“Mjög fáar nýjar stöður”!

Greinar

“Mjög fáar nýjar stöður bætast við,” segir með barnalegu stolti í athugasemdum með fjárlagafrumvarpinu nýja. Þessi orð segja í raun, að fjármálaráðherra og ríkisstjórn hefur ekki tekizt að draga saman seglin í ríkisgeiranum.

Um þessar mundir rýrna þjóðartekjurnar um meira en 5% á hverju ári. Við svo hrikalegar aðstæður dugir engan veginn að ráðast eingöngu að fjárhag heimilanna með því að höggva skörð í verðbótavísitöluna, sem reiknuð er á laun manna.

Um leið og dregið er úr einkaneyzlunni þarf einnig að minnka samneyzluna. Það má gera sumpart með því að ráða ekki opinbera starfsmenn í stöður, sem losna í eðlilegri hringrás lífsins. Þannig má fækka án mikils sársauka.

Einnig er nauðsynlegt að stöðva sóknina í átt til velferðarþjóðfélagsins. Eftir áratuga, hraða útþenslu “góðu” málaflokkanna er kominn tími til að staldra við um stund og bíða þess, að efnahagslega óveðrið gangi niður.

Samneyzlan jókst um 2% í hittifyrra, 1% í fyrra og mun sennilega aukast um 2% í ár. Þessi síðustu tvö stig koma þvert ofan í öra tekjurýrnun þjóðarinnar. Og því miður bendir fjárlagafrumvarpið ekki til minni samneyzlu á næsta ári.

Gallinn er, að stjórnvöld gera svo litlar kröfur til sín, að þeim finnst vera afrek að halda samneyzlunni niðri í nærri engum vexti. En alltaf hafa þótt linir þeir höfðingjar, sem gera minni kröfur til sjálfs sín en almennings.

Eina jákvæða við fjárlagafrumvarpið er, að minnka á fjárfestingar þess um 8% í viðbót við 6% samdrátt á þessu ári. Þetta er þó ekki eins hörkulegt og atvinnuvegirnir hafa mátt þola, 8% samdrátt í fyrra og 9% samdrátt í ár.

Þessi samdráttur opinberra framkvæmda segir svo ekki nema hluta sögunnar, því að flestar dýrustu frumkvæmdir hins opinbera ern ekki á fjárlögum, heldur á lánsfjáráætlun, sem ekki kemur í ljós fyrr en eftir nokkrar vikur.

Samkvæmt fyrri reynslu má búast við, að lánsfjáráætlunin fyrir næsta ár geri ráð fyrir mikilli söfnun skulda í útlöndum. Hún verður svo afsökuð með, að lánin fari til arðbærra framkvæmda í orkumálum og öðru slíku.

Ráðamenn þjóðarinnar munu þá gæta þess að nefna ekki, að erlenda lánaþörfin til orkumála byggist á, að of mikill hluti innlenda sparnaðarins hefur verið tekinn til gæluverkefna, annarra óarðbærra mála og jafnvel þjóðhættulegra.

Á næsta ári hyggst ríkið til dæmis nota tíundu hverja krónu til útflutningsuppbóta, niðurgreiðslna og beinna styrkja til landbúnaðarins. Þetta verða rúmlega 1.200 milljónir króna, sem varið er til að búa til enn frekari vandamál.

Þannig eiga heilögu kýrnar áfram að sliga þjóðina. Þær vaða í fóðrinu meðan landslýður verður sjálfur að herða sultarólina. Fjárlagafrumvarpið nýja markar enga stefnubreytingu í þessu, þótt samdráttur þjóðartekna krefjist þess.

Í heild má segja, að fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár sé í svipuðum og jafnvel heldur drýgri sparnaðaranda en það frumvarp, sem lagt var fram fyrir ári. En þessi sparnaðarandi endurspeglar aðeins hluta nauðsynjarinnar.

Frá miðju síðasta ári hefur þjóðarhagur verið á hraðri niðurleið. Einn mikilvægasti þáttur varnarstríðs fælist í róttækum niðurskurði ríkisútgjalda. Slíks kjarks sér engin merki í frumvarpinu. Þess vegna er það aumlegt.

Jónas Kristjánsson

DV