Brauðið og bókmenntirnar.

Greinar

Brauðgerð og brauðneyzla hafa gerbreytzt hér á landi á fáum árum. Til viðbótar við svokölluð vísitölubrauð er kominn fjöldi áður óþekktra brauða, sem renna út eins og heitar lummur, þótt þau séu dýrari.

Brauðneyzlan hefur færzt úr sigtuðum hvítahveitisbrauðum í heilkornsbrauð af ýmsu tagi. Þannig hefur brauðbyltingin stuðlað að hollara mataræði. Mega bakarar því vera stoltir af sínum hlut, sinni fagmennsku.

Brauðbyltingin varð ekki vegna tilskipunar að ofan. Hún óx af sjálfu sér í samskiptum bakara og neytenda. Markaðurinn fyrir ný og betri brauð var til. Bakarar þekktu sinn vitjunartíma og hafa náð að stækka markað inn ört.

Nú er svo komið, að brauðgerð á Íslandi skarar fram úr brauðgerð frændanna á Norðurlöndum. Aðeins Þjóðverjar eru enn fremri, enda stendur brauðmarkaður þar á aldagömlum merg, en er hér nýr af nálinni.

Vel menntaðir fagmenn og vel upplýstur almenningur eiga samleið á ýmsum fleiri sviðum. Annað augljóst dæmi um byltingu í víxlverkun framleiðenda og notenda eru veitingahúsin, sem hafa gerbreytzt á jafnskömmum tíma og bakaríin.

Fyrir fimm árum voru íslenzk veitingahús stöðnuð í gamalli, danskri matargerð. Síðan er eins og hvirfilvindur hafi farið um kokkastéttina. Saman fer faglegt stolt, tilraunagirni og virðing fyrir hráefnum og hollustu.

Þannig eru dæmi þess, að heilar starfsstéttir hafi umturnazt á fáum árum. Þær hafa rifið sig upp úr hefðbundnum doða, ruðzt framhjá vísitölubrauðum og verðlagseftirliti. Fagmenn hafa breytzt úr embættismönnum í athafnamenn og listamenn.

Eldra dæmi um slíkan markað, gagnkvæman skilning framleiðenda og notenda, er íslenzk myndlist. Hún hefur ekki magnazt fyrir velvilja hins opinbera, því að það hefur ekki haft ráð á að halda til jafns við hið opinbera á Norðurlöndum.

Það er fólkið í landinu, sem hefur keypt málverk á frjálsum markaði. Þessi sala er svo mögnuð, að ótrúlegur fjöldi listamanna hefur um langt skeið getað lifað af verkum sínum, auk allra hinna, sem hafa af þeim hlutatekjur.

Eitt elzta dæmið eru bókmenntirnar, sem blómstra áratug eftir áratug, þótt fámennið geri skilyrðin hér á landi óvenjulega erfið, nánast óyfirstíganlega erfið. Hér er hreinlega jarðvegur fyrir kraftmiklar bókmenntir.

Eftir þessi handahlaup leiðarans úr bakstri í bókmenntir er kannski ekki úr vegi að taka dæmi úr enn annarri átt. Það er tölvubyltingin, sem virðist renna greiðar inn í okkar þjóðfélag en við sjáum dæmi um annars staðar.

Risið hafa mörg smáfyrirtæki, þar sem ferskir menn finna upp nýjungar, þróa þær og koma í framleiðslu. Að verki er ungt fólk, laust úr viðjum vanans. Það berst til sigurs, að mestu án aðstoðar hins opinbera.

Tölvukynslóðin hefur ekki þegið þetta vegarnesti í skólunum, sem enn búa við sárustu fátækt á þessu sviði. Við sjáum það bezt af, að tölvuskólar í einkaeigu hafa sprottið eins og gorkúlur á þessu ári.

Íslendingar stefna óðfluga að þrælkun tölvunnar sem hornsteins að atvinnulífinu. Það er enn eitt dæmið um, að gegnum erfiðleika okkar skín innri kraftur fagmennsku, sem á sér hljómgrunn og mun flytja okkur langt fram eftir vegi.

Jónas Kristjánsson

DV