Burt með níu Kröflur.

Greinar

Eitt viturlegasta, sem unnt er að gera til eflingar þjóðarhag, er að vinna skipulega að því að láta innflutning landbúnaðarafurða leysa sem mest af hólmi af hinum hefðbundna landbúnaði okkar á kindakjöti og mjólkurvörum.

Landið sjálft mundi rétta við eftir margra alda rányrkju sauðfjárbeitar. Unnt yrði að létta svo á afréttum, að gróðureyðing stöðvaðist og landið fengi að klæðast á nýjan leik, svo sem gerzt hefur í eyðibyggðum Strandasýslu.

Vegna legunnar á jaðri freðmýrabeltisins er Ísland einkar óheppilegt landbúnaðarland. Enda hefur landbúnaður hér ætíð verið rányrkja. Mjög snemma á öldum varð sjávarútvegurinn að taka við sem raunverulegt lifibrauð þjóðarinnar.

Bændur mundu losna úr ánauð búalaga og vinnslustöðva, styrkja og niðurgreiðslna, er miða að því að halda þeim við hokrið sem annars flokks borgurum. Þeir gætu gerzt frjálsir menn í nýjum búgreinum eða öðru arðbæru starfi.

Þrælahald bænda gengur svo langt, að sérstök búalög ákveða, að þeir geti ekki selt jarðir sínar á markaðsvirði, til dæmis undir sumarbústaði, heldur verða þeir að sæta sölu til nágrannabænda á lágu matsverði búnaðarfélaga.

Ríkissjóður skattborgaranna mundi losna við 9-10% allra sinna útgjalda, þegar ekki þarf lengur að greiða beina styrki, útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur til landbúnaðarins. Innflutta varan yrði ódýrari en hin niðurgreidda.

Á næsta ári er ráðgert, að ríkið verji 100 milljónum til beinna landbúnaðarstyrkja, 260 milljónum til útflutningsuppbóta og 840 milljónum til niðurgreiðslna. Samtals eru þessar 1.200 milljónir tæplega 10% fjárlagafrumvarpsins.

Neytendur mundu fá ódýrari matvörur, jafnvel þótt allar niðurgreiðslur féllu niður og ekkert kæmi í staðinn nema frjáls innflutningur. Landbúnaðarvörur eru nefnilega og verða á stöðugu útsöluverði á alþjóðamarkaði.

Nú þurfa neytendur hins vegar að sæta óeðlilega háum framfærslukostnaði út af dýrum afurðum í skjóli innflutningsbanns. Til að bæta gráu ofan á svart er þeim sagt, að niðurgreiðslurnar sáu fyrir þá, en ekki landbúnaðinn!

Efnahagskerfi þjóðarinnar mundi fá nauðsynlega blóðgjöf. Í stað þess að eyða starfskröftum og peningum í hið dulbúna atvinnuleysi hefðbundins landbúnaðar væri unnt að byggja upp atvinnuvegi, sem legðu eitthvað af mörkum.

Á þessu ári er reiknað með, að 900 milljónir króna fari í fjármunamyndun í landbúnaði. Þetta eru 11% allrar íslenzkrar fjárfestingar og fara að mestu í hefðbundinn landbúnað. Sá hluti er ekki til einskis, heldur til stórskaða.

Samanlagt má búast við, að 2.000 milljónir króna sökkvi á næsta ári í fjárfestingum, niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum í hefðbundnum landbúnaði. Þar sem vextir og afborganir Kröflu verða 220 milljónir, eru þetta níu Kröflur.

Óbeint þurfum við að taka lán í erlendum gjaldeyri vegna þessa dulbúna atvinnuleysis. Þar að auki kosta aðföng hins hefðbundna landbúnaðar meira í gjaldeyri en fæst fyrir unnar útflutningsafurðir hans, þar með talin ullar- og skinnavara.

Þess vegna höfum við ráð á ódýrum innflutningi, ekki sízt ef ríkisvaldið liðkaði málið með því að nota sparað niðurgreiðslufé um tíma til að auðvelda bændum umskiptin yfir í að verða fyrsta flokks borgarar.

Jónas Kristjánsson.

DV