Grínisti ársins.

Greinar

Um og upp úr áramótum er vinsælt að líta yfir farinn veg og velja menn ársins á ýmsum sviðum, bæði almennt og í mörgum listgreinum, svo að dæmi séu tekin af framtaki DV. En grínisti ársins hefur ekki enn komizt á þá skrá.

Erfitt verður að sigra Jón Kr. Jóhannesson, útgerðarmann á Þórshöfn, sem grínista ársins 1983. Hann lét nýlega hafa eftir sér nokkur fleyg orð, sem skara framúr öðrum í skemmtilegri ósvífni, – öfugmæli af nýtízkulegri gerð.

Hann sagði: “Ætli að Þórshafnartogarinn sé bara ekki eini togarinn, sem algerlega hefur staðið við afborganir af sínum lánum til sjóðanna síðan hann byrjaði.” Og alla áhugamenn um sjávarútvegsmál rak í rogastanz.

Hvernig var þetta með hinn illræmda Þórshafnartogara, sem hefur hlotið fleiri fermetra af vondu umtali á prenti en nokkurt annað íslenzkt skip? Hafði þjóðin fundið nýjan kraftaverkamann í Jóni Kr. Jóhannessyni útgerðarmanni?

En í rauninni hafði það eitt gerzt, að samkvæmt venju voru tekin 20% af verðmæti afla skipsins til þess að tryggja lánveitendum hluta af vöxtum af hinu gífurlega lánsfé, sem hafði verið lagt til skipsins.

Þessar 1,6 milljón krónur á hálfu ári eru auðvitað bara krækiber af þeim 8,4 milljónum króna, sem útgerð Stakfells átti á þessu sama hálfa ári að greiða í vexti og afborganir, 4,1 milljón í vexti og 4,3 í afborganir.

Ósagða grínið í þessu stórkarlalega dæmi er þó hitt, að heildarverðmæti alls afla Þórshafnartogarans á þessu hálfa ári nam 8,2 milljónum króna. Það var heldur minna en vextir og afborganir skipsins á sama tíma!

Hér sjáum við vandamál nýrra togara í hnotskurn. Skattgreiðendur fjármagna togara, sem fiskar ekki einu sinni upp í vexti og afborganir, hvað þá upp í olíu, veiðarfæri, aflahlut sjómanna og annan óhjákvæmilegan rekstur.

Afleiðingin er, að útgerð togarans getur einungis staðið í skilum með 19% af fjárskuldbindingum sínum, 1,6 milljón krónur af 8,4. Hinar 6,8 milljónirnar lenda á herðum marghrjáðra skattgreiðenda þessa lands.

Hin afleiðingin er ekki síður alvarleg, að úthald þessa togara rýrir aflamagn annarra togara, sem þyrftu ekki nema smávægilega aflaaukningu til að geta staðið í skilum. Togara, sem eru reknir af alvörumönnum.

Sum útgerðarfélög eru rekin með hagnaði, meðan önnur eru rekin með dúndrandi tapi. Togarar Útgerðarfélags Akureyringa hafa 18% afgangs af tekjum til greiðslu vaxta og afborgana, meðan Bæjarútgerð Reykjavíkur hefur minna en ekkert afgangs.

Því miður hafa Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra og Sverrir Hermannsson framkvæmdastofnunarstjóri haft forustu um að koma því inn hjá grínistum, að þeir geti gert út á skattgreiðendur fyrir meira en milljón á mánuði.

Sennilega er enginn maður svo skemmtilega frakkur, að hann geti þar á ofan barið sér á brjóst eins og útgerðarstjóri Stakfells, nema hann haldi í einlægni, að skattgreiðendur hafi hreinlega gefið sér hinn sögufræga togara.

Ef ekki verður snarleg snúið af braut þeirra Steingríms og Sverris, verður alvöru útrýmt úr íslenzkum sjávarútvegi og grínistarnir taka við. Og þá verður sjávarútvegurinn að sams konar kvígildi og landbúnaðurinn hefur löngum verið.

Jónas Kristjánsson.

DV