0229 Sjónvarpstexti II

0229

Blaðamennska
Sjónvarpstexti II
Brad Kalbfeld:
Assoicated Press Broadcast News Handbook, 2001

Áhorf hefur klofnað í Bandaríkjunum, markaðurinn hefur brotnað upp. Venjulegt heimili hefur 60 sjónvarpsrásir og notar tólf af þeim. Vandinn er sá, að hver áhorfandi fyrir sig notar ekki sömu tólf rásirnar.

Stafrænt sjónvarp er bylting. Nú er hægt að senda hljóð og mynd stafrænt eins og texta. Allar tegundir miðla eru orðnar gagnvirkar. Línurnar milli sjónvarps, útvarps og prents hafa dofnað á internetinu, einkum á veraldarvefnum.

Búa þarf til söguna fyrir alls konar form til að gefa notendum kost á vali. Sumpart er netið eins og prent, notar texta. Sumpart er það eins og útvarp, notar rauntíma. Sumpart er það eins og sjónvarp, notar myndskeið.

Blaðamaður nútímans þarf að hafa víða sýn. Til viðbótar er komin lófatölva og farsími með þráðlausri tengingu við netið. Þegar bandvídd þessara miðla vex, verður þar meiri krafa um hljóð og myndskeið.

Internetið er afturhvarf til prentmiðlunar, þar sem notkunin er ekki línulaga. Blaðamenn útvarps og sjónvarps eru þjálfaðir í línulaga miðlun, svo að aukast munu áhrif frá blaðamönnum, sem eru vanir notkun fram og aftur, út og suður.

Næstum allar heimaslóðir á vefnum bjóða leit og sumar bjóða leit í safni. Til að gera þá leit markvissa, þarf að skrá hljóðbita á skynsamlegan hátt. Safn og leit eru aðferðir við að halda tryggð fólks við fjölmiðla, sem bjóða slíkt.

Með veraldarvefnum er allt orðið ódýrt. Allir geta sett upp heimaslóð og þurfa ekki að segja til sín. Þeir geta þóst vera aðrir en þeir eru. Þeir geta klippt hugverk annarra og límt á sína slóð. Þeir geta þóst vera blaðamenn.

Stöðvar eru farnar að átta sig á þessu og verja hugverkarétt sinn. Blaðamenn þurfa að gæta sín, virða hugverk annarra. Sanngjörn notkun á efni annarra nær ekki svo langt, að nota megi efni annarra til að keppa við það efni.

Vinna blaðamannsins felst í að fylgjast með atburðum og segja fólki frá þeim. Margar skoðanir eru í þjóðfélaginu. Þess vegna þarf blaðamaðurinn að kunna að greina á milli staðreynda og skoðana. Hlutlægni er einkunnarorð blaðamannsins.

Associated Press var stofnað 1848, þegar blöðin voru flest pólitísk. Til þess að geta þjónað öllum þessum blöðum varð AP að vera hlutlæg fréttastofa, halda skoðunum frá fréttum.

Að vísu er sagt, að erfitt sé að vera fullkomlega hlutlægur. Blaðamenn ákveða, hvaða staðreyndir eigi að vera í sögum þeirra. Þeir hafa gildismat um, hvað sé fréttnæmt og hvað ekki. Þess vegna trufla skoðanir þeirra hlutlægni þeirra.

Blaðamaður er hlutdrægur, ef hann tekur með í söguna staðreyndir, sem styðja ákveðið sjónarmið og hafnar öðrum staðreyndum, sem styðja samkeppnissjónarmið. Blaðamaðurinn þarf að vera óhlutdrægur og nákvæmur.

Blaðamaður forðast hlutdrægni með því að hafa nákvæmni að leiðarljósi. Það þýðir, að allar fullyrðingar sögunnar þurfa að vera réttar. En það er ekki nóg. Almenn áhrif vals og röðunar staðreynda verða að endurspegla það, sem blaðamaðurinn sá.

Þetta er hægara sagt en gert. Blaðamenn hafa 30-35 sekúndur til umráða í útvarpi og 60-90 sekúndur í sjónvarpi. Svo takmarkaður er tíminn, að blaðamenn freistast til eins konar hraðritunar, segja frá túlkun sögunnar, ekki staðreyndum hennar.

Þar byrjar vandinn. Við eigum að segja: “Þar voru 20 vindstig og þriggja sentimetra rigning.” En segjum: “Það var stormur.” Það getur verið rétt túlkun, en er það ekki endilega. Legðu ekki í vana þinn að túlka sögu á þann hátt.

Þitt hlutverk er að raða upp staðreyndum, hlutverk notandans er að túlka þær. Ef hvellur heyrðist, þegar páfinn fór um mannþröngina, geturðu sagt, að hvellur hafi heyrst, ekki að hleypt hafi verið af skoti eða ráðist hafi verið á páfann.

Þér ber að trúa því einu, sem þú sérð sjálfur og ekki að hlaupa að neinni túlkun eða niðurstöðu. Efahyggja er nauðsynleg hverjum blaðamanni. Að baki sérhverrar yfirlýsingar embættismanns er ósagður hlutur, sem blaðamaður þarf að skilja.

Henry Kissinger: “Embættismenn leita að blaðamanni til að koma á framfæri málum sínum, til að jafna um einhvern eða til að stöðva ferli, sem er þeim er andsnúið. Hver sem er tilgangur embættismannsins, þá getur hann ekki verið óhlutdrægur.”

Efahyggja er góð, en tortryggni er skaðleg. Efahyggjumaðurinn efast um allt, en hinn tortryggni telur alla hafa sjálfselsku að tilgangi. Blaðamaður er kominn á hálan ís, þegar eðlileg efahyggja hefur magnast upp í sjúklega tortryggni.

Sjá nánar: 
Brad Kalbfeld:
Assoicated Press Broadcast News Handbook, 2001