Morkinn og maðkétinn fiskur.

Greinar

Þegar fiskiskip selja ísfisk í erlendum höfnum, fer fiskurinn yfirleitt á markað, þar sem hann er seldur hæstbjóðanda. Skipverjar kappkosta fiskgæðin til að ná góðri sölu, helzt metsölu, því að verðið er afar misjafnt.

Þetta nána samhengi verðs og gæða er ekki til hér heima, hvorki þegar afla er landað, né þegar hann er metinn til útflutnings. Dæmigert er, að talað er um að “afsetja” fisk, alveg eins og sala sé sjálfvirk athöfn.

Fiskverð upp úr sjó er framreikningur á eldra samkomulagi í nefnd, þar sem oddamaður ríkisins ræður úrslitum. Þetta fiskverð endurspeglar ekki markaðinn, heldur pólitískt mat á þægilegri hagræðingu vandamála.

Til þess að hlífa mönnum við afleiðingum af vondu hráefni er hafður of lítill verðmunur á góðum og lélegum verðflokkum. Og til að varðveita netaveiði er hafður of lítill verðmunur á línufiski og netafiski.

Þessi tvö dæmi sýna kerfi, sem óhjákvæmilega hlýtur að deyfa tilfinningu manna fyrir fiskgæðum og leiða til ástandsins, sem verið hefur í fréttum: Hálfu og heilu skipsfarmarnir eru gerðir afturreka frá markaðslöndunum.

Netabátar eru nánast hættir að koma að landi með einnar nætur fisk. Fiskurinn er tveggja nátta og jafnvel eldri, því að helgarfrí eru komin til sögunnar. Þar að auki er fiskurinn dreginn blóðsprengdur af miklu dýpi.

Skuttogararnir eru nánast hættir að koma að landi einu sinni í viku. Nýjung ískassanna hefur verið misnotuð til að halda togurunum úti í tveggja vikna veiðiferðum. Þar að auki er varpan oft dregin allt of lengi.

Þessi misþyrming á eðlisgóðu hráefni heldur svo áfram í fiskvinnslustöðvunum. Þar liggur fiskurinn í marga daga til viðbótar, sumpart vegna þess að menn hafa ekki lengur efni á að láta vinna nætur- og helgidagavinnu.

Ýmis atriði af þessu tagi mætti bæta með nýjum reglugerðum og matsmannaherjum hins opinbera. Til dæmis má banna lengri en einnar viku veiðiferðir togara og banna, nema veður hamli, að net liggi meira en nótt í sjó.

Einnig mætti afnema ýmis vinnuverndarákvæði, svo sem reglur um helgarfrí. Í stað þess má safna fríum saman í stærri pakka og viðurkenna, að sjávarútvegur og fiskvinnsla eru í eðli sínu skorpugreinar, en ekki kontórismi.

Ennfremur mætti banna fiskvinnslustöðvunum að taka við meiri fiski í einu en þær ráða við að vinna á hverjum tilskildum hámarkstíma. Og loks mætti ráða hóp opinberra embættismanna til að hafa eftirlit með öllum reglugerðunum.

Slíkar tilraunir til lausnar eru betri en ekki neinar. Núverandi ástand er óþolandi og hlýtur fyrr eða síðar að leiða til hruns á mörkuðum. Aðrar fiskveiðiþjóðir eru að bæta gæðin, meðan þeim hrakar hjá okkur.

Mun betra væri þó að nota verðlagningu til að tryggja gott hráefni inn í fiskvinnslustöðvarnar og góðar afurðir út úr þeim. Verðlagningin á að meta fiskgæði og markaðsgildi, en ekki byggðastefnu og aðra pólitík.

Beztur væri frjáls markaður eins og í erlendum fiskihöfnum, svo og frelsi til ísfisksölu í útlöndum. Þar með væri unnt að koma á margfölduðum verðmun á góðum og vondum fiski og fá samanburð og aðhald af erlendu markaðsverði.

Jónas Kristjánsson.

DV