Góðar tillögur um stjórnarskrá.

Greinar

Um það bil fimm þingsæti eru á vergangi milli kjördæma vegna núverandi aðferðar við úthlutun uppbótarþingsæta. Þetta veldur þeim óþægindum, að kjósendur vita ekki fyrirfram, hve margir þingmenn falla í hlut kjördæmisins.

Samkvæmt nýju aðferðinni, sem forustumenn stjórnmálaflokkanna hafi samið um, má búast við, að einungis eitt þingsæti verði á slíkum vergangi. Er til mikilla bóta að draga þannig úr pólitískum happdrættisvinningum.

Annar kostur samkomulagsins um nýja kjördæmaskipun er, að þingmönnum mun aðeins fjölga um þrjá, sem er mun minna en menn óttuðust fram eftir vetri. Fjölgun um 5% er ekki mikil á þessum tíma hárra prósentutalna.

Hinu er ekki að leyna, að samkomulagsleiðin er lakari en annar 63ja þingmanna kostur, sem virtist ætla að verða ofan á fyrir áramótin. Þar var ekki gert ráð fyrir neinum uppbótarmönnum með tilheyrandi happdrættisóvissu.

Nauðsynlegt er að minna á, að það var um síðir af annarlegum ástæðum, að forustumenn Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags höfnuðu betri aðferðinni. Þeir óttuðust, að hún mundi um síðir spilla meirihluta í Reykjavík og á Norðfirði.

Auðvitað var unnt að girða fyrir þetta, svo sem gert er annars staðar, þar sem þessi aðferð hefur lengi verið notuð með góðum árangri. En þetta sýnir, að litlir kallar ráða ferðinni hjá okkur, jafnvel í stjórnarskrármáli.

Að beztu leiðinni frágenginni er hin endanlega niðurstaða hin næstbezta og frambærileg sem slík. Sérstaklega ber að fagna, að samkomulag skuli yfirleitt hafa tekizt um svo viðkvæmt og erfitt mál sem kjördæmamálið.

Önnur atriði, sem stjórnarskrárnefnd hefur meira eða minna orðið sammála um að leggja til, að verði í nýrri stjórnarskrá lýðveldisins, eru yfirleitt til bóta. Þau hæfa nýjum aðstæðum betur en hin eldri ákvæði gera.

Helzt eru það ákvæði um eignarétt, sem þvælzt hafa fyrir nefndinni. Þar að baki er grundvallarágreiningur pólitískra hugmyndakerfa. Á því sviði verður seint fundin samkomulagsleið, sem þingmenn samþykki einum rómi.

Samkvæmt tillögunum á að skerða rétt til þingrofs, þrengja heimild til setningar bráðabirgðalaga og banna afturvirkni skattalaga. Sérstakur ármaður alþingis á að gæta réttar borgara ríkisins. Alþingi á að verða ein málstofa.

Mannréttindi eiga að verða í samræmi við sáttmála Evrópuþjóða og Sameinuðu þjóðanna. Nefndir alþingis eiga að fá aukinn rétt til aðhalds að framkvæmdavaldi. Þjóðaratkvæðagreiðslum á að vera unnt að beita í auknum mæli.

Við fyrstu sýn virðist mega allt gott segja um þessar tillögur og ýmsar fleiri. Að sjálfsögðu þarf að skoða þær rækilega á þingi, í nefndum þess og úti í þjóðfélaginu. Við gerð stjórnarskrár er flas ekki til fagnaðar.

Ekki eru menn á eitt sáttir um, hvort unnt sé að ná samkomulagi um fleira en kjördæmamálið fyrir þingrof, ef kosningar verða í apríl. Meiri líkur eru á, að það takist, ef kosningarnar verða ekki fyrr en í júní.

Á allra næstu vikum mun koma í ljós, hvort unnt verður að ljúka stjórnarskrármálinu á þessu þingi. Að fengnu samkomulagi um kjördæmamálið er vafasamt, að efnisleg rök séu haldbær gegn slíkri heildarafgreiðslu.

Jónas Kristjánsson

DV