Þrjátíu laus þingsæti?

Greinar

Að þessu sinni verða kosningarnar stjórnmálaflokkunum þungur róður. Samkvæmt síðustu skoðanakönnun DV getur ekki eða vill ekki helmingur kjósenda taka afstöðu til flokkanna. Hefur það hlutfall aldrei verið hærra.

Þetta stafar ekki af, að fólk hafni skoðanakönnunum eða að pólitískan áhuga skorti. Til samanburðar má til dæmis nefna, að einungis fjórðungur kjósenda getur ekki eða vill ekki taka afstöðu til ríkisstjórnarinnar.

Ólíklegt er, að sá helmingur kjósenda, sem ekki hefur gert upp hug sinn til flokkanna, komi til skila í kosningunum í sömu hlutföllum og hinir, sem þegar hafa valið sér flokk. Auk þess er ekki enn vitað um öll sérframboð.

Í upphafi kosningabaráttunnar hafa þingflokkarnir aðeins tök á 30 þingsætum af 60. Er þá ekki gert ráð fyrir sérstökum framboðum Bandalags jafnaðarmanna, kvenna og stjórnarsinnaðra sjálfstæðismanna, sem gætu höggvið skörð í þetta.

Samkvæmt tilgreindri skoðanakönnun eru stjórnarsinnar um fjórðungur Sjálfstæðisflokksins, en stjórnarandstæðingar og óvissir þrír fjórðungar. Þar með er fengin aðferð til að raða 30 þingsætum í fimm staði.

Skoðanakönnunin gefur þá Sjálfstæðisflokknum langsum 12 þingsæti, Sjálfstæðisflokknum þversum 4 þingsæti, Framsóknarflokknum 7 þingsæti, Alþýðubandalaginu 4 þingsæti og Alþýðuflokknum 3 þingsæti.

Gamanið kann enn að kárna við hugsanleg framboð Bandalags jafnaðarmanna og kvennalista. Þau gætu tekið þingsæti, sem könnunin gaf hefðbundnu stjórnmálaflokkunum. Hin 30 þingsæti eru því engan veginn í húsi.

Svo getum við spáð í afganginn af þingsætunum með því að líta á þann fimmtung kjósenda, sem styður ríkisstjórnina, en ekki ákveðinn flokk, og þann tíunda hluta kjósenda, sem styður stjórnarandstöðuna, en ekki ákveðinn flokk.

Ef við gerum ráð fyrir, að hvor hlutinn renni til viðkomandi flokka í sömu hlutföllum og ákveðnu kjósendurnir, vænkast hagur hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka. Við getum þá skipt 17 þingsætum til viðbótar hinum 30.

Sjálfstæðisflokkurinn langsum mundi þá fá 17 þingsæti, Sjálfstæðisflokkurinn þversum 6, Framsóknarflokkurinn 12, Alþýðubandalagið 8 og Alþýðuflokkurinn 4. Er þá enn ekki tekið tillit til annarra framboða.

Eftir eru þá enn 13 þingsæti, sem hefðbundnu flokkarnir yrðu að bítast um, hugsanlega í samkeppni við Bandalag jafnaðarmanna, kvennaframboð og sérstakt framboð Sjálfstæðisflokksins þversum, sem gæti reynzt drjúgt á þessum markaði.

Niðurstaða þessara hugleiðinga er, að nánast útilokað sé að spá um úrslit komandi alþingiskosninga. Traustafylgi hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka dugir þeim tæpast til að ná samanlagt helmingi þingsætanna.

Um afganginn verða flokkarnir að bítast, bæði innbyrðis og í samkeppni við tilraunaframboð, sem gætu orðið af fleiru en einu tagi. Og lausafylgið mun raðast mjög misjafnlega niður á listana, sem í boði verða.

Atvinna margra stjórnmálamanna er í bráðri hættu. Sama er að segja um valdastöðu einstakra þingflokka. Um áratuga skeið hefur barátta fyrir alþingiskosningar ekki hafizt í eins mikilli óvissu og eimmitt nú.

Jónas Kristjánsson

DV