Höftin magna kreppuna.

Greinar

Þegar erlendur gjaldeyrir er seldur á útsöluprísum, er engin furða, þótt innflutningur sé mikill og ekki eingöngu á þörfum hlutum. Við höfum búið við magnaða slíka útsölu frá miðju síðasta ári og súpum nú af því seyðið.

Reynslan og hagfræðin sýna, að bezta ráðið gegn óhæfilega miklum innflutningi er að hafa rétt gengi á gjaldmiðlinum. Á íslenzku þýðir það, að lækka beri gengi krónunnar, unz innflutningur og útflutningur standast á.

Hið rétta gengi krónunnar finnst bezt með því að gefa það frjálst, láta krónuna skrá sig sjálfa. Hún yrði þá ætíð á raunhæfu markaðsverði og þannig sambærileg við annan gjaldmiðil, sem mælir verð á innfluttum vörum.

Þeir, sem skilja ekki samkengi gengis og innflutningsmagns, hafa tilhneigingu til að biðja um innflutningshöft, ekki sízt ef þeir eru veikir fyrir miðstýringu. Þetta eru nú freistingar Framsóknarflokks og Alþýðubandalags.

Hvorugt vekur furðu. Alþýðubandalagið á rætur í hugmyndafræði, sem er andvíg opnu hagkerfi. Og Framsóknarflokkurinn er hinn dæmigerði kreppuflokkur, sem kann bezt við sig í skömmtunarnefndum og fjárhagsráðum.

Haftastefnumenn flokkanna tveggja eru ekki einir í heiminum. Um allan heim er frjáls verzlun á undanhaldi um þessar mundir. Hún beið ósigur á dögunum í GATT, alþjóðlegum samtökum um tolla og viðskipti.

Á fundi samtakanna í Genf náðist ekki samkomulag um varnir gegn sífellt þrálátari haftastefnu. Hægfara stefna Vesturlönd í viðskiptastríð, þar sem allir eru gegn öllum og þar sem allir bíða ósigur að lokum.

Höft eru nefnilega ekki einstefnugata. Sú þjóð, sem mætir höftum gegn sínum útflutningi, hefur tilhneigingu til að bæta sér upp ójöfnuðinn í viðskiptum, með höftum á innflutningi frá þjóðinni, sem höftin setti.

Haftastefnan magnaði heimskreppuna milli styrjaldaráranna. Allir vita, að hún er að magna kreppuna um þessar mundir. Samt standast stjórnmálamenn og embættismenn ekki þrýsting hagsmunaaðila, sem heimta vernd.

Í hvert sinn sem Mitterand Frakklandsforseti finnur ný innflutningshöft, til verndar atvinnutækifæri í úreltri grein, er hann um leið að eyða atvinnutækifæri í samkeppnishæfri grein, sem gæti selt á erlendum markaði.

Ein afleiðingin er, að neytendur um allan heim sitja uppi með dýrari vörur en ella. Þar með eflist verðbólgan, sem íslenzkir stjórnmálamenn halda að þeir séu að tempra með því að neita að skrá krónugengið rétt.

Jafnvel í Bandaríkjunum gengur haftadraugur kreppuáranna ljósum logum. Meðal þess, sem þar er heimtað, er, að innflutningur frá hverju landi sé ekki meiri en útflutningur þangað. Slíkt væri Íslandi gífurlegt áfall.

Ísland er í hópi þeirra ríkja, sem mest eru háð utanríkisviðskiptum. Þau eru 40-50% þjóðarframleiðslunnar. Slík ríki verða yfirleitt fyrst til að súpa seyðið af alþjóðlegri haftastefnu.

Við eigum því ekki að biðja um höft í stjórnmálaályktunum, heldur skrá gengi krónunnar rétt og taka frumkvæði í alþjóðlegu samstarfi um eflingu fríverzlunar, eins og við gerðum í hafréttarmálunum á sínum tíma.

Jónas Kristjánsson.

DV