Hálf milljón á bónda.

Greinar

Galdurinn við að draga sem örast og með sem minnstum óþægindum úr hefðbundnum landbúnaði er að nota á annan hátt fjármagnið, sem nú brennur þar, – nota það í hvatningu til minni framleiðslu í stað aukinnar framleiðslu.

Reiknað er með, að fjármunamyndun í landbúnaði verði í ár um 11% allrar fjármunamyndunar í landinu. Þetta tiltölulega stöðuga hlutfall nemur um 900 milljónum króna á árinu og sennilega 1300-1400 milljónum á næsta ári.

Ef við gerum ráð fyrir, að tveir þriðju hlutar þessarar fjárfestingar fari í hinn hefðbundna landbúnað sauðfjárræktar og kúabúskapar, mun fjármunabruninn á þessu sviði nema um 900 milljónum króna á næsta ári.

Ekki er nóg með, að peningabruni þessi sé gagnslaus, heldur stuðlar hann að offramleiðslu á kjöti og mjólkurvörum. Hann veldur því, að ríkið verður að koma til skjalanna með niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum.

Innfluttar afurðir af þessu tagi mundu spara ríki og skattgreiðendum allar niðurgreiðslur og þar á ofan lækka verð til neytenda. Niðurgreiðslur eiga á næsta ári að nema 840 milljónum króna og uppbæturnar 260 milljónum.

Í niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum tekur ríkið 1100 milljón króna árlegan kostnað á skattgreiðendur til að greiða tjónið af 900 milljón króna árlegri fjárfestingu í hefðbundnum landbúnaði dilkakjöts og mjólkurafurða.

Samtals verður þetta 2000 milljón króna peningabruni á næsta ári. Þetta er nokkur upphæð, sem sést bezt af, að hún nemur 500.000 krónum á hvern bónda í landinu. Í gömlum krónum eru þetta 50 milljónir á mann.

Ef við ímyndum okkur, að einn góðan veðurdag stöðvaðist öll fjárfesting og framleiðsla í hefðbundnum landbúnaði, mundu sparast 500.000 krónur á ári á hvern bónda og í heildina 2000 milljónir króna á ári.

Í þessum tölum eru ekki ýmsir opinberir styrkir til landbúnaðar. Ekki heldur margvíslegur, óbeinn kostnaður af samgöngum, verðjöfnun rafmagns og síma eða annar byggðastefnukostnaður, sem ekki nýtist sjávarsíðunni.

Arðsemi hins hefðbundna landbúnaðar er svo neikvæð, að þénanlegt væri að greiða mönnum full laun fyrir að hætta fjárfestingu og framleiðslu. Aðgerðaleysið er nefnilega ódýrara í rekstri en peningabruninn.

En svo er líka unnt að nota sparaða féð í annað en aðgerðaleysi. Það er hægt að nota það til að stuðla að framleiðslu, sem leggur eitthvað af mörkum til þjóðarbúsins, og jafnvel til arðbærrar framleiðslu á eigin fótum.

Nefnd hefur verið fiskirækt, loðdýrarækt og ylrækt sem heppilegur arftaki. Slík starfsemi veldur ekki búseturöskun í landinu, svo heitið geti. Og reynslan sýnir, að reksturinn getur verið arðbær, ef vel er á spöðunum haldið.

Svo er ekki endilega neikvætt, að áfram haldi sú búseturöskun, sem einkennt hefur alla tuttugustu öldina. Í þéttbýli sjávarsíðunnar eru mörg atvinnutækifæri, sem má auka, til dæmis með byggingu iðngarða.

Ef ríkið styrkti nýjar búgreinar og léti byggja iðngarða í sjávarplássum – af því fé, sem annars brynni í hefðbundnum landbúnaði, er fundin aðferð til að losna smám saman við mesta böl þjóðarinnar fyrr og síðar.

Jónas Kristjánsson.

DV