Ókeypis óskhyggja.

Greinar

Fyrsta grein þingmannafrumvarps til orkulaga hljóðar svo: “Ráðherra sá, sem fer með orkumál, hefur yfirstjórn þeirra mála, sem lög þessi fjalla um.” Með slíkum orðum má draga úr efa á, að orkuráðherra fari með orkumál!

Að baki hins rökvísa upphafs koma svo 47 greinar og raunar sjö greinar til viðbótar í hliðarfrumvarpi um jarðboranir. Samanlagt er þar gert ráð fyrir umtalsverðum kerfisbreytingum í orkumálum, vonandi jafn rökföstum og upphafsorðin.

Samkvæmt frumvarpinu ber að leggja niður Rafmagnsveitur ríkisins og fela verkefni þeirra öðrum stofnunum, einkum Landsvirkjun. Þá beri að taka jarðboranir úr höndum Orkustofnunar og fela þær sérstakri stofnun.

Margt fleira er í frumvarpinu, sumt torskilið, þótt því fylgi bæði almenn greinargerð og útskýringar á einstökum liðum, svo sem venja er í frumvörpum á alþingi. Með greinargerðum er þetta orðið að 54 síðna bók.

Í öllum þessum texta er hvergi vikið að fjármálum. Engin tilraun er gerð til að meta, hvað kerfisbreytingin muni kosta í stofni og í árlegum rekstri. Ætti slíkt þó að vera mikilvægur þáttur í mati alþingis á frumvörpum.

Augljóst má vera, að fjórtán manna orkuráð verður dýrara en fimm manna. Einnig má vera augljóst, að jöfnun gjaldskrár um allt land hlýtur að kosta mikið fé. Þannig má áfram telja ýmislegt dýrt spaug í þessu þingmannafrumvarpi.

Samkvæmt fjárlögum hafa þingflokkarnir peninga til ráðstöfunar í sérfræðiaðstoð. Í þessu tilviki hefði verið ábyrgara og heiðarlegra að nota hluta af því fé til að láta reikna frumvarpið til fjár, svo að menn viti, um hvað það fjallar.

Ekki er síður ástæða til að gera sömu kröfu til frumvarpa, sem koma frá ríkisstjórninni. Á bak við hana er mikill fjöldi hagfræðinga og viðskiptafræðinga. Kostnaðarreikningur á skilyrðislaust að fylgja öllum frumvörpum hennar.

Stjórnarfrumvarp um mál aldraðra er eitt slíkra. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu á það að “leysa” þau mál með því “að auka afskipti og skyldur ríkisins” með “stórátaki á skömmum tíma”. Ekki vantar, að hátt sé stefnt.

Hvergi er í frumvarpinu, greinargerð né skýringum þess getið, að lausnin, afskiptin og átakið kosti einhverja peninga. Gert er ráð fyrir, að alþingi samþykki stórfelldan stofnkostnað og rekstrarkostnað án þess að vita um hann.

Annað stjórnarfrumvarp fjallar um heilbrigðisþjónustu. Þar er meðal annars gert ráð fyrir fjölgun lækna og flutningi heilsugæzlustöðva milli virðingar- og kostnaðarþrepa. Það frumvarp er áreiðanlega jafn fallega hugsað og hið fyrra.

Hið sama gildir um þetta og fyrrnefnd frumvörp, að hvergi er þess getið, að hin aukna heilbrigðisþjónusta kosti nokkurt fé. Hafa menn þó reynslu af, að lög um heilsugæzlustöðvar geta valdið ríkissjóði miklum búsifjum.

Hér hefur verið getið tveggja frumvarpa ríkisstjórnarinnar og eins frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þau eru ekki einsdæmi, heldur raunar dæmigerð fyrir frumvörp og lög fyrr og síðar. Og við eigum eftir að sjá fleiri.

Þrátt fyrir hefðina eru þetta siðlaus vinnubrögð á alþingi. Forkastanlegt er að ætlast til, að þingið geri frumvörp að lögum, án þess að það geri sér einhverja grein fyrir kostnaði við stofnun og rekstur óskhyggjunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV