KGB tekur völdin.

Greinar

Ekki er nóg með, að rótgróinn yfirmaður sovézku leyniþjónustunnar er orðinn framkvæmdastjóri kommúnistaflokksins og æðsti valdamaður austurblakkarinnar, heldur er nú eftirmaður hans í leyniþjónustunni orðinn innanríkisráðherra.

KGB-maðurinn Andropov hafði ekki lengi setið í veldisstóli Brezhnevs, er hann leiddi KGB-manninn Fedorsjuk til sætis í hið valdamikla ráðherraembætti, sem meðal annars felur í sér að halda uppi aga hjá íbúum Sovétríkjanna.

Svo er nú komið, að greiðasta leiðin til æðstu valda í Sovétríkjunum liggur um embætti yfirmanns leyniþjónustunnar, KGB. Það segir nokkra sögu um ástand mála þar eystra og auðveldar spádóma um frekari þróun þeirra.

Í Póllandi var það herinn, sem hljóp í skarðið, þegar virðing kommúnistaflokksins var að engu orðin. Í Sovétríkjunum er leyniþjónustan byrjuð að gegna sama hlutverki. Völdin hafa að hluta færst frá flokki til leyniþjónustu.

Andropov hefur langa reynslu í að halda uppi aga. Hann gekk í flokkinn í þann mund, er samyrkjustefnan olli dauða fjórtán milljóna sveitamanna. Hann kleif svo metorðastigann á hinum magnaða hryðjuverkatíma Stalíns.

Prófraunin mikla var sendiherrastaðan í Ungverjalandi, þegar hann barði niður í blóðbaði uppreisnina árið 1956. Eftir það var hann um skeið ekki mjög áberandi, unz hann var gerður að yfirmanni leyniþjónustunnar.

Í því embætti hefur hann hert tökin frá því, sem var á frjálslyndara skeiði Khrústsjovs. Hann hefur skipulega barið niður allt andóf í landinu, þar á meðal tilraunir til að krefjast trúnaðar Kremlverja við Helsinki-samkomulagið.

Undir handarjaðri Andropovs var farið að beita nauðungarlyfjum á geðveikrahælum til að halda andófsmönnum í skefjum. Undir handarjaðri hans var allri manngæzku hafnað, þegar fólk bað um að fá að flytjast úr landi til ættingja.

Leyniþjónusta Andropovs hefur jafnframt leikið hlutverk stóra bróður meðal slíkra stofnana í Austur-Evrópu, þar á meðal Búlgaríu, þar sem leyniþjónustan er grunuð um að hafa átt þátt í tilraun til morðs á Jóhannesi Páli páfa.

Óskhyggjumenn geta gamnað sér við hugmyndir um, að Andropov og félagar hans á borð við Fedorsjuk muni létta á þrælahaldi innanlands og bæta sambúð við Vesturlönd. Sú von byggist þá eingöngu á, að hann sé greindari en Brezhnev.

Engin leið er að halda fram, að Andropov sé frjálslyndur mannvinur, þótt óskhyggjumenn hafi þrifið dauðahaldi í þær upplýsingar, að hann kunni ensku og viti margt um Vesturlönd. Hann hefur að baki áratuga blóðferil.

Hugsanlegt er, að hann reyni að dreifa athygli þræla Sovétríkjanna frá miklu og vaxandi efnahagsöngþveiti heima fyrir með ævintýramennsku á alþjóðavettvangi í stíl við dæmin frá Kúbu, Angóla, Eþiópíu og Afganistan.

Ennfremur er mögulegt, að nú verði þekking KGB notuð til að brjóta á bak aftur neðanjarðarhagkerfið í landinu, sem heldur hinu opinbera gangandi. Þar með gæti hann gert illt efnahagsástand enn verra og magnað þörfina á athyglisdreifingu.

En svo kann líka að fara, að hann beiti ungverskum frjálslyndisskrefum í innanlandsmálum og stefni að traustari sambúð við vestrið. Ef hann sýnir viðleitni í slíka átt, til dæmis í samdrætti vígbúnaðar, er rétt að reyna að hjálpa til.

Jónas Kristjánsson

DV