Sex seigar afturgöngur.

Greinar

Nokkrar röksemdir ganga sífellt aftur, þegar menn reyna að koma skildi fyrir hinn hefðbundna landbúnað sauðfjárræktar og kúabúskapar. Í hvert sinn sem þær eru slegnar í kaf, koma þær jafnskjótt aftur upp á yfirborðið.

Því er oft haldið fram, að nauðsynlegt sé að hafa mikla framleiðslu á kjöti og mjólkurvörum, svo að þjóðin verði ekki matarlaus í einangrun, sem kynni að fylgja næstu heimsstyrjöld eða einhverri annarri óáran.

Í rauninni væru hér hlutfallslega meiri matarbirgðir en í öðrum löndum, jafnvel þótt engar væru birgðir af kindakjöti og mjólkurvörum. Í geymslum frystihúsa og annarra fiskvinnslustöðva eru jafnan margra ára matarbirgðir.

Því er oft haldið fram, að okkur sé ekki vandara um en Norðmönnum, sem styrki hvern bónda jafnmikið og við, eða Efnahagsbandalaginu, sem ver miklum meirihluta fjárlaga sinna til stuðnings við landbúnað.

Í rauninni eru þetta víti til að varast. Meðan iðnríki jarðar fylgja offramleiðslustefnu í landbúnaði, er skynsamlegra að vera kaupandi heldur en seljandi landbúnaðarafurða á undirboðsmarkaði alþjóðaviðskiptanna.

Því er oft haldið fram, að hinn hefðbundni landbúnaður afli nokkurs gjaldeyris, sem sé betri en alls enginn gjaldeyrir. Hver á líka að fá gjaldeyri til að borga þær innfluttu afurðir, sem ættu að koma í staðinn, spyrja menn.

Í rauninni er gjaldeyrisdæmið neikvætt. Innflutt aðföng á borð við eldsneyti, vélar, fóðurbæti og áburð eru mun dýrari í gjaldeyri en útfluttar afurðir á borð við ullar- og skinnavöru, mjólkurduft, osta og kjöt.

Því er oft haldið fram, að í hinum hefðbundna landbúnaði felist atvinna, sem sé betri en alls engin atvinna sama fólks. Líta megi á opinberan stuðning við landbúnað sem þátt í baráttunni fyrir fullri atvinnu.

Í rauninni væri ódýrara að borga sauðfjár- og kúabændum fyrir að framleiða ekki í stað þess að framleiða. Þar að auki væri unnt að nota féð, sem nú brennur í hefðbundnum landbúnaði, til að efla aðra atvinnu í sveit og við sjávarsíðu.

Því er oft haldið fram, að niðurgreiðslur séu hafðar fyrir neytendur og einkum þó til að auðvelda stjórnvöldum að ráða við efnahagsmálin. Talsmenn landbúnaðarins hafi ekki beðið um niðurgreiðslur og beri enga ábyrgð á þeim.

Í rauninni gætu stjórnvöld losnað við niðurgreiðslurnar og þar á ofan lækkað vöruverð með því að leyfa innflutning afurða í stað hinna niðurgreiddu. Stjórnvöld geta náð meira en sama árangri án þess að eyða krónu í niðurgreiðslur.

Því er oft haldið fram, að hinn hefðbundni landbúnaður sé nauðsynlegur hornsteinn byggðastefnu. Ekki megi miklu fleiri jarðir fara í eyði, án þess að flótti bresti í heilar sveitir og landauðn verði á stórum svæðum.

Í rauninni er fólksflótti úr sveitum aðeins eðlilegt framhald flóttans. sem einkennt hefur alla þessa öld. Og víglína byggðastefnu liggur ekki um sveitirnar, heldur um sjávarplássin og höfuðborgarsvæðið.

Ef við viljum koma í veg fyrir, að þúsundir manna flytji til útlanda í hinni séríslensku kreppu, verðum við að bæta lífsskilyrði við sjávarsíðuna og á höfuðborgarsvæðinu, þar sem einhver von er á, að varnir komi að gagni.

Jónas Kristjánsson.

DV