Ferskfiskur og framtíðin.

Greinar

Fiskur er matur og sem slíkur með þeim ósköpum gerður, að hann batnar ekki og verður ekki verðmeiri, hversu mjög sem hamazt er á honum í fiskvinnslustöðvum. Hann er beztur og dýrastur í fersku ástandi beint upp úr sjó.

Vinnsla sjávarafurða er því ekki iðnaður í almennum skilningi þess orðs. Þar er ekki verið að breyta hráefni í fullunna vöru, heldur er verið að bjarga mat undan skemmdum. Varan er varðveitt, en ekki verðaukin.

Á erlendum markaði fæst hæst verð fyrir ferskan fisk, sem ekki er orðinn að freðfiski, saltfiski, skreið, dósamat, mjöli eða lýsi. Menn þurfa ekki að vera undrandi á þessu, því að hér heima vilja neytendur helzt kaupa ferskan fisk.

Aðalvandinn við sölu á ferskum fiski á alþjóðlegum markaði er, að fiskurinn er oft ekki lengur sómasamlega ferskur, þegar hann er borinn á borð neytenda. Hann er síðri en freðfiskur, sem hefur verið þíddur rétt fyrir neyzlu.

Þrátt fyrir þennan vanda hefur oft reynzt hagkvæmast fyrir veiðiskipin að sigla með aflann ferskan, varðveittan í ís. Þrátt fyrir langa siglingu, olíukostnað og veiðitap hafa slíkar sölur gefið meiri arð en aðrar.

Ekki er óalgengt, að á erlendum ferskfiskmarkaði fáist þrisvar sinnum meira verð fyrir aflann en á innlendum fiskvinnslumarkaði, þrefalt hærra en úrskurðað er í hinni virðulegu Yfirnefnd verðlagsráðs sjávarútvegsins.

Árum saman hafa menn leitað leiða til að nýta þennan mikla verðmun, minnka fyrirhöfnina við hann og jafnvel að auka verðmuninn. Þessar tilraunir eru margs konar og miða flestar að skilnaði veiða og flutnings á afla.

Fiskiskipin eru sérhæfð til veiða, en ekki siglinga. Með aukinni verkaskiptingu milli þeirra og flutningatækja, það er kaupskipa og vöruflugvéla, ætti að vera unnt að minnka tilkostnaðinn við hinn verðmæta ferskfiskmarkað.

Eimskipafélagið hefur gert ýmsar tilraunir með flutninga í gámum. Þær benda til, að heppilegt sé að flytja ferskfisk í venjulegum gámum á veturna, í frystigámum á sumrin og í sérstökum einangrunargámum þess á milli.

Jónas Elíasson prófessor og hafnarstjórnarmaður hefur hér í blaðinu bent á Grandaskála sem rétta staðinn til umskipunar á góðum ísfiski úr veiðiskipum yfir í kæligáma eða aðra gáma kaupskipanna, í stórum og hagkvæmum stíl.

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og fleiri aðilar hafa í rúmt ár sent vikulega flugfarma með ferskan fisk til Bandaríkjanna. Flugið er dýrt, en á móti kemur verðmeiri fiskur, því að bil veiða og neyzlu styttist að mun.

Skelfiskur er viðkvæm sjávarafurð, sem tapar sér meira í frystingu en þorskfiskar gera og þolir enn síður margra daga siglingu. Íslenzk matvæli í Hafnarfirði senda ferskan hörpudisk tvisvar í viku í flugi til Bandaríkjanna.

Víða erlendis fjölgar þeim, sem taka ferskan fisk fram yfir frosinn, alveg eins og íslenzkir neytendur gera sjálfir. Ennfremur vaxa þar upp kynslóðir, sem líta ekki við saltfiski eða skreið, fremur en ungt fólk hér.

Flutningur á ferskum fiski til útlanda, hvort sem er með fiskiskipum, kaupskipum eða vöruflugvélum, er afar æskilegur kostur til viðbótar vinnslu heima fyrir. Og getur raunar skilið milli taps og gróða í sjávarútveginum.

Jónas Kristjánsson

DV