Smjörfjöll og borðvínsvötn

Greinar

Kjarnorkusprengjan á alþjóðamarkaði landbúnaðarafurða er bandaríska smjörfjallið, sem nemur 300-400 þúsund tonnum. Bandarísk stjórnvöld hafa hvað eftir annað hótað að selja það fyrir slikk til að laga markaðsverðið.

Aðallega er það Efnahagsbandalag Evrópu, sem á undanförnum árum hefur haft forgöngu um að halda uppi óeðlilega háu verði á smjöri til að vernda fjárhag bænda sinna. Þess vegna hafa myndazt smjörfjöll beggja vegna hafsins.

Stundum hefur Efnahagsbandalagið grynnkað á smjörfjallinu og létt þrýstingi af smjörmarkaði með því að selja Sovétríkjunum mikið magn á verði, sem nemur innan við einn tíunda af kostnaði við smjörframleiðslu á Íslandi.

Þessi óbeina efnahagsaðstoð við Sovétríkin hefur farið mjög í taugar bandarískra stjórnvalda, auk þess sem evrópska smjörútsalan hefur valdið örari vexti bandaríska smjörfjallsins en verið hefði að öðrum kosti.

Smjördæmið er aðeins eitt af mörgum um, að heimsmarkaðsverð á landbúnaðarvörum mun enn lækka á næstu árum vegna mikillar offramleiðslu í Bandaríkjunum og Efnahagsbandalagi Evrópu. Þessi offramleiðsla er kerfisbundin.

Aðstæður valda því, að margar greinar landbúnaðar eru hagkvæmastar í rekstri í Bandaríkjunum. Aðeins á afmörkuðum sviðum geta einstök lönd þriðja heimsins keppt við hinn sérstaklega öfluga bandaríska landbúnað.

Efnahagsbandalagið hefur byggt upp gífurlega flókið og dýrt varnarkerfi gegn hinni bandarísku framleiðni. Miklum meirihluta fjárlaga bandalagsins er varið til margs konar niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta.

Kerfi Efnahagsbandalagsins er að mörgu leyti svipað íslenzka kerfinu. Tilgangurinn er hinn sami. Reynt er að hindra búferlaflutninga með því að halda uppi duldu atvinnuleysi í landbúnaði, – halda uppi þarflausri framleiðslu.

Efnahagsbandalagið kaupir hinar óseljanlegu afurðir, svo sem korn, mjólkurvörur, kjöt, borðvín, ávexti og grænmeti og myndar úr þeim hin frægu smjörfjöll og borðvínsvötn, sem leita síðan útrásar með ýmsum hætti.

Ein leiðin er að hvetja til aukinnar neyzlu innan bandalagsins með niðurgreiðslum, sem skekkja vöruverðið. Önnur er að losna við afurðirnar af markaði með því að selja þær fyrir slikk út úr bandalagssvæðinu.

Þannig hefur borðvínsvatnið verið eimað og selt sem spritt á flutningskostnaðarverði til Sovétríkjanna, nákvæmlega eins og gert hefur verið við smjörfjallið. Þetta er sama og við höfum gert við íslenzka kjötfjallið og ostafjallið.

Sem dæmi um kostnað við allt þetta má nefna, að útflutningsuppbæturnar nema árlega sem svarar átta íslenzkum fjárlögum, ýmsir styrkir átján íslenzkum fjárlögum og birgðahaldið eitt nemur þremur íslenzkum fjárlögum.

Þegar Efnahagsbandalagið varð í fyrra að skera niður fjárlög sín, kom það niður á öllum öðrum liðum en landbúnaðarvitleysunni. Vaxandi offramleiðsla heldur því áfram að vera orsök viðskiptastyrjalda og sífelldrar útsölu landbúnaðarafurða.

Stuðningsmenn íslenzkrar framleiðslu á kjöti og mjólkurvörum geta ekki vænzt betri tíðar um fyrirsjáanlega framtíð. Alþjóðamarkaðurinn og útsölur hans munu framvegis sem hingað til hossa kaupendum á kostnað framleiðenda.

Jónas Kristjánsson

DV