Fiskað í gruggugu vatni

Greinar

Kirkjumenn á Vesturlöndum óttast vaxandi sambandsleysi við unga fólkið. Sumir þeirra leita sambands eftir leiðum, sem verða ekki kristni út af fyrir sig. Einu sinni voru reyndar poppaðar messur. Nú er það poppaður friður.

Hér á landi hefur kirkjan fetað með gát þessa slóð. Í nágrannalöndum austan hafs og vestan hefur meira borið á, að þessar sálnaveiðar hafi verið stundaðar í gruggugu vatni. Slík örvænting væri ekki æskileg hér á landi.

Þegar hollenzkir og aðrir kirkjuhöfðingjar eru farnir að þramma í mótmælagöngum gegn meðaldrægum kjarnorkuflaugum í Vestur-Evrópu, er kominn tími til að staldra við og reyna að meta, hver verði friðaráhrifin af öllu þessu.

Nánast aldrei er mótmælt, þegar Sovétríkin renna sér á nýtt skrið í kjarnorkukapphlaupinu, til dæmis þegar þau hófu framleiðslu á eitt þúsund meðaldrægum SS-20 kjarnorkuoddum. En allt varð vitlaust, þegar svara átti með Pershing 2.

Ráðamenn í Kreml líta á vaxandi mátt friðarstefnu á Vesturlöndum sem skref í átt til einhliða afvopnunar Vestur-Evrópu. Þeir sjálfir geti beðið rólegir og þurfi ekki að undirrita neitt um gagnvæma afvopnun.

Þannig dregur friðarhreyfing Vesturlanda úr friðarhorfum. Hún hefur aðeins tilætluð áhrif á fremur friðsama, vestræna ráðamenn, sem hafa áhyggjur af atkvæðunum. En hún hefur um leið öfug áhrif á viðsemjendurna austan tjalds.

Það er nefnilega ekki nóg að vilja frið og reyna að sýna það í verki. Ekki er sama, hvernig er á friðarstefnunni haldið. Finna verður leiðir til að draga úr kjarnorkuógninni án þess að draga úr jafnvægi í heiminum.

Á síðasta áratug lærðu Bandaríkjamen af stríðinu í Víetnam um takmörk heimsvaldstefnu og drógu saman seglin. Og vígbúðanarstefna Reagans verður jafnskammlíf og embættistíð hans. Til langs tíma litið ógna Bandaríkin ekki friðnum.

Á þessum sama áratug fóru Sovétríkin langt fram úr Bandaríkjunum í kjarnorkukapphlaupinu. Og verra var, að þau lögðu áherzlu á viðkvæma og hittna odda, sem hæfa betur til fyrsta höggs en til andsvars við því.

Bandaríkin hafa hins vegar leitað skjóls í öryggi flöktandi kafbáta með tiltölulega ónákvæma odda, sem hæfa betur til andsvars en fyrsta höggs. Þá stefnu hefur bandaríska þingið óbeint staðfest með því að neita Reagan um MX odda á landi.

Út af fyrir sig geta Bandaríkjamenn tekið rólega kapphlaupi Sovétmanna. Ameríska kjarnorkuvirkið er nógu öflugt til að hræða Kremleverja frá árás. Þess vegna eiga Bandaríkjamenn að geta rætt gagnvkæma frystingu kjarnorkuvígbúnaðar.

Vandi Vestur-Evrópu er annar og meir, síðan Sovétríkin beindu hinum meðaldrægu SS-20 kjarnaoddum í þá átt. Spruningin er, hvort Bandaríkjamenn fórni sér fyrir Vestur-Evrópu, þegar til kastanna getur komið.

Vestur-Evrópa er þegar örlítið byrjuð að Póllandíserast, svo sem í ljós kemur í deilum hennar við Bandaríkin um viðskiptastefnu gagnvart austri. Og tök Sovétríkjanna munu áfram eflast, meðan Vestur-Evrópa er hernaðarlea máttlítil.

Ómeðvitaðar framvarðsveitir Póllandíseringar Vestur-Evrópu eru friðargöngur, þar sem fyrst þramma krikjuhöfðingjar, er reyna að fylla tómar kirkjur með því að poppa friðinn, – með því að fiska í gruggu vatni.Jónas Kristjánsson

DV