Höggvið á hnútinn.

Greinar

Ekki vannst tími í gær á alþingi til að afgreiða næstum hálfs árs gömul bráðabirgðalög um efnahagsmál, því að menn þurftu nægan tíma til að tjá sig um nokkurra daga gamla tillögu um mótmæli gegn hvalveiðibanni.

Við verðum því enn að bíða fram yfir helgi til að komast að, hvort alþingi fellir bráðabirgðalögin á jöfnu til að koma verðbólgunni úr 70% upp í 100%, – sem nýju veganesti fyrir þá ríkisstjórn, er tekur við eftir kosningar.

Hitt vitum við nú þegar, að alþingi samþykkti með eins atkvæðis meirihluta að mótmæla ekki hvalveiðibanninu. Meirihlutann mynduðu tólf sjálfstæðismenn, níu alþýðubandalags-, fjórir framsóknar-, þrír alþýðuflokks- og einn jafnaðarmaður.

Í minnihlutanum lentu þrettán framsóknarmenn, níu sjálfstæðismenn og sex alþýðuflokksmenn. Þannig féllu atkvæði þvert á flokkslínur í voldugri leiksýningu, þar sem þingmenn gerðu í heilum ræðum grein fyrir atkvæði sínu, – til að komast á skjáinn.

Hvalamálið hefur alténd fengið lýðræðislega afgreiðslu, tilskilinn og löglegan meirihluta á alþingi. Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra þarf ekki að bera ákvörðun sína á bakinu um aldur og ævi.

Alþingi komst að annarri niðurstöðu en Steingrímur og meirihluti ríkisstjórnarinnar, af því að þingmenn töldu víðtæka, en óljósa hagsmuni af freðfiski mikilvægari en þrönga og ljósa hagsmuni af hvalveiðum.

Sumpart er gott, að svona fór. Erfiðara hefði verið að vera klofin þjóð um hina niðurstöðuna, sérstaklega, ef illa hefði farið í utanríkisviðskiptum. Nú erum við hins vegar á lygnum sjó í skjóli diplómatískrar niðurstöðu málsins.

Bæði stjórnvöld og þrýstihópar í Bandaríkjunum beittu sér í málinu. Í þrýstingnum fóru bandarísk stjórnvöld út fyrir velsæmismarkið, þegar þau buðu fiskveiðifríðindi í skiptum fyrir samþykki hvalveiðibannsins.

Þetta ósæmilega tilboð var hvorki Bandaríkjunum né okkur til sóma. Við teljum okkur ekki vera neitt bananalýðveldi. Og vonandi verða okkar menn aldrei til þess að rifja upp boðið, þótt niðurstaða málsins hafi orðið þessi.

Að baki boðinu lá tvöfalt siðgæði stjórnar, sem vill banna öðrum hvalveiðar, en neitar sjálf að undirrita hafréttarsáttmála, – sem vill neita viðskiptum við þá, sem skjóta hvali, þótt hún eigi blómleg viðskipti við þá, sem skjóta menn.

Eyjólfur Konráð Jónsson hafði rétt fyrir sér í gær, er hann sagði, að við hefðum átt að mótmæla fyrr, ef við ætluðum það, en ekki geyma afstöðu fram á síðustu stund og taka hana undir þrýstingi í brennidepli heimsfrétta.

Samt læðist að sú hugsun, að ríkisstjórn með véfréttamenn á borð við Gunnar Thoroddsen og Ólaf Jóhannesson innan borðs hefði getað sent virðulegt og óskiljanlegt skeyti án mótmæla, en með ýmsum torskildum fyrirvörum.

Annað eins hefur gerzt í diplómatíu, að menn sendi svör, er aðrir túlka sem já, þótt höfundar geti síðar túlkað þau sem nei, ef aðstæður breytast á þann hátt, að auðveldara verði að fylgja eftir eigin hagsmunum.

En hvað sem Talleyrand hefði gert, þá hefur nú verið höggvið hreinlega á hnútinn. Við höfum fórnað peði fyrir tryggara framhald skákarinnar um þjóðarhag og getum byrjað að ræða þann leiða hag eftir helgi. Eða eftir þar næstu. Altjend síðar.

Jónas Kristjánsson.

DV