Verra en glæpur.

Greinar

Þetta er verra en glæpur, það er heimska. Þannig má á máli, sem stjórnmálamenn skilja, lýsa ráðagerðum stjórnarandatöðunnar gegn bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar. Þær munu nefnilega koma stjórnarandstöðunni sjálfri í koll.

Að gamalli hefð stjórnmálamanna hefur stjórnarandstaðan hið fullkomna ábyrgðarleysi að leiðarljósi. Hún sést ekki fyrir í kappinu við að koma ríkisstjórninni frá og telur sig komast upp með það fyrir dómi kjósenda.

Með því að fella bráðabirgðalögin getur stjórnarandstaðan hindrað aðlögun þjóðarneyzlu að rýrðum þjóðartekjum. Það væri illt verk, sem mundi gefa verðbólgunni lausan tauminn og torvelda stjórn efnahagsmála á næstu árum.

Skammsýnir þingmenn stjórnarandstöðunnar eru sumir hverjir í slíkum ham, að þeir eru að auki farnir að gamna sér við hugmyndir um að hindra lagfæringar á stjórnarskránni. Menn, sem hata og hefna, ættu ekki að koma nálægt stjórnmálum.

Engin efnisleg rök eru til gegn stefnu bráðabirgðalaganna, enda hefur stjórnarandstaðan ekki reynt að veifa slíku. Ljóst má telja, að hún hefði gert hið sama og að hún neyðist til að gera meira af sama, þegar hún kemst til valda.

Hið eina, sem út á lögin er að setja, er, að þau ganga ekki nógu langt. Um slíkt ættu þingmenn stjórnarandstöðunnar að setja fram breytingartillögur, ef þeir vildu haga sér eins og ætlazt er til af ábyrgum stjórnmálamönnum.

Að vísu gæti það rofið sjálfheldu stjórnarandstöðunnar í ábyrgðarleysinu, ef ríkisstjórninni mistækist að framkvæma loforð um hliðarráðstafanir á borð við frumvörp um nýja vísitölu, aukið orlof og láglaunabætur.

Eitt helzta einkenni þingmanna, sem valda ekki hlutverki sínu, er, að þeir eiga erfitt með að sjá lengra fram í tímann en nokkra daga eða vikur. Dæmigerðast er, að stjórnarandstaða hagar sér yfirleitt eins og andstöðuhlutverkið verði eilíft.

Núverandi ríkisstjórn á skammt eftir ólifað. Stjórnarmynztur hennar hefur gengið sér til húðar og verður ekki endurtekið eftir kosningar. Hver ímyndar sér til dæmis, að Framsóknarflokkurinn taki aftur þátt í slíkri ríkisstjórn?

Líklega mun Sjálfstæðisflokkurinn sem stærsti flokkurinn skipa næstu ríkisstjórn. Og hugsanlegt er líka, að Alþýðuflokkurinn verði þar. Altjend mun einhver hluti núverandi stjórnarandstöðu fá vandann í hausinn á næsta ári.

Ef þessir væntanlegu ráðherrar fella nú bráðabirgðalögin, eru þeir um leið að magna eigið böl. Þeir munu þá standa andspænis stóraukinni verðbólgu og stóraukinni skuldasöfnun í útlöndum. Þá munu þeir iðrast illra verka.

Ekki er núna hægt að sjá fyrir, að þingmenn stjórnarandstöðunnar og væntanlegir ráðherrar geti skotið sér undan gagnrýni fyrir að hafa gert illt ástand verra með því að fella bráðabirgðalögin. Illt verk mun mælast illa fyrir.

Tímabært er orðið, að áhrifamiklir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins í atvinnulífinu átti sig á, að alvara er á ferðum, reyni að koma vitinu fyrir þingmenn flokksins og forði þeim frá blindu og vígamóðu ani út í ófæruna.

Það er nefnilega vanhugsað hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar, þegar þeir ímynda sér, að gagnvart kjósendum komist þeir upp með fyrirhugað ábyrgðarleysi. Þess vegna er ráðagerð þeirra verri en glæpur, hún er heimska.

Jónas Kristjánsson

DV