Megi útvarp blómstra.

Greinar

Hugsum okkur, að alþingi kysi okkur ríkisútgáfuráð til að sjá um ríkisútgáfu á öllu prentuðu máli hér á landi, svo að það geti, eins og hljóðvarp og sjónvarp, verið “í eigu allra Íslendinga”, svo notuð séu orð Helga Péturssonar.

Sjálfsagt eru til menn, sem hafa þessa skoðun. Sumir vilja til dæmis hindra, að einstaklingar úti í bæ séu að græða á prentun og útgáfu blaða, tímarita og bóka, af því að það sé svo ljótt að græða á því, sem ætti að vera “í eigu allra Íslendinga”.

Hljóðvarp og sjónvarp komu til sögunnar á tímum, þegar sú var tízkan, að ríkið ætti að eiga sem flest, auk þess sem menn töldu, að ríkið eitt réði við mikinn stofnkostnað. Ríkistízkan var ekki, þegar hófst útgáfa prentaðs máls.

Þetta er meðal annars athyglisvert fyrir þá sök, að í rauninni er prentun mun dýrara fyrirbæri en hljóðvarp og sjónvarp. Búa þarf til sérstakt eintak fyrir hvern viðskiptamann og koma því til hans sérstaklega.

Pappír, prentun og dreifing eru dýr. Þar að auki hafa pappír og dreifing hækkað í verði langt umfram verðbólgu á undanförnum áratugum. Þá er nú munur að hafa ódýran ljósvakann til að senda efnið öllum viðskiptamönnum í senn.

Samt hafa prentun og útgáfa blómstrað eins og þúsund rósir. Hér koma út fimm dagblöð, tugir héraðsblaða, hundruð tímarita og árlega hundruð bóka. Varla er til svo sérhæfður smekkur, að honum falli ekki eitthvað af þessu.

Andspænis þessu fjölskrúði höfum við svo eina dagskrá hljóðvarps og einnig eina dagskrá sjónvarps. Sú einhæfni á vegum ríkis “í eigu allra Íslendinga” stingur mjög í stúf við blómskrúðið í prentmálsgörðum íslenzkra einstaklinga.

Af fimm dagblöðum eru tvö gefin út með hagnaði. Og væru hin þrjú sameinuð í eitt, mætti láta þau skila hagnaði. Í samanburði við þetta er fráleitt, að ekki sé hægt að hafa tvö landshljóðvörp hið fæsta og sennilegast þrjú.

Því miður gerir nýja útvarpsfrumvarpið ekki ráð fyrir, að svo sjálfsagður hlutur sé leyfður. Þar er hins vegar gert ráð fyrir svæðisbundnu útvarpi, sem er mikill akur óplægður, eins og við sjáum af mergð héraðsblaða og tímarita.

Svæðisbundið hljóðvarp er ódýrt í stofnun og rekstri. Þar er kjörið tækifæri til að efla svæðisbundna fjölmiðlun, sem ekki á erindi í landsfjölmiðlun eða kemst þar ekki að. Þetta er tilraunaverkefni fyrir áhugafólk.

Héraðsblöðin vitna um, að fimm dagblöð á landsvísu duga ekki til að þjónusta landið til botns. Hví skyldi þá eitt landsútvarp duga? Og hvað um allar séróskirnar, hliðstæðar þeim, sem hundruð tímarita þarf til að þjóna?

Sjónvarpið er þegar farið að blómstra í formi kapla, sem verið er að leggja í mörgum þéttbýliskjörnum. Þessir kaplar eru líklega allir tólf rása hið minnsta. Þeim mun fjölga og síðan munu þeir tengjast á ýmsa vegu.

Sem dæmi um möguleikana má nefna rás fyrir skólasjónvarp, til dæmis háskólasjónvarp, svo sem rekið er með góðum árangri í Bretlandi og sparar þar mikinn háskólakostnað. Þaðan er unnt að fá frábært efni á þessu sviði.

Nú reynir á, að þingmenn átti sig á, að gott er að hafa fjölskrúðugan rósagarð í útvarpi alveg eins og í prentuðu máli. Þá munu þeir sníða af nýja útvarpsfrumvarpinu ýmsa hræðslu og fordóma og gera það enn betra.

Jónas Kristjánsson

DV