0243 Fréttamennska

0243

Blaðamennska
Fréttamennska

Námskeið í fréttamennsku er til
1) að kenna þér blaðamennsku af ýmsu tagi við ýmiss konar miðla,
2) að gefa þér bakgrunn þekkingar til að skrifa nákvæman og vel upplýstan texta,
3) að benda þér á gildi, sem stjórna blaðamennsku.

Þar verður kennt að
* afla frétta,
* fá þær staðfestar og
* skrifa þær.
Hér á landi þarf að leggja mikla áherzlu á miðliðinn, staðfestinguna. Oft er mikill misbrestur á, að honum sé fylgt.

Þar verður kennd fréttamennska við tímarit, dagblöð, útvarp, sjónvarp og nýja miðla.
Þessi bók er ekki sérstaklega fyrir prentmiðla. Hún lítur jafnt á alla fréttamiðla. Hún segir frá nýmiðlun. Hún lýsir stöðu frétta og fréttamennsku árið 2006.

Hvort sem blaðamaðurinn skrifar um körfuboltaleik, minningargrein eða um ávarp forsetans við þingsetningu, þá fylgir hann sömu meginreglum hugsunar og tækni, sem um langan aldur hafa stjórnað vinnu blaðamanna á miklu breytingaskeiði.

Blaðamenn leita að hinu nýja og mikilvæga, sem þeir telja að muni upplýsa lesendur þeirra, áhorfendur og hlustendur. Þeir finna þessum upplýsingum form í sögu, frétt eða grein, sem fullnægir kröfu notandans um að fá að vita.

“Þekking mun ráða yfir vanþekkingu. Fólk, sem vill stjórna sér sjálft, verður að vopnast þekkingu. Stjórnvöld, sem eru án upplýsts almennings og án aðferða við að fá upplýsingar, verða að farsa eða harmleik.”
James Madison

Þróun fjölmiðlunar hefur verið þessi: Krítuð veggblöð. Færanlegt letur. Ritsími. Sími. Útvarp. Sjónvarp. Gervihnettir. Veraldarvefur. Vefsími. Tiltækar upplýsingar eru ótæmandi, sumt af þeim er gott og brúkanlegt, en mikið af því er ekkert nema rusl.

Upplýsingaöldin hefur bylt heiminum og blaðamennskunni. Milljónir manna sameinast á internetinu. Upplýsingar um hvaðeina eru aðgengilegar. Þótt blaðamennska breytist við þetta, munu grundvallarhæfni hennar og viðhorf ekki breytast.

Einhver verður að finna rétta efnið á veraldarvefnum, koma því í skiljanlegt form og túlka það, svo að það verði almenningi gagnlegt. Það gera blaðamenn, af því að þeir fjalla um allt. Á grundvelli kunnáttu í móðurmálinu og mannlegum samskiptum.

Blaðamenn þurfa líka að hafa dómgreind og skilning, geta skrifað einfaldan og skýran texta, geta haldið ró sinn undir þrýstingi, búa yfir góðu siðferði, á hvaða sviði fjölmiðlunar, sem þeir vinna. Þeir þurfa að ná réttum staðreyndum.

Internet er nýjasta skref miðlunar. Síðustu hálfa öld hefur orðið mikil hröðun í framleiðslu upplýsinga. Mikilvægir atburðir eru kunnir um allan heim nokkrum mínútum eftir að þeir gerast. Forfeður okkar höfðu fátæklegar upplýsingar.

Áður voru fréttaskrif einkum línuleg, fóru frá upphafspunkti eftir línu til lokapunktar. Nú er meira um mósaík. Notendur eru vanir veraldarvefnum, þar sem menn geta farið inn í alls konar tengda vefi og hliðarvefi, lesið fram og aftur.

Mikilvægt er, að fólk hætti ekki að fylgjast með fréttum, sem varða líf þess og framtíð. Með minnkandi fréttum af þjóðmálum og samfélagsmálum er stefnt í átt til þeirrar hættulegu stöðu, að borgararnir viti ekki nógu mikið um samfélagið.

Mary McGrory dálkahöfundur sagði: “Engin mikilmenni hringja í mig. Viltu vita hverjir? Tapararnir. Þeir hringja. Ef þú vilt losna við blýnámur. Ef þú vilt vernda börn gegn ofbeldi, heimskum lögum og dómurum, þá hefurðu símanúmer mitt.”

Clifford Levy (NYT) sagði, þegar hann fékk Pulitzer fyrir greinar um geðsjúka: “Þetta var hefðbundið dæmi um að gæta þeirra, sem ekki geta gætt sín sjálfir.” Flestir blaðamenn, sem skipta máli, hafa áhyggjur af misbeitingu valds, valdníðslu.

Blaðamaðurinn veit, að lýðræði er við góða heilsu, þegar fólk fær að vita um, hvað forstjórar stórfyrirtækja og ríkisvalds hafa fyrir stafni. Aðeins með nægum upplýsingum getur fólk veitt valdamönnum aðhald. Valdamenn vilja hins vegar vera í friði.

Jack Fuller við Chicago Tribune sagði: “Aðaltilgangur blaðamennsku er að segja sannleikann, svo að fólk hafi nægar upplýsingar til að vera fullvalda.” Walt Whitman sagði: “Ekki líður sá dagur, að harðstjórn geti ekki borist hingað.”

Thomas Jefferson forseti sagði:
“Ef ég mætti velja um, hvort við hefðum ríkisstjórn án dagblaða eða dagblöð án ríkisstjórnar, mundi ég hiklaust velja síðari kostinn.”

Aðalheimild:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10. útgáfa 2006

Fréttamennska:
Tengt þessu námskeiði um blaðamennsku er sérstakt námskeið um fréttamennsku.