Þrjú tilraunaframboð.

Greinar

Liðin er sú tíð, að kosningastjórar flokkanna gátu spáð atkvæðatölum með nokkurri nákvæmni. Kjósendur hafa glatað flokkstryggð og ákveða sig þar á ofan ekki fyrr en á síðustu stundu. Þetta má sjá af skoðanakönnunum.

Um helmingur kjósenda er orðinn þreyttur á stjórnmálaflokkunum og er reiðubúinn að taka þátt í tilraunum á borð við einnar nætur framboð. Þetta veit Vilmundur Gylfason og því hefur fæðst Bandalag jafnaðarmanna.

Einn þjóðkunnur maður getur hæglega náð kjördæmiskosningu í Reykjavík og dregið með sér nokkra uppbótarmenn, ef hann kemur einnig saman lista í Reykjaneskjördæmi og helzt víðar. Að þessu virðist Vilmundur stefna.

Að vísu hefur hann ekki farið vel af stað. Fjölmiðlar hafa leitað með logandi ljósi að þjóðkunnum stuðningsmönnum hans og fáa fundið. Og sum fyrri bardagatröll hans eru ekki með honum í tilraunaframboðinu.

Ennfremur hafa sum mismæli Vilmundar að undanförnu ekki verið til þess fallin að soga að kjósendur í stórum stíl. Þar hefur borið á nöldurstón, svo sem í gagnrýni hans á notkun orðsins “sérframboð”. Það er óþörf viðkvæmni.

Of snemmt er að spá neinu um árangur tilraunaframboðs Vilmundar. Slík ævintýri geta náð árangri einu sinni og jafnvel oft, en þau geta líka fallið um sig sjálf. Spennandi verður að fylgjast með framvindu málsins.

Annað tilraunaframboð, sem verið hefur til umræðu, er kvennaframboð í kjölfar árangursins í byggðakosningunum í Reykjavík og á Akureyri. Slíkt framboð mundi ekki skorta nöfn á lista í neinu kjördæmi.

Kvennaframboð til alþingis er rökrétt framhald kvennaframboðs til bæjarstjórna, hvort sem slík framboð eru yfirleitt tímaskekkja eða ekki. Að minnsta kosti er ekki síður skortur á konum á alþingi en í bæjarstjórnum.

Ef sæmilega er haldið á málum, er hægðarleikur fyrir kvennalista að ná að minnsta kosti einum kjördæmiskosnum þingmanni í Reykjavík og þá um leið nokkrum uppbótarmönnum til viðbótar. Nóg er af lausafylginu þessa dagana.

Þriðja sérframboðið, sem hefur verið til umræðu, er hugsanlegt framboð Gunnars Thoroddsen. Það myndi ekki skorta þekkta frambjóðendur í neinu kjördæmi, né myndarlega hlutdeild í hinum óákveðnu flokksleysingjum.

Sumir hafa meira að segja gamnað sér við þá hugsun, að Sjálfstæðisflokkurinn langsum og Sjálfstæðisflokkurinn þversum geti náð sameiginlegum meirihluta í komandi kosningum. Það væri óneitanlega skrítin uppákoma.

En enginn veit, hvað Gunnar hugsar í þessum efnum. Ef að líkum lætur, lokar hann engum dyrum og metur aðstæður, þegar líður að lokum á framboðsfresti. Altjend verða einhverjir aðrir en hann með taugarnar í ólagi.

Áhuginn á öllum þessum tilraunaframboðum. byggist á , að hálf þjóðin hefur sagt skilið við hina hefðbundnu stjórnmálaflokka, ákveður sig ekki fyrr en á síðustu stundu og er reiðubúin að taka þátt í einnar nætur ævintýrum.

Auðvitað er einnig hugsanlegt, að einhver flokkurinn hali inn lausafylgi út á nýjan þrótt, þótt slíkt lífsmark sé ekki sjáanlegt í bili. Einhver verður sveiflan í næstu kosningum, þótt enginn viti, hver hún verður.

Jónas Kristjánsson

DV