Rýnt í moldviðrið.

Greinar

Deilunni um álsamningana fylgir svo þétt moldviðri, að fólk á erfitt með að greina raunveruleikann í dimmunni. Stjórnmálamennirnir stunda ekki hefðbundið þras, heldur æpa beinlínis hver á annan, sumpart ókvæðisorðum.

Dæmigert fyrir vitleysuna er Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, sem falsaði setningu úr leiðara DV, setti fölsunina í gæsalappir og gagnrýndi síðan. En slík vinnubrögð eru fremur dæmi um óðagot en beina fölsunaráráttu.

Alvarlegri er rangtúlkun Hjörleifs Guttormssonar orkuráðherra og Þjóðviljans á tillögu Guðmundar G. Þórarinssonar eins og hún fjalli um 20% hækkun orkuverðs um aldur og ævi, en ekki aðeins til 1. apríl 1983.

Ekki er heldur sjáanlegt neitt samhengi milli þessarar 20% bráðabirgðahækkunar í nokkra mánuði og kröfu Svisslendinga um lækkun kaupskyldu á orku úr 85% í 50%, þótt Hjörleifur og Þjóðviljinn reyni að láta líta svo út.

Kjarni málsins er, að Hjörleifur er ekki eins góður samningamaður og hann er góður skýrsluöflunarmaður. Hami hefur engum árangri náð í álviðræðunum, annað hvort af því að hann getur ekki samið eða vill ekki semja.

Það breytir því ekki, að sjálfsagt, eðlilegt og lærdómsríkt var að fá endurskoðunarstofu Coopers & Lybrand og fleiri aðila til að fara ofan í saumana á viðskiptum Alusuisse og Ísal, það er viðskiptum Alusuisse við sjálft sig.

Morgunblaðið hefur verið sínöldrandi út af þessari endurskoðun. Sú gremja hefur endurspeglazt í þingflokki Sjálfstæðismanna og víðar. Hún hefur haft þau óbeinu áhrif að stappa stálinu í viðsemjendur Íslendinga.

Vel hefur verið nýtt féð, sem farið hefur í vinnu endurskoðendanna. Úttektin hefur leitt til aukinnar þekkingar Íslendinga á starfsháttum fjölþjóðafyrirtækja, sem lifa einkum á að færa peninga milli landa.

Eftir skýrslur Coopers & Lybrand eru Íslendingar mun betur í stakk búnir en áður að ræða málin við forstjóra Alusuisse og aðra erlenda aðila, sem vilja semja við okkur um orkunýtingu til álvinnslu og annarra nota.

Hitt var svo alveg óþarfi hjá Hjörleifi að fara upp á háa sé, í hvert skipti sem hann opnaði umslögin frá Coopers & Lybrand. Opinberlega kallar maður ekki viðsemjendur sína þjófa og bófa, þótt maður telji, að svo sé.

Hinar sífelldu árásir Hjörleifs á Alusuisse hafa smám saman vakið grun um, að ekki sé heldur allt með felldu í hans herbúðum, að fremur sé verið að stunda pólitískt keiluspil en að gæta til hlítar íslenzkra hagsmuna.

Fyrst og fremst þurfum við að koma orkuverði til Ísals úr 6,45 verðeiningum í 19, sem er samkeppnishæft verð, miðað við það sem tíðkast í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Og viðræður um verðið eru ekki hafnar enn!

Fyrst þarf til þrautar að reyna að fá Svisslendinga með góðu til að semja um þetta, svo að samstarfið við þá og aðra geti framvegis verið með þolanlegum hætti. Tillaga Guðmundar var aðferð til að finna vilja þeirra.

Að því búnu og árangurslausu koma einhliða aðgerðir sterklega til greina, en ekki fyrr. En Hjörleifur, sem ýmislegt gott hefur gert til undirbúnings málsins, er ekki rétti maðurinn til að finna, hvort unnt er að semja.

Jónas Kristjánsson.

DV