Eins og hálshöggvin hænsni.

Greinar

Svo er nú komið fyrir þessari þjóð, að Seðlabankinn og Jóhannes Nordal hafa neyðzt til að taka ráðin af ríkisstjórn, sem er svo máttvana, að hún getur ekki einu sinni mótmælt vaxtahækkun, er sumir ráðherrarnir segjast vera á móti.

Verst er frammistaða Steingríms Hermannssonar og Svavars Gestssonar, sem þjóta um ríkisstjórnarportið eins og hálshöggvin hænsni, út af því að gróðapungarnir að baki þeim munu nú hafa minni gróða af öfugum vöxtum en að undanförnu.

Þegar slíkir umboðsmenn forréttindahópa væla um, að hærri vextir setji atvinnulífið á höfuðið, eru þeir aldrei nógu heiðarlegir til að viðurkenna, að óverðtryggð lán eru jafnan endurgreidd í ódýrari krónum en hinar upphaflegu.

Jafnvel afurðalánin, höfuðvígi vaxtagróðamanna, eru þessu marki brennd. Vörumar, sem lánin eru veitt út á, hækka í verði á lánstímanum. Og þrátt fyrir vaxtahækkunina munu þessar vörur áfram hækka meira en sem nemur vaxtakostnaði.

Vaxtahækkun Seðlabankans var raunar alltof lítil. Hún hefði þurft að vera mun meiri, sérstaklega á afurðalánum. Jákvæðir vextir eru eina leiðin til að soga á ný fé inn í bankakerfið, svo að aftur verði þar fé til útlána.

Íslenzka þjóðfélagið er ekki lengur unnt að reka með 10% halla. Og ekki heldur með þeim 6% halla, sem ráðgerður er á næsta ári. Við höfum nefnilega ekki ráð á að taka fleiri lán í útlöndum, því að þau eru að sliga okkur.

Hið eina, sem getur komið í staðinn fyrir erlend lán, er innlendur sparnaður. Í stað þess að eyða öllu jafnóðum verðum við að fara að spara. Og það gerum við ekki, nema stjórnvöld hætti að brenna upp þennan sparnað.

Fyrir hálfu öðru ári voru vextir um tíma nálægt því að vera jákvæðir. Þá var blómaskeið útlána, því að bankarnir fylltust af sparifé, sem annars hefði horfið út í buskann. Þá var tiltölulega auðvelt að fá lán.

Síðan hefur sigið hratt á ógæfuhliðina. Nú er svo komið, að menn leggja helzt ekki fé í banka. Þar af leiðandi geta bankarnir ekki lánað fé þessa mánuðina, mörgum manninum til sárrar raunar. Þessu þarf að breyta.

Bezt væri að hafa vexti frjálsa, svo að þeir finni á hverjum tíma sitt rétta jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á lánsfé. Ákvarðanir opinberra aðila hljóta hins vegar að koma bæði seint og illa eins og dæmin sanna.

Pólitísk samstaða næst því miður ekki um frjálsa vexti, því að stjórnmálamennirnir þurfa jafnan að gæta hagsmuna ljúflinganna, sem hvísla í eyru þeirra. Steingrímur og Svavar eru dæmi dagsins um eymd stjórnmálanna.

Við þessar aðstæður er einkar heppilegt, að seðlabanka okkar hefur, eins og seðlabönkum nálægra ríkja, verið falið töluvert vald til ákvörðunar vaxta. Það hlífir lélegum pólitíkusum við ábyrgð, sem þeir geta ekki staðið undir.

Þar að auki eru til hér sérstök Ólafslög, sem fjalla meðal annars um, að fjárskuldbindingar skuli vera verðtryggðar. Seðlabankinn verður því ekki sakaður um valdarán, heldur um of mikla linku í meðferð valdanna.

Dapurlegast er að sjá aumingjaskap ríkisstjórnarinnar, þar sem hinir vitmeiri ráðherrar horfa í gaupnir sér, segjandi ja og humm við vöxtum, meðan eftirhermur hálshöggvinna hænsna verða sér til skammar fyrir alþjóð.

Jónas Kristjánsson

DV