhanni Karli Spánarkonungi tókst að lauma lýðræði inn um bakdyrnar. Donkíkótar gamla tímans eru enn magnaðir í stjórnmálum, dómstólum og einkum þó í meira eða minna falangískum hernum.

Nauðsynlegt er, að spænskir herforingjar fái tækifæri til að stunda stríðsleiki út á við í Atlantshafsbandalaginu til að draga úr óviðurkvæmilegum áhuga þeirra á spænskum innanríkismálum, sem eiga ekki að koma þeim neitt við.

Ef aðild að Efnahagsbandalaginu bætist ofan á þáttökuna í Atlantshafsbandalaginu, eru Spánverjar orðnir svo grunnmúraðir í vestrænu samstarfi, að útilokað má telja, að falangistum í hernum takist að koma fram stjórnarbyltingu.

Einræði og herræði hefur til skamms tíma þótt næsta hversdagslegt í löndum Suður-Evrópu. Portúgalir fylgdu Spánverjum úr myrkri einræðis. Ekki er langt síðan Grikkir máttu þola herforingja við stjórnvölinn. Og það mega Tyrkir nú.

Eina Miðjarðarhafsland Evrópu, sem á eftirstríðsárunum hefur sloppið við einræði og herræði, er Ítalía. Hafa þó pólitík og efnahagur löngum verið þar á ferð og flugi, kjörinn jarðvegur fyrir patentlausnir einfeldninga í hernum.

En Ítalía hefur allar þessar götur verið einn af hornsteinum samstarfs Vestur-Evrópu, virkur aðili Atlantshafsbandalagsins og Efnahagsbandalagsins. Sú staðreynd hefur fremur en annað tryggt lýðræði og velsæld í sessi á Ítalíu.

Ný aðild Grikklands að Efnahagsbandalaginu er trygging gegn því, að herforingjar nái þar aftur völdum. Með væntanlegri aðild Portúgals verður lýðræði einnig þar fest í sessi. Æskilegt væri að drífa líka Tyrkland inn fyrir dyrnar.

En slagurinn stendur nú um Spán, þar sem framundan er kosningasigur sósíalista og tilheyrandi angist í hernum. Það er siðferðileg skylda Efnahagsbandalagsins að slá skjaldborg um lýðræðisfræið með því að létta Spáni inngönguna.

Lýðræðisþjóðir heims eru fáar og fer fækkandi. Ein ótryggasta víglína þess þjóðskipulags er við suðurströnd Evrópu. Þröngsýn landbúnaðarsjónarmið mega ekki hindra Efnahagsbandalagið í því meginhlutverki að gæta hagsmuna lýðræðis við Miðjarðarhafið.

Jónas Kristjánsson

DV