Hér er lausnin.

Greinar

Á tímum stjórnleysis og efnahagsöngþveitis, verðbólgu og atvinnuskorts getum við huggað okkur við, að þetta eru að töluverðu leyti mannanna verk, einkum stjórnmálamannanna. Þetta eru því verk, sem má endurbæta.

Okkur ættu að duga tvö ár til að ná verðbólgunni niður í næstum ekki neitt og fjögur ár til að verða ein allra tekjuhæsta þjóð í heimi. Það getum við með því að framkvæma sumpart strax og sumpart í áföngum það, sem hér verður rakið:

Niðurgreiðslur landbúnaðarafurða ber að leggja niður og nota sparnaðinn til að lækka söluskatt, einkum á matvælum. Staða neytenda mundi haldast óbreytt, um leið og verulega yrði dregið úr verðmætabrennslu í landbúnaði.

Alla styrki og útflutningsuppbætur til aldraðra atvinnugreina ber að leggja niður og nota sparnaðinn til að styðja aukningu atvinnutækifæra í nýjum greinum, til dæmis sem svarar tekjum ríkisins af þessum nýju tækifærum.

Til þess að draga úr búseturöskun mætti hafa stuðninginn meiri en ella í þeim tilvikum, að hin nýju tækifæri væru í sömu héruðum og nú búa við hið dulbúna atvinnuleysi, sem felst í sumum öldruðum atvinnugreinum, einkum landbúnaði.

Ríkið fær auknar skatttekjur af flutningi atvinnutækifæra frá forréttinda- og skattfríðindagreinum yfir í arðbærar greinar. Það getur gefið muninn eftir með því að greiða hluta launa viðbótarstarfsliðs hinna nýju greina.

Innflutningsbann á landbúnaðarvörum og útflutningshömlur á ferskum fiski ber að afnema, svo að verðlag afurða innanlands komist í samhengi við alþjóðlegt verð á sömu afurðum eða hliðstæðum afurðum, og innlend framleiðni verði mælanleg.

Samhliða frjálsum siglingum með afla ber að hætta opinberri skráningu verðs á erlendri mynt og heimila frjálsa notkun hennar í innlendum viðskiptum, svo að ekki sé lengur með seðlaprentun hægt að búa til séríslenzka verðbólgu.

Samhliða þessu ber ríkinu að hætta afskiptum af fiskverði og taka upp sölu eða útboð veiðileyfa, svo að útgerð færist úr höndum grínista til þeirra, sem bezta afkomu hafa í greininni. Þannig verði tryggð markaðsgeta sjávarútvegsins.

Vexti ber að gefa frjálsa og banna auk þess sérstaklega allar lánveitingar, sem ekki eru að fullu verðtryggðar, þar á meðal afurðalán og lán úr ýmsum sérsjóðum forréttindagreina, svo að féð renni til arðbærrar iðju.

Taka ber upp fastar reglur um notkun innlendrar framleiðslu umfram erlenda upp að vissu marki, t.d. upp að 10% af innlendu vinnsluvirði eða öðru því marki, sem jafngildir tekjum hins opinbera af innlendri framleiðslu umfram erlenda.

Núllgrunnsaðferð ber að taka upp við gerð fjárlaga og fjárhagsáætlana hins opinbera. Það hafi fasta hlutdeild í þjóðartekjum og deili þeim hluta síðan niður í einstakar, meintar þarfir, í stað þess að hlaða upp óskhyggjupökkum.

Hagnýta ber reynslu ýmissa smáþjóða af þægilegum tekjuöflunarleiðum, svo sem mótun skattaparadísar fyrir erlent fjármagn, markvissari útgáfu frímerkja og markvissari útgerð á ráðstefnumarkað í ferðamannaþjónustu.

Hér er ekki rúm til að nefna fleiri atriði, en þessi ættu að duga til að stöðva verðbólguna, tryggja fulla atvinnu í næstu áratugi, gera Íslendinga að tekjuhæstu þjóð á Vesturlöndum og grunnmúra forsendur fullveldis okkar.

Jónas Kristjánsson

DV