Við höfum tromp á hendi.

Greinar

Ekki er ástæða til að örvænta, þótt þunglega gangi að venjast stöðnun þjóðartekna. Margt er heilbrigt í þjóðarhag, svo sem full atvinna. Og ýmis ónotuð tromp geta fært okkur góða slagi í bú, ef við höldum rétt á spilunum.

Með hinum sögulegu sáttum á vinnumarkaðinum í sumar hefur þjóðin dregið úr lífskjörum sínum sem svarar helmingi af þeirri skuldasöfnun í útlöndum, er annars var yfirvofandi. Þetta er afar mikilvægt upphaf að nýrri sókn þjóðarhags.

Ef stjórnvöld draga nú verulega úr þeirri fjárfestingu, sem þau stjórna beint og óbeint, má komast langt í að losna við hinn helminginn af skuldasöfnuninni, án þess að draga úr arðbærri fjárfestingu, sem skilar vöxtum og afborgunum.

Full atvinna er það jákvæðasta í efnahagslífinu. Hún gerir okkur kleift að hugsa um framtíðina á annan hátt en þær nágrannaþjóðir geta, sem búa við mikið og vaxandi atvinnuleysi. Hennar vegna getum við hugsað djarfar en ella.

Að vísu er hér dálítið af duldu atvinnuleysi. Annars vegar er hinn hefðbundni landbúnaður mjólkur og kjöts og hins vegar er hinn bólgni opinberi geiri. Hvoru tveggja er haldið uppi með óeðlilegum álögum á skattgreiðendur.

Þess sjást merki, að bændur og forustumenn þeirra eru að byrja að átta sig á sínum hluta vandans. Þeir eru farnir að rifa seglin í hefðbundnum landbúnaði og flýta sér í nýjar búgreinar, þar á meðal iðnað á borð við minka- og refarækt.

Ráðamenn þjóðarinnar gera sér líka grein fyrir, að þeir hafa þanið opinberan rekstur á síðustu árum. Þeir vilja draga af því sama lærdóm og bændur eru farnir að gera. En þeir eiga um leið manna erfiðast með að standast útgjaldafreistingar.

Ekki er nóg að stöðva fjárfestingu í fiskiskipum og draga saman seglin í hefðbundnum landbúnaði og opinberum rekstri. Um leið þarf að hlúa að atvinnutækifærum, bæði fyrir þá, sem koma úr dulda atvinnuleysinu, og þá sem bætast við vinnumarkaðinn.

Ranga leiðin til þess er að nota fjárhagslegt bolmagn ríkisins til að koma á fót iðnaði, sem þegar er of mikið af í heiminum, svo sem vinnslu á salti, sykri, steinull og hugsanlega stáli. Slíkt er bara ávísun á ríkisstyrk.

Rétta leiðin er að búa almennt í haginn fyrir þann iðnað, sem þegar er fyrir, svo að hann geti aukið framleiðsluna og fært út kvíarnar, til dæmis í nýjar greinar. Þetta er alténd sá iðnaður, sem hingað til hefur lifað af súrt og sætt.

Þáttur í þessu er að jafna aðstöðu atvinnuvega í opinberum álögum og lánakjörum. Eyrnamerking í fjárfestingu ætti raunar að hverfa og vextir að verða frjálsir, svo að fjármagnið beinist í auknum mæli í arðbærar áttir.

Ekki er síður mikilvægt, að gengi krónunnar sé jafnan rétt skráð. Hin hefðbundna tregða á að viðurkenna staðreyndir og lækka gengið hefur öðru fremur ruglað þjóðhagsrímið og valdið hrikalegum skaða. Á þessu sviði er siðbótar þörf.

Bezt væri að hætta að skrá gengi krónunnar og láta hana sjálfa um það. Jafnframt væri æskilegt að leyfa notkun annarra gjaldmiðla innanlands til að draga úr möguleikum stjórnmálamanna á að búa til séríslenzka verðbólgu með seðlaprentun.

Heimsins minnsta verðbólga er í Panama, sem prentar enga seðla, hefur engan gjaldmiðil. Flestum mun finnast slíkt nokkuð gróft. En það er kominn tími til, að við losum okkur við verðbólguna. Og til þess þarf að hugsa djarft.

Jónas Kristjánsson

DV