Eins árs neyðarbirgðir.

Greinar

Með vaxandi ófriði í þriðja heiminum og með vaxandi spennu austurs og vesturs þurfa Íslendingar að leggja aukna áherzlu á að undirbúa neyðaraðgerðir til að mæta hugsanlegri stöðvun á aðflutningum til landsins.

Hér í landinu þurfa jafnan að vera til matvæli til langs tíma. Ennfremur nauðsynlegustu rekstrarvörur atvinnuveganna og ber þar hæst olíur og bensín. Þessa þörf er skynsamlegt að meta og safna síðan birgðum til samræmis.

Grundvöllur matvælabirgðanna eru frystigeymslur fiskvinnslustöðvanna. Þar eru matarbirgðir til mjög langs tíma. Telja má líklegt, að fáar þjóðir eigi svo miklar birgðir í hlutfalli við innanlandsneyzlu.

Þetta þarf auðvitað að staðfesta með því að gera úttekt á birgðunum árið um kring. Jafnframt þarf að kanna, að hve miklu leyti olíuskortur gæti dregið úr möguleikum á að halda frosti á fullu í frystigeymslunum.

Þetta tengist aðgerðum til að láta innlenda orku leysa olíuvörur af í sem allra mestum mæli og aðgerðum til að gera innlend orkuver sem allra minnst háð olíuvörum. Mikilvæg skref hafa verið stigin í þessa átt.

Því hefur verið haldið fram, að rangt sé að treysta um of á frystigeymslurnar í neyðarástandi. “…hætt er við, að það þætti fábreyttur kostur til lengdar”, var sagt í kjallaragrein hér í blaðinu fyrr í vetur.

Á hitt ber þó að líta, að í neyðarástandi á borð við stöðvun aðflutninga hafa menn sennilega veigameiri áhyggjur en þær, hvort fiskurinn, sem þeir borða, sé einhæfur eða ekki. Meginatriðið er að hafa einhvern mat.

Til viðbótar væri að vísu æskilegt að hafa matvæli, sem geymast vel og gefa fjölbreytni á móti fiskinum. Þar kemur helzt til greina hveiti og annað korn, sem geyma mætti í þar til gerðum kornhlöðum mánuðum saman og jafnvel lengur.

Sennilega verður olíuskortur langsamlega hættulegasta vandamál okkar. Öll samgöngutæki okkar ganga fyrir olíuvörum. Landbúnaðurinn byggist á olíu. Og síðast en ekki sízt eru fiskveiðarnar keyrðar á olíu.

Olíubirgðir í landinu hafa farið vaxandi á síðustu misserum og nema nú um 60-70 daga notkun. Þrátt fyrir aukninguna eru þetta augljóslega allt of litlar birgðir, því að neyðarástand getur staðið miklu lengur.

Spor í rétta átt felst í frumvarpi, sem liggur fyrir alþingi, um aðild Íslands að Alþjóða orkustofnuninni. Meðal annars gerir frumvarpið ráð fyrir, að Íslendingar skuldbindi sig til að auka olíubirgðir upp í 90 daga notkun.

Þetta á að taka okkur fimm ár og ekki að kosta neitt viðbótarrými í geymum, því að þeir eru nú nýttir minna en 60%. Hins vegar þýðir þetta 1,6% hækkun olíuverðs, sem er lítið gjald fyrir aukið öryggi.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram, að flest aðildarlönd Alþjóða orkustofnunarinnar eru komin með um 130 daga olíubirgðir. Við þurfum að feta sömu braut til að auka öryggi okkar við óvænta stöðvun aðflutninga.

Í rauninni þurfum við að eiga hér bæði mat og olíur til að minnsta kosti heils árs. Við erum í hópi þeirra þjóða, sem mest eru háðar utanríkisviðskiptum. Við verðum því að kunna að bregðast við stöðvun slíkra viðskipta.

Jónas Kristjánsson

DV