0233
Blaðamennska
Fréttaljósmyndir
Brian Horton, AP Guide to Photojournalism, 2. útgáfa 2001
Hlutverk mynda hefur breyst. Fleir myndir eru notaðar dramatískt. Meiri áhersla er lögð á myndir til að segja sögur og gefa innsýn. Þessi bók er ekki handbók um tækni, hún er bók um innihald. Hún er um myndrænar ákvarðanir blaðamannsins.
Mikið er vitnað í ljósmyndara. Þeir segja frá, hvernig þeir “sjá” frétt. Við reynum að skyggnast inn í hug þessa fólks. Við sjáum, að heppnin er með þeim, sem er vel undirbúnir. Sagt er frá stafrænni ljósmyndun og áhrifum hennar á traust.
Ljósmynda-blaðamennska: Að segja sögu með mynd, skrifa með myndavél, fastsetja andartakið. Henri Cartier-Bresson: “Úrslitastundin.” Ljósmynda-blaðamennska er ekki bara mynd úr stríði á fjarlægum stað, hún er á næsta götuhorni, í ráðhúsinu.
Ljósmynda-blaðamennska nær kjarnanum í hamingju sigurvegarans og einmana andartaki í örvæntingu taparans. Ljósmyndarinn sýnir fólki það, sem það gat ekki séð sjálft. Hann tekur andartak í sögunni og varðveitir það til framtíðarinnar.
Sérstaka ástríðu þarf til að ljósmynda-blaðamennska heppnist. Það er ástríða, sem lyftir einum ljósmyndara upp yfir aðra. Fyrir utan misgóða tækni, þá er það ábyrgð og skuldbinding, sem ræður úrslitum.
Mike Morse: “Sumir líta á allt, sem þeir gera, eins og vinnu og þeir vilja vera góðir iðnaðarmenn. Síðan eru aðrir, sem ljósmynda af ástríðu. Þeir hafa raunverulegan áhuga á starfinu og það sést í myndum þeirra.”
Fréttaljósmyndarinn þarf að hugsa meira eins og blaðamaður heldur en sem ljósmyndari. Menn fara í þetta til að láta að sér kveða, sýna líf fólks, gleði þess og ótta og sorg. Að segja heiminum, hvað sé að gerast kringum hann.
J. Bruce Baumann: “Ljósmyndarar eiga að vera á höttunum eftir nýjum hugmyndum, fara nýjar leiðir, leita að hlutum, sem eru að gerast.” Ljósmyndarinn er undir það búinn að fá kvöldmatinn oft kaldan.
Langir dagar eru algengir. Ljósmyndarar þurfa að taka hundruð ákvarðana á degi hverjum. Verð ég á réttum stað? Næ ég myndinni, sem ég er með í huganum? Verð ég með réttu linsuna og réttan lýsingartíma til að segja söguna?
Amy Sancetta: “Þú verður að elska starfið, því að vinnutíminn, verkefnin, tilfinningalegar hæðir og lægðir eru oft of mikið af því góða, ef þú elskar það ekki. Þetta er starf að sköpun.” Ef þú nærð ekki góðu myndinni, líður þér illa.
J. Pat Carter: “Ljósmyndarar geta ekki verið töffarar.” Margir ljósmyndarar hafa verið viðstaddir mikinn harm og mikla sorg. Þetta þyrmir yfir marga ljósmyndara. En þeir hafa vinnu að vinna. Þeir eru augu umheimsins að atburðinum.
Ed Reinke myndaði umferðarslys, þar sem rúmlega tuttugu ungmenni fórust í rútu, og var næstu daga að mynda eftirleikinn, jarðarfarir og kveðjuathafnir: “Ég var kominn á leiðarenda, ég gat ekki meira.” Hann varð að taka nokkurra daga frí.
Longstreath áfram: “Þú verður að bera þungann af augnaráði og reiðiorðum. Þú verður að hafa meðvitund um þarfir fólks og ljósmynda af tilfinningu.” Michael DuCille: “Þú verður að umgangast viðfangsefnið af virðingu og án fordóma.”
Ljósmyndari veit, hvenær hann á að hætta að mynda og draga sig í hlé. Jerome Delay: “Þú sérð, þegar þú ert kominn inn í einkalíf fólks. Þetta er eins og að dansa með úlfunum.” Andspænis persónu sem hefur misst ástvin í slysi eða stríði.
Til þess að ljósmyndarar geti unnið sig upp virðingarstigann, þurfa þeir að geta talað mannamál við fólk um ljósmyndir. Ef menn geta tjáð sig á skiljanlegan hátt, fá þeir meiri virðingu, sem leiðir til þess, að þeir klifra upp stigann.
Ljósmyndari þarf að “selja” yfirmönnum ljósmynd eins og blaðamaður “selur” frétt. Hann talar ekki um “visual impact”, heldur notar orð, sem fólk skilur. Hann útskýrir sögugildi myndarinnar með sömu hugtökum og aðrir blaðamenn.
Ljósmyndari á uppleið hefur þann forgang, að hann þekkir fleiri svið ritstjórnar en skrifin ein. Áður var ljósmyndin ekki hluti af því mynstri, heldur viðbót. Nú er ljósmyndin eins mikill hluti af sögunni og skrifaði textinn er.
Því er eftirspurn eftir fólki, sem skilur ljósmyndir og áhrif þeirra á notendur fjölmiðla. Afleiðingin af því er, að upp á síðkastið er farið að ráða millistjóra ljósmyndadeilda sem fréttastjóra á dagblöðum.
Þessi bók er skrifuð að því gefna áliti, að þú kunnir á myndavél, vitir um lýsingartíma og kunnir að fara með stafrænar myndir á skjá. Hún er tilraun til að leiða þig áfram upp úr tækninni og yfir í góða ljósmynda-blaðamennsku.
Sjá nánar: Brian Horton, AP Guide to Photojournalism, 2. útgáfa 2001