Prófkjör eru nauðsyn.

Greinar

Um nokkurt skeið hefur verið í tízku að finna prófkjörum flest til foráttu. Upphlaup sjálfstæðismanna á Vestfjörðum bendir þó til, að fjölmennir flokkar komist ekki hjá prófkjörum, ef þeir vilja mæta kosningum í heilu lagi.

Kjördæmisþing sjálfstæðismanna á Vestfjörðum sýnir, að fulltrúar ýmissa tveggjamannafélaga geta ekki lengur komið saman til að ráðskast með framboðslista. Hinir óbreyttu taka þá til sinna ráða og bjóða fram sér á parti.

Prófkjör eru ekki trygging fyrir innanflokkssáttum um framboðslista. En reynsla þessa vetrar bendir eindregið til, að þau stuðli að slíkum sáttum, að minnsta kosti milli stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga í Sjálfstæðisflokknum.

Því hefur verið haldið fram, að konur eigi erfitt uppdráttar í prófkjörum. Nær væri að segja þær eiga erfitt uppdráttar í stjórnmálaflokkunum, hvort sem þar eru prófkjör eða ekki. Prófkjörin eru ekki sökudólgurinn.

Prófkjörsleysi sjálfstæðismanna á Vestfjörðum var einmitt notað til að sparka konu þeirri, sem hafði verið í baráttusæti flokksins í kjördæminu. Það bendir ekki til, að konur græði á fámennisræði í stjórnmálaflokkunum.

Því hefur einnig verið haldið fram, að nýir og efnilegir menn treysti sér ekki til að taka þátt í prófkjörum og nái heldur ekki árangri í þeim. Prófkjörin festi bara gömlu og úrbræddu skrjóðana í sessi.

Víst eru reyndir stjórnmálamenn fyrirferðarmiklir í prófkjörum, alveg eins og þeir eru í kjördæmisráðum og öðrum fámennisstjórnum. En þess eru einnig dæmi, að nýir menn taki þá gömlu á beinið í prófkjörum.

Hjá sjálfstæðismönnum á Suðurlandi lentu nýir menn í tveimur efstu sætum, þeir Þorsteinn Pálsson og Árni Johnsen. Og á Norðurlandi eystra náði Björn Dagbjartsson þriðja sæti, sem telja verður vonarsæti hjá sjálfstæðismönnum.

Því hefur ennfremur verið haldið fram, að með prófkjörum hafi peningaaustur, lýðskrum og uppákomur haldið innreið sína í stjórnmálin. Illa fjáð hæglætisfólk eigi ekki lengur von um frama í stjórnmálunum.

Réttara er, að oft fer fé og fyrirhöfn fyrir lítið í prófkjörum. Fyrirferðarmikil og skrautleg kosningabarátta dugði til dæmis Guðlaugi Tryggva Karlssyni skammt í prófkjöri Alþýðuflokksins á Suðurlandi.

Prófkjörsmenn hafa yfirleitt ekki beðið fjárhagslegan hnekki af kosningabaráttu. Stuðningsmennirnir, sem ýttu þeim úr vör, hafa ekki verið í vandræðum með að slá saman í kostnað af þeirri stærðargráðu, sem hér tíðkast.

Því hefur loks verið haldið fram, að óviðkomandi fólk úr öðrum flokkum taki þátt í prófkjörum og rugli niðurstöðurnar. Bent hefur verið á, að í sumum tilvikum hefur þátttakan verið heldur meiri en stuðningurinn í síðustu kosningum.

Samt hefur ekki tekizt að leiða rök að því, að flokksandstæðingar hafi náð að breyta sætisröð í prófkjörum þessa vetrar, ekki einu sinni hjá sjálfstæðismönnum á Norðurlandi vestra, þar sem framsóknarmenn voru grunaðir um þátttöku.

Að þessu leyti hafa opin prófkjör ekki reynzt verr en hálfopin. Hin síðarnefndu eru mun betri en engin. En opnu prófkjörin eru bezt, ekki sízt ef flokkarnir gætu sætzt á svo sjálfsagðan hlut að halda þau sameiginlega.

Jónas Kristjánsson

DV