Sláturhús eitt, tvö og þrjú.

Greinar

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti var nýlega á ferð um Rómönsku Ameríku og átti meðal annars vinsamlegar viðræður við Efraín Ríos Montt, forseta Guatemala, einn stórkarlalegasta fjöldamorðingja, sem nú er uppi.

Þeir Afríkumenn Bokassa og Amin voru smámunir í samanburði við hryðjuverkastjórnina í Guatemala, sem stundar skipulega útrýmingarherferð gegn indíánum, hinum upprunalegu íbúum landsins. Herferðin er rekin af miklum krafti.

Hersveitir Guatemala koma vel vopnaðar, oft í þyrlum, umkringja þorp, brytja niður vopnlausa íbúana og leggja síðan eld í húsin. Slíkt þykir hetjuskapur eða “macho” hjá herjum flestra ríkja Rómönsku Ameríku.

Árum saman neitaði Bandaríkjastjórn hryðjuverkastjórninni í Guatemala um hernaðaraðstoð. Þá var réttilega talið, að Bandaríkin mættu ekki óhreinka sig á samstarfi við hálfgeggjaða herforingja á hægri kanti.

Þetta breyttist við valdatöku Reagans. Þá var aftur tekin upp hin gamla stefna að styðja alla, sem segjast vera andkommúnistar, jafnvel þótt þeir væru verri en Amin og Bokassa. Siðleg reisn Bandaríkjanna hrundi á einni nóttu.

Montt er ekki eini vinur Reagans í Rómönsku Ameríku. Í ár hefur Bandaríkjastjórn veitt 311 milljón dollurum í hernaðar- og efnahagsaðstoð við hryðjuverkastjórnina í El Salvador, sem hefur látið slátra 25.000- 30.000 borgurum.

Mannréttindahatarinn frú Kirkpatrick, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur sótt heim aðmírálinn Pinochet, sem hefur haldið uppi ógnarstjórn í Chile í tæpan áratug og látið myrða um 30.000 manns.

Um þessar mundir fer ástandið í Chile heldur versnandi með fjöldahandtökum, pyndingum, nauðgunum og mannshvörfum. Pinochet er orðinn svo truflaður, að hann er kominn með kaþólsku kirkjuna á heilann, ofan á kommúnismann.

Þar að auki hefur hann lagt efnahag landsins í rúst, svo sem algengast er hjá herforingjum þeim, er komast til valda í Rómönsku Ameríku. Við beitingu hagfræðikenninga Milton Friedman hefur atvinnuleysi rokið upp í 35%.

Hliðstætt ástand í mannréttindum og efnahag er í grannríkinu Argentínu, þar sem ráða herforingjar, er frú Kirkpatrick sýndi einnig þá vinsemd að sækja heim. Þar hafa 7.000-15.000 manns hreinlega horfið, þar á meðal kornabörn.

Argentínski herinn lærði á sínum tíma hryðjuverkastefnuna af nasistum, magnaði hana og flutti til annarra herja Rómönsku Ameríku. Þessir herir eru gagnslausir í stríði, en mjög öflugir í slátrun innlendra borgara.

Ein illskásta stjórnin í þessum heimshluta er í Nicaragua, þótt hún þætti ekki til fyrirmyndar á Vesturlöndum. Gegn henni hefur leyniþjónusta Bandaríkjanna eflt sveitir Somozista, gamalla hryðjuverkamanna úr þjóðvarðliðinu.

Allt frá Monroe-kenningu hefur verið litið á Rómönsku Ameríku sem eins konar bakgarð Bandaríkjanna. Vegna afskipta þeirra í álfunni verður ekki hjá því komist að kenna þeim að hluta um hið hroðalega ástand.

Það var farið að lagast, einkum á valdatíma Carters Bandaríkjaforseta. Nú hefur það snöggversnað svo, að sannkristnum mönnum ber að biðja fyrir því, að kjörtímabil Reagans verði bara þetta eina, sem nú er hálfnað.

Jónas Kristjánsson

DV