Þriðji heimurinn – ekki Kortsjnoj.

Greinar

Um borð í bátnum frá flugvelli til Feneyja voru tveir farþegar, leiðarahöfundur og kornungur Filippseyingur, Art Panganiban, skyldur eða tengdur Marcosi forseta. Hann útbýtti tveimur nafnspjöldum, öðru úr silki og hinu úr balsavið.

Úr því að Panganiban átti ferðaskrifstofu ríkisins á Filippseyjum og Ferdinand Marcos á um fjörutíu milljón manns á Filippseyjum, því skyldi ekki Florenico Campomanes eiga svo sem eitt alþjóðasamband, til dæmis í skák.

Í Luzern tók þriðji heimurinn völdin af Vestur-Evrópu í Alþjóða skáksambandinu, alveg eins og hann hefur gert í öðrum stofnunum, þar á meðal Unesco. Þetta getur þriðji heimurinn í krafti meirihluta atkvæðanna.

Sigur Campomanesar yfir Friðriki Ólafssyni var svo mikill , að austantjaldsatkvæðin réðu ekki einu sinni úrslitum. Munurinn nam 22 atkvæðum, svo að Friðrik hefði fallið, þótt hann hefði ekki lent í vandamálum Kortsjnojs.

Austantjaldsríkin geta ekki frekar en Vestur-Evrópa ráðið ferðinni í Alþjóða skáksambandinu. Þau sjá sér því hag í að fá aðild að nýjum meirihluta Campomanesar í stað þess að styðja vonlausan minnihluta Vestur-Evrópu.

Arabaríkin, sem hafa nóga peninga og þurfa ekki á mútum Campomanesar að halda, sáu sér líka hag í að styðja þriðja heiminn. Í staðinn hafa þau fengið loforð um tilraunir til að útiloka ísraelska skákmenn frá alþjóðamótum.

Bandalagið milli þriðja heimsins, arabaríkjanna og austurblokkarinnar í Alþjóða skáksambandinu er nákvæmlega sama bandalagið og myndað hefur verið í ýmsum alþjóðasamtökum, þar á meðal Sameinuðu þjóðunum og hliðarstofnunum þeirra.

Þriðji heimurinn lítur á Vestur-Evrópu sem vígi gamalla nýlenduherra, er enn skirrist við að láta af hendi lönd á borð við Falklandseyjar og Gíbraltar. Að baki Friðriks sáu þriðja heims mennirnir Keene hinn enska og Levy hinn skozka.

Alls staðar þar sem þriðji heimurinn tekur völdin, breytast leikreglurnar. Í stað siðvenja, lagareglna og drengskapar kemur villimennska í ýmsum myndum, þar á meðal í mútum og öllum öðrum tegundum fjármálaspillingar.

Við slíkar aðstæður er Campomanes auðvitað rétti maðurinn. Hann kemur með peningana og villimennirnir með atkvæðin. Dæmið gengur upp, af því að arabaríkin sjá sér í því pólitískan hag. Austurblökkin er bara aukahjól.

Allt er svo varið með því, að ríku löndin einoki skákina og að tímabært sé orðið að flytja þungamiðjuna til þriðja heimsins, til dæmis til vöggu skáklistarinnar í Asíu. Maður sér í huganum höfug tár Campomanesar.

En það voru ekki ríku löndin, sem réðu Alþjóða skáksambandinu í krafti fjármagns, heldur í krafti reynslu og skákmannafjölda. Það eru fátæku löndin, sem hafa tekið völdin í krafti fjármagns og ríkjafjölda.

Við hörmum auðvitað ósigur Friðriks, sem var góður forseti. Hins vegar er starfsdegi hans og annarra Vestur-Evrópumanna ekki lokið. Margt verkið þarf að vinna í samstarfi skákmanna innan Vestur-Evrópu.

Enn meiri ástæða er til að harma örlög Filippseyinga. Þeir verða að svelta, svo að Panganiban geti haft nafnspjöld úr silki og balsavið, – svo að Marcos geti útbýtt þjóðarauði til ættingja og vina, – svo að Campomanes eignist alþjóðasamtök.

Jónas Kristjánsson

DV