Óvænt úrslit.

Greinar

Hin óvænta niðurstaða prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hlýtur að draga dilk á eftir sér. Sjöunda sætið er engan veginn frambærileg útkoma fyrir formann flokksins og leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Geir Hallgrímsson.

Ekki er hægt að sjá, að flokkadrættir hafi ráðið miklu í þessari niðurstöðu, því að tíu efstu menn náðu bindandi kjöri, rúmlega helmingi greiddra atkvæða. Svo mikil samstaða um efstu menn er sjaldgæf í prófkjöri.

Úrslitin eru svo eindregin, að kjörnefnd er skylt að gera tillögu um tíu efstu menn framboðslistans í Reykjavík í sömu röð og tölurnar sýna. Samkvæmt því yrði Geir í baráttusætinu, næst á eftir Pétri Sigurðssyni.

Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins getur breytt tillögu kjörnefndar eða hafnað henni. Því er hugsanlegt, að upp komi hugmyndir um að lagfæra stöðu formannsins á listanum, ef menn telja slíkt ekki bara vera salt í sárin.

Albert Guðmundsson varð efstur í prófkjörinu með 6027 atkvæði af 8155 mögulegum. Þessi útkoma hlýtur að teljast mikill sigur Alberts, sem greinilega er ekki eins umdeildur í flokknum og hann hefur oft áður verið.

Næst á eftir Albert fylgja varaformaður flokksins, Friðrik Sophusson, með 5670 atkvæði, og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Birgir Ísleifur Gunnarsson með 5608 atkvæði. Þeir fá góða traustsyfirlýsingu.

Í fjórða og fimmta sæti komu svo Ellert B. Schram og Ragnhildur Helgadóttir með glæsibrag á ný inn í stjórnmálin eftir nokkurra ára hlé. Ellert hlaut 5386 atkvæði og Ragnhildur 5137, hvort tveggja öflugt fylgi.

Sinn hvorum megin við sjöunda sæti Geirs Hallgrímssonar urðu svo Pétur Sigurðsson í sjötta sæti með 4698 atkvæði og Guðmundur H. Garðarsson í áttunda með 4199 atkvæði. Hvort tveggja er mjög frambærilegt í samanburði við 4414 atkvæði Geirs.

Síðastir með bindandi kosningu urðu tveir af ungu mönnunum. Jón Magnússon hafði vinninginn með 4173 atkvæði, en Geir H. Haarde fékk 4107 atkvæði. Aðrir frambjóðendur í prófkjörinu hlutu innan við 3000 atkvæði.

Allir þessir tíu menn, sem hér hafa verið nafngreindir, hlutu yfir helming atkvæða og þar með almennt traust stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Í þessum hópi er Geir Hallgrímsson, svo að ósigur hans er alls ekki alger.

Of snemmt er að gera því skóna, að úrslitin muni leiða til, að Geir leggi niður formennsku í flokknum. Í prófkjörinu var verið að velja þingmannsefni, en ekki flokksforustu. En niðurstaðan veikir stöðu hans.

Þátttaka í prófkjörinu reyndist verða eftir vonum og gefur Sjálfstæðisflokknum tilefni til bjartsýni á fylgi í alþingiskosningum, þveröfugt við Alþýðuflokkinn, sem náði ekki einu sinni 2000 manns í prófkjöri um helgina.

Þannig voru bæði skin og skúrir í prófkjöri sjálfstæðisflokksins. Til að byrja með munu skúrirnar vekja mesta athygli, meðan flokksforustan í Reykjavík er að átta sig á, hvernig beri að bregðast við breyttum aðstæðum.

Til langs tíma verður þó meira skin af góðri þátttöku kjósenda og glæsilegri útkomu ýmissa frambjóðenda, sem greinilega munu láta að sér kveða á næsta kjörtímabili alþingis, næsta tímabili stjórnmálasögunnar.

Jónas Kristjánsson

DV