Ónæði af atkvæðum.

Greinar

Í forustugreinum og fréttum Morgunblaðsins á undanförnum mánuðum hefur borið á bráðskemmtilegum skoðunum á prófkjörum. Biða menn nú eftir, að Morgunblaðið túlki nýjustu prófkjör á suma hátt og það hefur áður gert í vetur.

“Maðkar í mysunni”, sagði Morgunblaðið í fyrirsögn desemberleiðara um kosningasigur Pálma Jónssonar landbúnaðarráðherra á Norðurlandi vestra. Í leiðaranum sagði blaðið, að þáttakan í prófkjörinu væri “magnað pólitískt hneyksli”.

Forsenda þessara athyglisverðu kenninga er, að þátttakan var 15% meiri en kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu í síðustu alþingiskosningum. Slíkt kann auðvitað ekki góðri lukku að stýra að mati Morgunblaðsins:

“Ekki fer hjá því, að í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Norðurlandskjördæmi vestra hafi þeir menn greitt atkvæði, sem áður hafa stutt andstæðinga Sjálfstæðisflokksins.” Þetta er orðrétt úr annarri forustugrein blaðsins.

Um leið krafðist Morgunblaðið þess, að kjördæmisráðið léti ekki hneykslið “sem vind um eyru þjóta”. Áfram hélt blaðið og sagði: “Er ekki eðlilegt, að rannsókn fari fram og þá væntanlega undir forustu miðstjórnar …”

Í framhaldi af þessu þurfa allir vel innrættir menn að leggja höfuðið í bleyti til að finna lausn á þeim vanda, sem myndast af því, að kjósendur, er áður hafa stutt aðra flokka, fara allt í einu að ónáða Sjálfstæðisflokkinn með atkvæði sínu.

Auðvitað getur verið vont fyrir litla, sæta stjórnmálaflokka, ef alls konar pakk fer að kjósa þá og gera þá að stórum og ljótum flokkum, sem gætu álpazt til að hafa aðrar skoðanir á stjórnmálum en Morgunblaðið hefur.

Spurningin er bara, hvað hægt sé að gera til að losa mysuna við ásókn maðkanna. Ekki er hægt að mæla framsóknartilhneigingar með blóðprufu, svo að sennilega er heppilegast að leita aðstoðar Morgunblaðsins.

Þeir kjósendur, er hefðu í huga að ónáða Sjálfstæðisflokkinn með atkvæði sínu, gætu þá snúið sér til Morgunblaðsins, sem gæfi þá út siðferðisvottorð, er veitti hjartahreinum kjósendum aðgang að hinum skelfilegu prófkjörum.

Morgunblaðið gleymdi að taka þráðinn upp af fullri hörku, þegar þátt tóku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Vesturlandi 9% fleiri en þeir, sem greiddu þar flokknum atkvæði í síðustu kosningum. En þá kom annað á bátinn:

“Friðjón Þórðarson dómsmálaráðherra hlaut kjör í efsta sæti lista sjálfstæðismanna á Vesturlandi með 1007 atkvæði í það sæti, sem er aðeins 54% af gildum atkvæðum, er Friðjón þó vel kynntur í kjördæminu.”

Þegar stórfelldur kosningasigur er túlkaður á þennan hátt, biða menn auðvitað í ofvæni eftir, að Morgunblaðið haldi áfram og túlki nýjustu prófkjörsúrslit sem svo, að Þorsteinn Pálsson hafi “aðeins” fengið 33% á Suðurlandi. Og hvað um prósentur Geirs?

En prófkjörið á Suðurlandi gefur Morgunblaðinu kjörið tækifæri til að rifja aftur upp kenninguna um “maðka í mysunni”, því að þar kusu 21% fleiri en samtals kusu báða lista flokksins í síðustu kosningum.

Hér með er auglýst eftir lausnum á þeim vanda Morgunblaðsins, að alls konar siðlaust pakk skuli leyfa sér að láta af stuðningi við aðra flokka og taka upp á að ónáða Sjálfstæðisflokkinn og óhreinka hann með atkvæði sínu.

Jónas Kristjánsson.

DV